Á meðal mála sem rædd eru í Alþingi í dag er frumvarp til laga um breytingar á lögum um verslun með áfengi og tóbak, lögum um aukatekjur ríkissjóðs, áfengislögum og lögum um gjald á áfengi og tóbaki. Flutningsmenn frumvarpsins eru þrettán þingmenn, en Vilhjálmur Árnason (D), þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er fyrsti flutningsmaður málsins.
Aðrir flutningsmenn eru Björt Ólafsdóttir (Æ), Jón Þór Ólafsson (P), Willum Þór Þórsson (B), Unnur Brá Konráðsdóttir (D), Guðlaugur Þór Þórðarson (D), Ragnheiður Ríkharðsdóttir (D), Birgir Ármannsson (D), Pétur H. Blöndal (D), Jón Gunnarsson (D), Brynhildur S. Björnsdóttir (Æ), Karl Garðarsson (B) og Haraldur Einarsson (B).
Frumvarpið miðar að því að auka frelsi í viðskiptum með áfengi þannig að sala á áfengi verði heimiluð í verslunum, með ákveðnum skilyrðum þó. Líklegt má telja að þetta mál verði umdeilt, en eins og sést á listanum yfir þingmenn þá er að finna stuðningsmenn úr bæði stjórn og stjórnarandstöðu.