Umferð um Þrengslaveg er ekki einsleit. Þungaumferð um veginn mun ekki aukast um 8-11 prósent heldur 20 prósent. Loftslagsávinningur sem ætlað er að koma fram í öðru landi getur ekki talist rökstuðningur fyrir umtalsverðum umhverfisáhrifum á Íslandi. Framsetning á umfangi loftslagsávinnings er auk þess misvísandi.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í umsögnum nokkurra ríkisstofnana á umhverfismatsskýrslu Eden Mining sem áformar umfangsmikla námuvinnslu úr Litla-Sandfelli í Þrengslum. Til stendur reyndar að fjarlægja allt fjallið á næstu þrjátíu árum og senda mikinn meirihluta þess úr landi til notkunar í sementsframleiðslu að sögn framkvæmdaaðila.
Stórtæk námuvinnsla í Litla-Sandfelli er því ekkert smámál. Heilt fjall, þótt lítið sé í samanburði við sum önnur fjöll landsins, verður mulið niður, flutt á stórum flutningabílum um Þrengslaveg sem er mjór, stundum krappur og brattur, og til Þorlákshafnar. Þar verður efnið úr Litla-Sandfelli unnið frekar og loks sent með skipum til Evrópu.
Vilja moka öllu fellinu í burtu
Í stuttu máli er þetta lýsingin á framkvæmdinni eins og hún birtist í umhverfismatsskýrslu sem auglýst var til umsagna í lok sumars:
Eden Mining fyrirhugar að vinna allt að 18 milljón rúmmetra af efni úr Litla-Sandfelli á þremur áratugum. Ráðgert er að moka öllu fellinu í burtu. Efnið á að flytja með vörubílum til Þorlákshafnar og munu fullfermdir bílar aka leiðina um 115 sinnum á dag og tómir til baka – alls 230 ferðir – um Þrengslaveginn. Um 80 prósent alls efnisins verður flutt úr landi.
Samgöngustofa telur að tíðni framúraksturs muni aukast á kaflanum milli Litla-Sandfells og Þorlákshafnar þar sem um sé að ræða töluverða aukningu á umferð stórra, þungra og hægfara bíla. „Sú aukning mun óhjákvæmilega auka líkur á framúrakstri sem hefur neikvæð áhrif á umferðaröryggi á vegkaflanum,“ segir í umsögn stofnunarinnar. „Að auki má búast við aukinni hættu á að það brotni úr vegköntum vegna fjölda þungra ökutækja sem aka um veginn með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á umferðaröryggi.“
Umsögn Vegagerðarinnar er mun ítarlegri. Þar er m.a. gagnrýnt að í umhverfismatsskýrslunni, sem verkfræðistofan EFLA vann fyrir Eden Mining, sé talað um „einsleita þjóðvegaumferð“ á akstursleiðinni frá námu til hafnar. „Vegagerðin telur ekki ljóst við hvað er átt með því en bendir á að við veginn er Raufarhólshellir sem er talsvert sóttur af ferðamönnum.“
Í skýrslunni segi jafnfram að umferð muni aukast um 8-11 prósent á kafla vegarins þar sem nú þegar er nokkuð um þungaflutninga. „Ef gert er ráð fyrir að þungaumferð sé um 10 prósent af heildarumferð um veginn eins og algengt er á þjóðvegum er ljóst að þungaumferð mun tvöfaldast, verða ríflega 20 prósent af heildarumferð,“ segir í leiðréttingu Vegagerðarinnar á þessum þætti skýrslunnar.
Þá telur Vegagerðin ekki rétt að akstursleiðin sé stutt og bein og án nokkurra beygja eins og haldið er fram í skýrslu Eden Mining. Bendir stofnunin á að kvartanir hafi borist vegna þungaflutninga, bæði frá sveitarfélaginu Ölfusi sem og ökumönnum.
Áformaðir flutningar með efni úr Litla-Sandfelli gera það að verkum að flýta þyrfti vegaframkvæmdum sem fyrirhugað var að ráðast í samkvæmt Samgönguáætlun að um 8-12 árum liðnum. Heildarkostnaður gæti orðið um 3,5 milljarðar króna, að mati stofnunarinnar. Auk þess myndi viðhaldskostnaður á Þrengslavegi aukast.
