Hópur vísindamanna og frumkvöðla tilkynnti um það fyrr í þessari viku að hann ætlaði sér að endurvekja loðfíla með hjálp erfðatækni með það fyrir augum að loðfílarnir muni flakka um freðmýrar Síberíu. Fyrir verkefninu fer fyrirtækið Colossal sem nýverið tryggði sér 15 milljón dala fjármögnun, sem jafngildir tæplega tveimur milljörðum króna. Vonir forsvarsmanna fyrirtækisins standa til þess að fjármagnið muni gera upprisu loðfílsins mögulega og það innan sex ára.
Fyrir fyrirtækinu fer Dr. George Church sem er líffræðingur við Harvard háskóla. Hann viðraði hugmyndina fyrst opinberlega í Ted fyrirlestri árið 2013 en um það leyti hafði orðið mikil framþróun í rannsóknum á erfðafræði útdauðra dýra. Á þeim tíma varð í fyrsta sinn hægt að endurgera genamengi útdauðra dýra með því að nota deoxýríbósakjarnsýru dýranna, DNA þeirra, sem fengið var úr steingervingum. Þar með var orðið mögulegt að skoða hvað það er í erfðaefni útdauðu dýranna sem greinir þau frá náskyldum dýrategundum sem enn eru til staðar.
Blanda erfðaefni loðfíls í frumur Asíufíls
Á heimasíðu Colossal segir að fyrirtækið ætli sér ekki beinlínis að reisa loðfílinn upp frá dauðum, heldur sé markmiðið að búa til kuldaþolinn fíl sem er líffræðileg hliðstæða loðfílsins. „Dýrið mun ganga eins og loðfíll, líta út eins og hann og hljóma eins og hann en það sem skiptir mestu máli er að dýrið mun búa í þeim vistkerfum sem útrýming loðfílsins skildi eftir yfirgefin,“ segir á vef Colossal.
Vonir vísindamannanna sem fara fyrir verkefninu er að dýrið verði eins konar blendingur loðfíls og Asíufíls sem mun standast nístingskulda freðmýranna. Asíufíllinn er náskyldur loðfílum og í útrýmingarhættu. Vísindamennirnir ætla að búa til fósturvísi á tilraunastofu sem mun bera erfðaefni loðfíls. Til að byrja með eru húðfrumur Asíufíls teknar og þær erfðabreyttar þannig að þær beri erfðaefni loðfíla.
Vísindamennirnir bera saman genamengi loðfílsins, sem eru fengin úr loðfílum sem fundist hafa varðveitt í freðmýrum, og Asíufílsins og ætla þannig að einangra þá erfðavísa loðfílanna sem gera það að verkum að þeim vex feldur og þeir hafa þykkt fitulag sem gerir þeim kleift að búa við mikinn kulda. Úr þessu verður til egg sem ber erfðaefni loðfílsins í kjarna og ef vísindamönnunum tekst að láta það skipta sér verður til fósturvísir.
Eftir að fósturvísirinn er tilbúinn er næsta skref tæknifrjóvgun. Samkvæmt heimasíðu verkefnisins mun Afríkufíll ganga með fóstrið sem er blendingur loðfíls og Asíufíls. Afríkufíllinn varð fyrir valinu vegna þess að sú tegund er stærri en Asíufíllinn og því talinn henta betur til að ganga með loðfílafóstrið. Þar að auki er tegundin ekki í útrýmingarhættu líkt og Asíufíllinn. Tegundin er vissulega í hættu, sem er næsta þrep fyrir neðan í flokkun dýra í útrýmingarhættu.
Hafa beint sjónum sínum að „af-útrýmingu“
Samkvæmt umfjöllun New York Times hefur Dr. George Church bakkað með þá hugmynd að láta kýr af tegund Afríkufíla gegna hlutverki staðgöngumæðra í verkefninu, enda þyrfti töluverða hjörð til þess að koma hinni nýju tegund á legg. Því hefur önnur lausn orðið ofan á, að hreinlega búa til eins konar tilbúið leg sem verður fóðrað með legslímhúð sem búin verður til úr stofnfrumum. Dr. Church er bjartsýnn á að það muni ganga eftir, þrátt fyrir að slík tilbúin leg eigi sér fá fordæmi sem eru öllu minni að gerð en þau sem munu verða notuð á meðgöngu loðfílsins. Meðgangan tekur um tvö ár og undir það síðasta er þyngd fóstursins orðin hátt í 100 kíló.
