„Kórónuveiran hefur dregið fram veikleika í innviðum norræna ríkjanna en við erum ríkar þjóðir og munum vinna bug á vandamálunum. En vandinn vegna heimsfaraldursins hverfur ekki fyrr en öll ríki heims hafa fengið bóluefni sem nægja til að bólusetja flesta íbúa jarðarinnar. Þess vegna ættum við að deila bóluefnum og björgum með fátækari löndum.“
Þetta sagði Oddný Harðardóttir þingflokksformaður Samfylkingarinnar á þingi Norðurlandaráðs sem nú stendur yfir í Kaupmannahöfn en hún situr í forsætisnefnd ráðsins fyrir jafnaðarmenn.
Spurði hún í framhaldinu utanríkisráðherrana í Norðurlandaráði hvernig þeir litu á hlutverk Norðurlanda við að tryggja fátækari ríkjum bóluefni.
Viðbrögð landanna við faraldrinum sýndu hvar veikleikarnir í samstarfinu liggja
Oddný hóf mál sitt á því að segja að mikilvægt væri að utanríkisráðherrarnir settu norrænt samstarf í forgang. „Sendiráð landanna gegna mikilvægu hlutverki í utanríkisstarfi og við að standa vörð um norræna hagsmuni á tímum hnattvæðingar. Við verðum alltaf að gæta að jafnrétti, lýðræði og mannréttindum.
Samstarf okkar byggir á vináttu og trausti sem byggt hefur verið upp yfir langan tíma. Kórónuveirufaraldurinn og viðbrögð landanna og aðgerðir – sem ekki voru alltaf í takt – sýndi okkur hversu mikilvægt norrænt samstarf er og einnig hvar veikleikarnir í samstarfinu liggja. Af því verðum við að læra,“ sagði hún.
„Verðum að vinna saman gegn því að kapphlaup um auðlindirnar hefjist“
Þá tók Oddný fram að Norðurlandaráð legði ríka áherslu á að vinna gegn loftslagsvá. Áhrif loftslagsbreytinga á norðurslóðum væru mikil og hlýnunin hraðari þar en annars staðar. Áhrifin væru félagsleg, efnahagsleg, pólitísk og auðvitað umhverfisleg.
„Þegar ísinn bráðnar á norðurslóðum verða auðlindir aðgengilegri. Við verðum að vinna saman gegn því að kapphlaup um auðlindirnar hefjist, kapphlaup á milli stórra valdamikilla ríkja svo sem Rússlands, Kína eða Bandaríkjanna. Við fengum nasasjón af óásættanlegu viðhorfi þegar Trump sagðist vilja kaupa Grænland.
Velferð íbúanna á Norðurslóðum á að vera okkur efst í huga og að vinna að lausn mála á friðsamlegan hátt,“ sagði hún.