Ætti hver Íslendingur að geta sett nafn sitt á lista sem veitir honum tækifæri til að kaupa opinbert húsnæði þegar hann verður 20 ára? Húsnæði sem væri fjármagnað af lánum frá lífeyrissjóðum fyrir öllu kaupverðinu til langs tíma á föstum vöxtum? Húsnæði sem síðar væri hægt að selja á markaði fyrir hærra ferð með þeim afleiðingum að ríkið gæfi hverri nýrri kynslóð „heimanmund“ til þess að byrja ævina á?
Þessu veltir Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands og ytri meðlimur í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, fyrir sér í grein sem birtist í síðasta tölublaði Vísbendingar.
Í grein sinni fjallar Gylfi um deilur um peningastefnu og vaxtakjör, sem mikið er fjallað um í umræðunni á Íslandi í tengslum við tíðar stýrivaxtahækkanir Seðlabanka Íslands, en hann hefur nú hækkað vexti tíu sinnum í röð og upp í sex prósent. „Ef einstaklingur A á eina milljón í banka og einstaklingur B skuldar eina milljón þá þykir réttlátt að B greiði A vexti fyrir lánið. Ef verðbólga er nú 10 prósent þá rýrnar bankainnistæðan um 10 prósent á ári að raunvirði og lánið sömuleiðis. Varla telst það réttlát að A gefi B skuldafyrirgefningu án samþykkis. Þess vegna er markaðslausnin sú að B greiði A vexti sem eru hærri en 10 prósent til þess að verðbólgan valdi ekki A tjóni og komi B til góða. Hagkvæmnisrökin eru þau að lægri vextir myndu valda því að A tæki sína milljón út úr bankanum og B gæti ekki fengið lán. En ef B þarf að greiða meira en 10 prósent á ári í vexti þá getur reynt á greiðsluþol.“
Markaðsrökin fyrir því að hafa allt húsnæði á markaði séu þau að hátt húsnæðisverð kalli á meiri húsbyggingar og meira framboð. Leiguþak sem setji hámark á leigu á markaði leiði samkvæmt þeim rökumtil þess að færri hús verði byggð og skortur myndist.
Þriðja leiðin
Gylfi segir það vettvang stjórnmála að rökræða um hvar réttindi borgaranna endi og markaðurinn taki við. Hann veltir því fyrir sér í greininni hvort það sé til þriðja leið sem sameinar hagkvæmni markaðs og réttlætiskennd okkar?
„Í borgríkinu Singapúr, þar sem segja má að ríki menntað einveldi, hefur verið reynt að leysa þann vanda sem hér hefur verið lýst. Lausnin felst í því að ríkið, þ.e.a.s. hið opinbera, fjármagnar byggingu nýs húsnæðis sem síðan er selt ungu kynslóðinni á hóflegu verði sem miðast við ráðstöfunartekjur ungs fólks.
Hér á landi gætu lífeyrissjóðir veitt ungu fólki langtímalán á föstum vöxtum til þess að fjár
magna húsnæðiskaupin. Lánin gætu nægt fyrir öllu kaupverðinu.“
Í grein Gylfa ímyndar hann sér að hver Íslendingur sem verði 20 ára geti sett nafn sitt á lista yfir væntanlega kaupendur opinbers húsnæðis og þegar röðin kemur að viðkomandi þá getur hann tekið lán hjá lífeyrissjóði á föstum vöxtum. „Ungu fólki og nýjum fjölskyldum væri þannig tryggt húsnæði á viðráðanlegu verði og byrði af húsnæðislánum væri viðráðanleg fyrir flesta. Síðan væri hægt að selja húsnæðið á markaði og þá væntanlega fyrir hærra verð. Þannig gæfi ríkið hverri nýrri kynslóð „heimanmund“ eða höfuðstól til þess að byrja ævina á. Enginn kostnaður væri fyrir samfélagið ef fyrirtæki í opinberri eigu byggðu húsin, annar en sá að unnt væri að selja eignirnar á markaði fyrir hærra verð. Ríkið fengi hins vegar byggingarkostnað endurgreiddan en fórnarkostnaður þess að selja ungu fólki á sanngjörnu verði í stað þess að selja á markaði væri fjárfesting í afkomuöryggi ungs fólk og bættum lífskjörum, kannski fleiri börnum, en umfram allt hamingjusamari ungum kynslóðum sem hugsuðu fallega til lands og þjóðar.“
Hægt er að lesa grein Gylfa Zoega í heild sinni með því að gerast áskrifandi að Vísbendingu.