Á vefsíðu Colossal er loðfíllinn sagður vera mikilvægur verndari jarðarinnar. Þar segir að verkefnið marki þáttaskil í af-útrýmingu (e. de-extinction) sem fyrirtækið hefur beint sjónum sínum að. Að mati Colossal sé útrýming dýrategunda gríðarstórt vandamál sem heimurinn standi frammi fyrir og að fyrirtækið ætli sér að laga það.
Það sem vakir fyrir forsvarsmönnum verkefnisins er að breyta ásýnd freðmýranna með hjálp loðfílanna og þar með leggja lóð á vogarskálarnar í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Að sögn Colossal breyttist umhverfi túndranna eftir að loðfílarnir hurfu af sjónarsviðinu. Mosavaxnir skógar og votlendi urðu ríkjandi á stórum svæðum sem áður höfðu verið gresjur sem bundu kolefni. Stjórnendur Colossal vilja meina að með því að endurvekja loðfílanna og koma stórum hjörðum þeirra fyrir á fyrri heimkynnum megi snúa við þiðnun þessara svæða. Þeir geti til að mynda hjálpað til við það að halda jarðvegi sífreðnum með því að ryðja skógana og endurheimta gresjurnar sem að sögn Colossal þiðna síður.
Aðrir vísindamenn efast um ágæti verkefnisins
Í áðurnefndri umfjöllun New York Times er vitnað til annarra vísindamanna sem efast mjög um það að Colossal takist ætlunarverk sitt við að koma loðfílum á legg. En ef af því verður standa forsvarsmenn verkefnisins auk þessi frammi fyrir stórum siðferðilegum spurningum. Spurningum sem snúa meðal annars að því hvort það geti talist mannúðlegt að búa til dýr á rannsóknarstofu, dýr sem lítil þekking er á. Önnur spurning sem enn á eftir að svara snýr að því hvort að fyrirtækið megi hreinlega sleppa loðfílunum lausum, enda sé það ófyrirséð hvaða áhrif dýrin munu hafa á vistkerfið á þeim svæðum sem yrðu að heimkynnum þeirra.
Önnur spurning, sem eflaust liggur beint við að spyrja, er sú hvort að þetta sé skilvirkasta leiðin til að endurheimta túndrurnar og tryggja sífrera í jörðu. Í umfjöllun The Guardian er vitnað í dr. Victoriu Herride, þróunarlíffræðing við breska náttúruminjasafnið í London en hún telur verkefnið ekki gerlegt. „Til þess að þetta myndi ganga upp þyrfti skali verkefnisins að vera gríðarlegur. Við erum að tala um að það þyrfti hundruð þúsunda loðfíla, meðganga hvers og eins er um 22 mánuðir og svo tekur þá 30 ár að verða fullvaxta,“ segir Dr. Victoria Herridge.
Svo eru aðrir vísindamenn sem efast um gagnsemi loðfílanna til þess að vernda sífrerann. Gareth Phoenix, prófessor við Sheffield háskóla, bendir á það í grein The Guardian að margþættar lausnir séu nauðsynlegar til þess að stemma stigu við loftslagsvánni en að stíga þurfi varlega til jarðar á heimskautasvæðum til þess að valda ekki skaða.
„Loðfílar eru nefndir sem lausn til þess að stöðva þiðnun sífrerans því þeir fella tré, traðka niður og þjappa jarðveginn og ummynda landslaginu í gresjur sem getur stuðlað að því að jarðvegurinn haldist kaldur,“ segir Gareth Phoenix. „Aftur á móti þá vitum við að í skógum á heimskautasvæðum gegna tré og mosi lykilhlutverki í að verja sífrerann svo því væri það að fjarlægja trén og traðka niður mosann það síðasta sem þú myndir vilja gera“