Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Crowbar Protein hyggist hefja framleiðslu á skordýrapróteinstykki sínu Jungle Bar og hafa til þess opnað fyrir hópfjármögnun á Kickstarter. Þetta er fyrsta evrópska orkustykkið sem framleitt verður úr skordýrahráefni.
Þeir Búi Bjarmar Aðalsteinsson, vöruhönnuður, og Stefán Atli Thoroddsen, viðskiptafræðingur, hafa undanfarið ár gert tilraunir og þróað vöruna með sérfræðingum, meðal annars með þátttöku í StartUp Reykjavík og Gullegginu.
Útkoma vinnu Crowbar Protein síðastliðið ár er Jungle Bar sem framleitt er úr krybbuhveiti (skordýrahráefni vörunnar) döðlum, sesam-, graskers- og sólblómafræjum og súkkulaði. Krybbuhveitið er sérstaklega framleitt í Bandaríkjunum til manneldis úr krybbum sem hafa verið þurkaðar og malaðar í fínt hveiti.
Þeir félagar segja kostir skordýra til matvælaframleiðslu vera marga. Helstu ástæðurnar fyrir þeirra framleiðslu eru „að skordýr eru gríðarlega næringarrík,“ eins og segir í kynningarefni á vef Crowbar Protein. Einnig má rækta skordýr á sjálfbæran og umhverfisvænan hátt.
Opnað var fyrir fjármögnun 10. apríl og verður opið fyrir styrkveitingar í mánuð. Þegar hafa safnast rúmlega 6.000 dollarar af 15.000 dollara markmiðinu sem Búi og Stefán settu sér. Þeir sem leggja til fjármagn fá vöruna senda, þeim mun meira sem lagt er til því fleiri stykki fást send. Fyrstu stykkin eru áætluð í júní.
„Hún [hópfjármögnunin] hefur gengið vonum framar,“ sagði Búi Bjarmar í samtali við Kjarnann. „40 prósent kominn á fyrstu dögunum. Það er draumastart,“ Þegar hefur einn aðili styrkt verkefnið um 1.000 dollara og fær fyrir vikið skordýraskotna fimm rétta máltíð í boði Búa Bjarmars og Stefáns Atla.
Jungle Bar er gert úr döðlum, sesam-, graskers- og sólblómafræjum auk súkkulaði og krybbuhveitisins.