Stjórnvöld hafa ákveðið að hraðpróf verði notuð til þess að gera allt að 500 manna viðburðum kleift að fara fram og þetta verður útfært nánar á næstu dögum.
Ekki liggur fyrir um hvort hraðprófin verði niðurgreidd af hinu opinbera, samkvæmt því sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði í samtali við fréttamann Stöðvar 2 eftir ríkisstjórnarfund dagsins.
Áfram verða 200 manna fjöldatakmarkanir almennt í gildi í samfélaginu til 17. september, en þá á ný reglugerð að renna út að óbreyttu.
Á meðal annarra breytinga sem ríkisstjórnin ákvað á gildandi sóttvarnaráðstöfunum, sem renna út á morgun, er það að reglan um eins meters fjarlægðartakmarkanir fellur niður á sitjandi viðburðum.
Auk þess verða full afköst nú leyfð í sundlaugum og líkamsræktarstöðum, sem mega í dag einungis taka á móti 75 prósentum af þeim fjölda fólks sem staðirnir hafa starfsleyfi til þess að taka á móti.
Til viðbótar mun fjöldi þeirra sem mega koma saman til íþróttaæfinga færast úr 100 upp í 200 og hið sama mun gilda um veitingastaði og skemmtistaði, þar munu 200 manns mega koma saman en hámarkið undanfarnar vikur hefur verið bundið við 100 manns.
Ekki eru boðaðar neinar breytingar á opnunartímum skemmtistaða, sem þýðir að þeir munu enn um sinn þurfa að loka dyrum sínum kl. 23 á kvöldin og tæma staðina fyrir miðnætti.
Grímuskyldan verður óbreytt, að sögn Svandísar, sem sagði ríkisstjórnina hafa farið að ráðleggingum sem Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir setti fram í minnisblaði sínu.