Hugmyndir sænsku ríkisstjórnarinnar um að afnema leiguþak á nýbyggingum hefur leitt til þess að vantrauststillaga hefur verið lögð fram gegn Stefan Löfven, forsætisráðherra landsins. Kosið verður um tillöguna á mánudaginn, en samkvæmt fréttavefnum Politico um málið sýnir hún hversu mikið vægi húsnæðismál hafa á stjórnmálaumræðu í Evrópulöndum.
Takmarkanir á leiguverð eru ekki nýjar af nálinni í Svíþjóð, en þær hafa verið í gildi í einhverri mynd síðan árið 1942. Sams konar takmarkanir eru einnig í gildi í öðrum Evrópulöndum, líkt og Frakklandi, Írlandi og Þýskalandi.
Samið um leiguverð
Samkvæmt skýrslu lögfræðistofunnar Jones Day er samið um hámarksleigu í Svíþjóð með svipuðum hætti og lágmarkslaun eru samin hér á landi. Leigjendur hafi sérstakt kjarafélag sem semji fyrir hönd þeirra við leigusala um upphæð leigunnar. Náist engir samningar sé leiguverðið úrskurðað af sérstakri nefnd á vegum hins opinbera, sem byggi mat sitt á notagildi íbúðanna.
Samkvæmt umfjöllun Politico um málið samdi Löfven við sænska Miðflokkinn, sem styður minnihlutastjórn forsætisráðherrans falli, um að leiguþakið yrði afnumið fyrir nýbyggingar eftir síðustu þingkosningarnar þar í landi árið 2018. Hins vegar segist Vinstriflokkurinn, sem ver ríkisstjórn Löfven einnig falli, einungis hafa ætlað að verja minnihlutastjórnina ef áformin um afnám leiguþaks yrðu aldrei að veruleika.
Nooshi Dadgostar, formaður Vinstriflokksins, lagði því fram vantrausttillögu á hendur Löfven eftir að forsætisráðherran brást ekki við kröfum hennar um að vinna að annarri lausn með kjarafélagi leigjenda.
Nú þegar hefur öfgahægriflokkurinn Svíþjóðardemókratarnir, auk hægriflokksins Moderaterna og Kristilegra demókrata, sagst ætla að kjósa með vantrauststillögu Vinstriflokksins. Geri þeir það yrði vantrauststillagan samþykkt á mánudaginn og ríkisstjórnin í núverandi mynd því fallin.