Þá tekur Vegagerðin undir áhyggjur Samgöngustofu og segir að veruleg viðbótarumferð þungra ökutækja myndi hafa neikvæð áhrif á umferðaröryggi. „Miðað við fyrirhugaða umferð má vænta að umferðarslysum fjölgi um 1-2 á ári.“
Umtalsverð umhverfisáhrif
Umhverfisstofnun telur að langvarandi efnistaka í Litla-Sandfelli ásamt mikilli umferð vörubíla um Þrengslaveg muni hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér, bæði sjónrænt sem og vegna aukins álags á innviði í þrjá áratugi. Stofnunin telur að líta hefði þurft til samlegðaráhrifa vegna stórfelldrar efnistöku sem fara mun fram í Lambafelli, sem er í nágrenni Litla-Sandfells, um ókomna framtíð. Hún telur valkost B, skárri og þá sérstaklega ef unnt verður að fækka ferðum frá námunni með lengri vinnslutíma og minni sjónrænum áhrifum efnistökunnar á Litla-Sandfelli.
Umfangsmikið vikurnám er fyrirhugað á Mýrdalssandi og yrði vikrinum ekið þaðan og að öllum líkindum um Þrengslaveg, sömu leið og áformað er að flytja efni úr Litla-Sandfelli um. „Allir þessir flutningar verða viðbót við mikla þungaflutninga sem þegar eru frá Þorlákshöfn um Þrengsli að höfuðborgarsvæðinu,“ segir í umsögn Umhverfisstofnunar.
Mestu áhrif flutninganna á loftgæði verða ekki af hlassinu, sem skal breiða yfir samkvæmt lögum, heldur frá vörubílunum sjálfum, útblæstri þeirra á t.d. sóti og nituroxíð-samböndum en einnig efnisögnum frá sliti á bremsuborðum og dekkjum. Einnig myndu flutningarnir auka uppþyrlun vegryks frá vegyfirborði og stuðla þannig að aukinni svifryksmengun. „Stórir bílar eru mun mikilvirkari í að þyrla upp vegryki heldur en litlir bílar.“ Talið er að einn stór flutningabíll slíti vegum á við að minnsta kosti 10 þúsund fólksbíla.
Í matsskýrslunni kemur fram að tilgangur efnistökunnar sé að nýta meirihluta efnisins sem staðgönguefni flugösku í sementsframleiðslu. Í samantekt skýrslunnar um áhrif framkvæmdarinnar á loftslag kemur fram að árlega muni kolefnislosun minnka um 663 milljón kíló koltvíoxíðs-ígilda vegna steypuframleiðslu þegar búið sé að taka losun vegna flutninga með í reikninginn. Er þar átt við að móberg úr Litla-Sandfelli muni koma í stað svokallaðs sementsgjalls.
Umhverfisstofnun telur þetta misvísandi framsetningu þar sem í skýrslunni komi fram að kolaaska sé nú þegar notuð sem íblöndunarefni í stað sementsgjalls. Því sé þegar búið að ná þessum loftslagsávinningi.
Í skýrslunni segir að framkvæmdaaðili telji efnisvinnslu úr Litla-Sandfelli falla vel að stefnu stjórnvalda um vistvæna mannvirkjagerð og markmið um að draga úr kolefnislosun vegna bygginga á Íslandi. Umhverfisstofnun bendir hins vegar á að til standi að flytja mest allt efnið úr landi og því sé erfitt að sjá hvernig framkvæmdin myndi styðja við þessa stefnu stjórnvalda nema að litlu leyti.
Í umhverfismatsskýrslunni eru einungis metin áhrif á losun á heimsvísu. „Enginn vafi er á því að þeir efnisflutningar sem rætt er um í skýrslunni muni hafa áhrif til aukningar losunar hér á landi,“ segir Umhverfisstofnun. Það myndi gerast með þrennum hætti: Losun gróðurhúsalofttegunda vegna olíubruna vinnuvéla, vegna olíubruna vöruflutningabíla og vegna olíubruna við skipaflutninga efnisins úr landi.
Ísland hefur skuldbundið sig í gegnum EES-samstarf við Evrópusambandið og Noreg til að draga úr losun á beinni ábyrgð Íslands um 29 prósent árið 2030 miðað við árið 2005. Auk þess hafa stjórnvöld hér á landi sett sjálfstæð markmið um að draga úr losun um 55 prósent árið 2030.