„Það er ástandið í borginni sem hvetur okkur til að fara af stað,“ segir Jóhannes Loftsson, oddviti Ábyrgrar framtíðar, í samtali við Eyrúnu Magnúsdóttur í kosningahlaðvarpi Kjarnans, Með orðum oddvitanna. Í hlaðvarpinu er rætt við alla oddvita þeirra ellefu framboða sem bjóða sig fram í borgarstjórnarkosningunum sem fram fara næstkomandi laugardag, 14. maí.
Flokkurinn var stofnaður fyrir Alþingiskosningarnar í fyrra og bauð fram í Reykjavíkurkjördæmi norður. Stefnumál Ábyrgrar framtíðar lutu helst að efasemdum tengdum kórónuveirufaraldrinum og gagnsemi bólusetninga. Flokkurinn hlaut 144 atkvæði, eða 0,1 prósent atkvæða.
Með ástandinu í borginni á Jóhannes fyrst og fremst við slæma stöðu í húsnæðismálum og „þéttingarstefnu“ Reykjavíkurborgar sem flokkurinn er mótfallinn. Hann segir ákveðið tímamótaástand í borginni.
„Þessi stefna, þessi þéttingarstefna eins og hún leggur sig núna, hún gengur rosalega mikið út á það að það er verið að rífa húsnæði sem fyrir er, það er verið að auka flækjustigið, að byggja upp, það er verið að setja inn einhver svona innviðagjöld sem tengjast því að borga fyrir einhverja borgarlínu og borga fyrir alls konar viðbætur, borga fyrir pálmatré, bara alveg uppi í maður veit ekki hvað, það er alltaf að bæta einhverju ofan á. Þetta er ekkert endilega eitthvað sem einstaklingurinn sjálfur myndi velja að eyða peningnum sínum í,“ segir Jóhannes.
Viðeyjarleiðin muni leysa samgönguvanda borgarinnar
Eina lausnin, að hans mati, er að byggja ódýrara með því að byggja á ódýrari svæðum. Ábyrg framtíð leggur því til að tengja byggðir borgarinnar frekar saman, meðal annars með svokallaðri „Viðeyjarleið“, sem felst í að leggja Sundabrautina í gegnum Viðey, með botngöngum frá Laugarnesinu út í Viðey og tengja við Gufunes.
„Sú tenging ein myndi laga umferðarvandamálin á Sæbrautinni og Miklubrautinni, og svo taka aðra tengingu beint norður um göng til Kjalarnessvæðisins og þá ertu kominn með risa, risa, risa, landsvæði sem er nær miðbænum í ferðatíma heldur en þessi úthverfi sem við erum að byggja í dag. Þú ert svo snöggur að ferðast þegar komin er hraðbraut í bæinn og það er okkar lausn.“
Jóhannes segir að með þessari lausn, Viðeyjarleiðinni, sé í raun verið að leysa samgönguvanda borgarinnar. „Við erum að minnka borgina í tíma. Við erum að byggja þar sem auðvelt er að ferðast hratt.“
Jóhannes segir Ábyrga framtíð hlynnta öllum samgöngumátum. Það sé þó ekki rétt að færri bílar mengi minna heldur þurfi að lagfæra flæði á umferðinni. Jóhannes sér ekki tilefni til að fækka bílum í umferðinni. „Af hverju þarf að fækka bílum? Ég bara spyr þig, það eru allir að nota bíla? Vilja menn ekki fara í Costco?“ segir Jóhannes og bendir á að barnafólk að mjög erfitt með að vera ekki á bíl.
„Viljum við ekki geta gert þessa hluti sem við erum að gera í dag?“ spyr Jóhannes, sem telur það verulega lífsgæðaskerðingu að vera án bíls til lengri tíma.
Ábyrg framtíð vill tempra ábyrgðarlaust vald
Í þættinum fer Jóhannes einnig yfir sögu flokksins og gildi hans. Hann segir Ábyrga framtíð vilja tempra ábyrgðarlaust vald. „Við viljum að þegar hið opinbera hefur vald yfir þegnunum að þeir beri þá ábyrgð gagnvart þeim sem það hefur vald yfir. Ef það er ekki hægt þá viljum við að þegnarnir fái meira vald ef hið opinbera getur ekki höndlað ábyrgðina, það er grundvallarþema í öllum okkar stefnumálum.“
„Besti aðilinn til að hafa vald yfir okkur erum við sjálf því við berum ábyrgð á okkar ákvörðunum. Ef þú afsalar þessu valdi til einhverra ábyrgðarlausra embættismanna þá eru teknar ákvarðanir sem eru ekki endilega þínir hagsmunir, heldur agsmunir embættismannsins, kannski eitthvað sem átti ekki að gera og hann er ábyrgðarlaus ef illa fer og þú berð ábyrgðina,“ segir Jóhannes. Dæmi um slíkt er staðan í húsnæðismálum að hans mati.
Á móti borgarlínu sem er „rándýr framkvæmd“
Jóhannes fer einnig yfir fleiri stefnumál flokksins í þættinum svo sem í samgöngumálum, sem felast meðal annars í því að skipta gönguljósum út fyrir göngubrýr á Miklubraut, eflingu dagoreldrakerfisins í stað aukinnar áherslu á leikskóla og borgarlínuna, sem flokkurinn er á móti.
„Við erum einfaldlega á móti borgarlínunni. Þetta eru rándýr framkvæmd vegna þess að það á að fjármagna borgarlínunnar með lóðasölu og það eru innviðagjald líka við vegina. Borgarlínan ber meiri keim af því að vera nánast fasteignaþróunarverkefni frekar en að vera samgönguverkefni,“ segir Jóhannes sem telur að verði borgarlínan útfærð samkvæmt núverandi áætlun verði notendur hennar fáir.
Samkvæmt nýjustu kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar er Ábyrg framtíð annað tveggja framboða í Reykjavík sem mælast ekki með fylgi. Hitt framboðið er Reykjavík – besta borgin. En Jóhannes er bjartsýnn á að ná sæti í borgarstjórn í komandi kosningum á laugardag. „Já ég bara vona það besta.“
Hægt er að hlusta á viðtalið við Jóhannes í heild sinni í spilaranum hér að neðan: