1.597 smit greindust í gær, 1.539 innanlands og 58 á landamærunum. 11.744 eru í einangrun með COVID-19. 37 eru á sjúkrahúsi. 25 eru með virkt smit en hinir með eftirköst. Þrír eru á gjörgæslu, allir í öndunarvél. Einn er á sjúkrahúsinu á Akureyri vegna COVID-19 og er staðan viðráðanleg að sögn landlæknis.
Tölur um sóttkví hafa ekki verið uppfærðar en samkvæmt reglum sem tóku gildi á miðnætti þurfa einungis þeir sem verða útsettir fyrir kórónuveirusmiti innan heimilis þurfa að fara í sóttkví, en aðrir í smitgát. Í gær voru um 13 þúsund í sóttkví og sú tala hefur því fækkað svo um munar eftir að nýju reglurnar tóku gildi.
Mikilvægt að aflétta í skrefum til að koma í veg fyrir bakslag
Samhliða breyttum reglum um sóttkví munu stjórnvöld kynna afléttingar á ýmsum takmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins í lok vikunnar. Sóttvarnalæknir mun leggja fram tillögur til stjórnvalda varðandi afléttingu takmarkana í skrefum en það er svo í höndum stjórnvalda að taka lokaákvörðun.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, benti á í upphafi upplýsingafundar dagsins, sem var sá 196. í röðinni, að á morgun verða tvö ár frá því að óvissustigi var í fyrsta skipti lýst yfir vegna faraldursins.
Sóttvarnalæknir segir stefnubreytingu í aðgerðum til að takast á við faraldurinn stafa af ýmsu, meðal annars breyttu eðli faraldursins sökum útbreiðslu ómíkron-afbrigðisins. Rúmlega 90% smita sem greinast þessa dagana eru af ómíkron-afbrigðinu en 10% af delta-afbrigðinu. Að sögn Þórólfs er örvunarbólusetning að reynast vel, færri þurfa að leggjast inn á sjúkrahús vegna COVID og færri veikjast alvarlega.
„Þannig er nokkuð ljóst að alvarleg veikindi af völdum COVID-19 eru nú til muna fátíðari en við höfum áður séð, en þó þufa um 0,2 prósent einstaklinga sem greinast að leggjast inn. Ný áskorun er hins vegar útbreidd smit hjá öðrum inniliggjandi sjúklingum og önnur veikindi og fjarvistir starfsfólks vegna COVID-19,“ sagði Þórólfur.
Afléttingaáætlun stjórnvalda verður kynnt í lok vikunnar og segist Þórólfur vona að hún muni leiða til meira frjálsræðis. Hann telur hins vegar mikilvægt að ekki verði farið of hratt í afléttingar og þær verði gerðar í nokkrum skrefum. „Annars er hætt við að bakslag komi í faraldurinn,“ sagði Þórólfur. Helstu áhyggjurnar, að hans mati, felast í auknum fjölda smita í samfélaginu og fjölgun alvarlegra veikinda með tilheyrandi áhrifum á heilbrigðiskerfið, en einnig auknum veikindum hjá heilbrigðisstarfsfólki og öðru starfsfólki í umönnunarstörfum.
„Ekki langt í land þar til faraldrinum fari að slota“
Þórólfur reyndi einnig að svara spurningu sem brennur á mörgum, það er hvenær megi búast við að faraldrinum muni ljúka? „Þessu er auðvitað ekki hægt að svara með neinni vissu en þó er hægt að segja að með þessum útbreiddu smitum í samfélaginu sem við erum að sjá þá styttist í að við förum að sjá fyrir endann á honum.“
Þórólfur vísaði meðal annars í skimun Íslenskrar erfðagreiningar eftir mótefnum gegn kórónuveirunnar, en samkvæmt niðurstöðu hennar gæti veiran verið búin að smita um 130 þúsund Íslendinga. „Ef þessar forsendur eru notaðar og reiknað er með að um 80 prósent landsmanna þurfi að smitast til að ná hjarðónæmi má búast við að það geti tekið enn um einn og hálfan til tvo mánuði að ná því marki ef fjöldi daglegra smita verður svipaður og verið hefur,“ sagði Þórólfur, en bætti við:
„Vissulega þarf að taka þessum útreikningum með fyrirvara en þessi hugarleikfimi sýnir þó að líklega er ekki langt í land þar til faraldrinum fari að slota. Við þurfum hins vegar að vera undir það búin að eitthvað óvænt komi upp, eins og ný afbrigði veirunnar, sem geta breytt okkar spá og okkar áætlunum. Ég held hins vegar að við ættum að vera vongóð um að betri tíð sé innan seilingar.“