Brynjar Níelsson, aðstoðarmaður Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra, segir að staða útlendingamála sé „stjórnlaus“ á Íslandi og að væntanlegu frumvarpi dómsmálaráðherra til breytinga á útlendingalögum sé ætlað að verða til þess að hægt sé að framfylgja núverandi lögum og koma þeim sem eru hér á landi en hafi verið synjað um alþjóðlega vernd, úr landi.
Aðstoðarmaðurinn sagði, í viðtali í nýjasta hlaðvarpsþætti tímaritsins Þjóðmála, að frumvarp ráðherra, sem nú liggur frammi í samráðsgátt stjórnvalda, snúist um að „færa okkur svolítið nær öðrum“ í þessum málaflokki.
„Þetta er orðið stjórnlaust hér, við komum ekki einu sinni fólki úr landi sem er búið að fá höfnun. Þannig að staðan er núna sú að hver sem kemur í flugvél hér og flýgur til Íslands, hann er bara hér endalaust að óbreyttu. Það er auðvitað ekkert hægt og það er engin þjóð í svona rugli eins og við í þessum málum,“ sagði Brynjar.
Ört stækkandi hópur bíður brottflutnings
Bent hefur verið á þunga stöðu í verndarkerfinu hér á landi á undanförnum mánuðum. Í greinargerð með frumvarpsdrögum ráðherra segir frá því að hópur þeirra einstaklinga sem bíða flutnings úr landi eftir að hafa fengið synjun á umsókn sinni hafi farið ört stækkandi á síðasta ári og hópurinn hafi í lok árs talið 228 einstaklinga.
Þar segir einnig frá því að heildarfjöldi umsækjenda í þjónustu Útlendingastofnunar og Reykjavíkurborgar, Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar, sem þjónusta umsækjendur fyrir stofnunina hafi vaxið hratt og verið 735 í lok árs samanborið við 357 þann 1. júní.
Hægt verði að skylda fólk til læknisskoðana
Í greinargerð með frumvarpsdrögunum segir einnig frá því að stoðdeild ríkislögreglustjóra hafi mætt „nýjum áskorunum“ við að flytja fólk úr landi sem hlotið hafði synjun á umsóknum um alþjóðlega vernd hérlendis, vegna krafna viðtökuríkja um PCR-próf, vottorðs um afstaðna Covid-19 sýkingu eða bólusetningu gegn veirunni.
„Þeir einstaklingar, sem lögum samkvæmt eiga að yfirgefa landið, hafa nýtt sér þessa stöðu og ítrekað neitað að undirgangast PCR-próf og komast þannig undan framkvæmdinni. Jafnframt reyndist erfitt og í sumum tilvikum ómögulegt fyrir stoðdeild að fá upplýsingar frá heilbrigðisyfirvöldum um það hvort einstaklingarnir væru bólusettir eða höfðu þegar fengið Covid-19 sýkingu,“ segir í greinargerð frumvarpsdraganna um þetta efni.
Í frumvarpsdrögunum er lagt til að „útlendingi verði gert skylt að kröfu lögreglu til að gangast undir heilbrigðisskoðun og læknisrannsókn“ ef slík rannsókn sé nauðsynleg til að hægt sé að „tryggja framkvæmd ákvörðunar“ yfirvalda.
Skerpt á því að þjónusta falli niður ef fólk fari ekki af landi brott
Í lagafrumvarpi ráðherra er einnig tilgreint hvenær Útlendingastofnun megi láta þjónustu við umsækjendur sem hafa fengið synjun um alþjóðlega vernd falla niður. Í frumvarpsdrögunum segir að útlendingar sem hafi fengið endanlega synjun í málum sínum hafi til þessa haldið áfram að njóta fullrar þjónustu sem umsækjendur þar til þeir hafi farið af landi brott.
„Þar sem lögin eru að meginstefnu til þögul um hvenær umrædd þjónusta fellur niður hafa sumir útlendingar í þessari stöðu notið óskertrar þjónustu í jafnvel nokkur ár vegna erfiðleika stjórnvalda við framkvæmd flutningsins, m.a. sökum skorts á samstarfi þar um af hálfu útlendingsins,“ segir í greinargerð með frumvarpsdrögunum.
Þess er skemmst að minnast að síðasta sumar svipti Útlendingastofnun allnokkra einstaklinga sem neituðu að undirgangast PCR-próf fyrir brottvísun úr landi þjónustu. Kærunefnd útlendingamála komst í kjölfarið að þeirri niðurstöðu að engin stoð hefði verið fyrir þeirri ákvörðun í lögum.
Með frumvarpsdrögunum er lagt til að öll réttindi til þjónustu á borð við húsnæði, framfærslu, og heilbrigðisþjónustu, falli niður 30 dögum dögum eftir að endanleg ákvörðun í máli umsækjenda er birt. Undanþága er þó lögð til á þessu fyrir börn og forráðamenn þeirra, sem fái enn grunnþjónustu í formi skólagöngu og húsnæðis þrátt fyrir að búið sé að birta þeim ákvörðun um að fara úr landi.
Í greinargerð með frumvarpsdrögunum segir að ólíkt löggjöfinni hér á landi sé það almennt innbyggt í regluverkum og verndarkerfum hinna Norðurlandanna að þjónustustig minnki og falli jafnvel alveg niður þegar útlendingur fái synjun á umsókn sinni og frestur til sjálfviljugrar heimfarar sé liðinn.
„Skiptir þar einna helst máli hversu samvinnufúsir einstaklingarnir eru við undirbúning og framkvæmd flutnings. Geta þannig einstaklingar sem sýna ekki samstarfsvilja við framkvæmd ákvörðunarinnar í vissum tilvikum átt hættu á að missa rétt til þjónustu fram að brottför, s.s. búsetu, heilbrigðisþjónustu og fjárhagsaðstoðar. Á Norðurlöndunum eru einnig rekin svo kölluð lokuð búsetuúrræði (e. detention center, d. asylcentre) sem ætluð eru til vistunar fyrir ríkisborgara þriðja ríkis sem eru í ólögmætri dvöl, t.d. einstaklinga sem hlotið hafa endanlega synjun á umsókn um alþjóðlega vernd og ber lögum samkvæmt að yfirgefa landið. Eins og nafnið gefur til kynna er um að ræða húsnæði sem skerðir verulega ferðafrelsi viðkomandi, oftast með þeim hætti að viðkomandi getur ekki yfirgefið húsnæðið,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.