Haustið gengur í garð og eins og hendi sé veifað leggjast margir í bælið. Jú, þetta tengist aukinni inniveru, samkomum í skólum og á vinnustöðum og svo fram eftir götunum. Og svo kemur vetur og jólahátíð með hefðbundnum faðmlögum og kossum og fólk leggst aftur í bælið.
Þennan veturinn er inflúensan fyrr á ferðinni en venjulega og kórónuveiran sem veldur COVID-19 og RS-veiran einnig á ferð og flugi milli fólks, líkt og Kjarninn fjallaði um nýverið. Þetta er sem sagt nokkuð óvenjuleg flensutíð.
Það er nokkuð víst að breytt hegðun okkar að hausti og vetri, þegar við þjöppum okkur saman, lokum gluggum til að halda hitanum inni, skapar aðstæður sem eru kjörlendi fyrir bakteríur og veirur. Kjörlendið er auðvitað sem flestir líkamar – hýslar – svo þær geti fjölgað sér. Og þegar stökkið milli líkamana er stutt, eins og t.d. í vinnustaðapartíi eða söngstund á leikskólanum, þá er hátíð veira og baktería sannarlega runnin upp.
En nú hefur verið bent á aðra skýringu og hana er að finna beint fyrir framan á nefið á okkur – eða réttara sagt uppi í nefinu á okkur.
Nef okkar er gáttin að umhverfinu, ef svo má segja, og það er snilldarlega hannað til þess að stöðva innrás óvina á borð við bakteríur og veirur. Árið 2018 birti hópur bandarískra vísindamanna niðurstöður rannsóknar þar sem sýnt var fram á að þegar bakteríur berast í nef losnar mergð örlítilla og vökvafylltra sekkja sem hafa það hlutverk að ráðast á bakteríurnar og afvopna þær.
„Þegar þú sparkar í geitungabú þá ryðjast geitungarnir út og reyna að drepa það sem er að ráðast á búið – áður en búið er eyðilagt,“ segir Benjamin Bleier, prófessor við Northeastern-háskóla í Massachusetts, sem var meðhöfundur þeirrar rannsóknar. „Það er það sem líkaminn er að gera,“ segir hann um innrás bakteríanna og varnir nefsins.
Nefið verst veirum
Bleier er aðalhöfundur hinnar nýju rannsóknar þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að nefnið grípur til sambærilegra varna gegn að minnsta kosti nokkrum algengum veirum sem leggjast á öndunarfærin.
Rannsóknarteymið vildi svo einnig svara annarri spurningu: Dregur kalt veður úr þessum varnarviðbrögðum nefsins?
Rannsóknir hafa sýnt að veirur sem valda t.d. almennu kvefi þrífast vel við lágt hitastig. Þannig sýndi t.d. ein rannsókn frá árinu 2015 fram á að kvefveirur fjölga sér hraðar í kulda því þá er ónæmisviðbragðið (hjá músum í þessu tilfelli) ekki eins sterkt. Einnig hafa rannsóknir sýnt að inflúensuveirur kunna vel við sig í kaldara lofti.
Nýja rannsóknin byggir á þessum fyrri niðurstöðum og gefur „sanna og líffræðilega skýringu á því af hverju líkaminn er móttækilegri fyrir veirusýkingum þegar kalt er í veðri, segir Bleier.
Nefhiti sjálfboðaliða var mældur til rannsóknarinnar, annars vegar við 23 gráðu umhverfishita og hins vegar 4 gráðu hita. Í ljós kom að hiti í nefkoki þeirra féll um meira en 10 gráður samhliða því að fara úr hlýrra loftinu í það kaldara.
Næsta skref rannsóknarinnar fór fram á rannsóknarstofu og gekk út á það að láta neffrumur verða fyrir sambærilegum hitabreytingum til að líkja eftir því hvað gerist í nefi í köldu veðri. Niðurstaðan var sú að ónæmisviðbragð sljóvgaðist verulega við lægra hitastig.
Niðurstaðan er enn eitt púslið í þá mynd sem blasir við á hverjum vetri er flensur herja sem mest á fólk. Hún gæti líka gagnast við þróun nýrra meðferða við sjúkdómum að sögn vísindamannanna. Ef hægt yrði að finna leið til að örva varnarviðbragð nefsins í kuldatíð þá væri mögulega hægt að koma í veg fyrir eða draga úr veikindum af völdum veirusýkinga.
Munið handþvottinn
En þangað til er best að stunda hinar persónubundnu sóttvarnir sem okkur voru kenndar í heimsfaraldrinum: Reglubundinn handþvottur, að halda sig til hlés ef einkenni gera vart við sig, sýna nærgætni í nánd við aldraða og aðra viðkvæma hópa og að nota grímu í miklu fjölmenni og á sjúkrastofnunum. Þá má einnig minna á mikilvægi góðs svefns fyrir ónæmiskerfið.