Aðalsteinn Kjartansson, sem hefur verið lykilmaður í teyminu sem stendur að fréttaskýringaþættinum Kveik á RÚV, er hættur störfum hjá fjölmiðlafyrirtækinu. Hann segir í stöðuuppfærslu á Facebook að eftir margra mánaða umhugsun hafi hann komist að þeirri niðurstöðu að RÚV „sé ekki vinnustaður fyrir mig eins og stendur.“
Aðalsteinn segist ekki vera að fara í neinu fússi heldur að vandlega athuguðu máli. „Löngunin til að gera góðar fréttir er sannarlega enn til staðar og sem betur fer eru fleiri fjölmiðlar sem geta veitt mér vettvang til þess.“
Tók þátt í stórum opinberunum
Aðalsteinn var hluti af teymi sem vann Kveiks-þátt um Samherja og viðskiptahætti fyrirtækisins í Afríku sem sýndur var í nóvember 2019. Hann skrifaði bókina „Ekkert að fela“ um málið ásamt Helga Seljan og Stefáni Drengssyni og þeir hlutu Blaðamannaverðlaun ársins 2019 fyrir rannsóknarblaðamennsku ásamt Inga Frey Vilhjálmssyni á Stundinni fyrir þá umfjöllun.
Áður vann Aðalsteinn meðal annars hjá Reykjavik Media og var hluti af teyminu sem opinberaði Panamaskjölin árið 2016.
Aðalsteinn var einn þeirra ellefu frétta- og dagskrárgerðarmanna RÚV sem Samherji kærði til siðanefndar RÚV vegna ummæla á samfélagsmiðlum. Siðanefndin sýknaði tíu úr hópnum í niðurstöðu sinni, þar á meðal Aðalstein. Helgi Seljan var hins vegar talinn hafa brotið gegn siðareglum með fjórum ummælum. Mikil óánægja hefur verið með þá niðurstöðu hjá starfsmönnum RÚV og þeir hvatt til þess að siðareglurnar verði endurskoðaðar sem fyrst.