SCI (Shanghai Composite Index) vísitala hlutabréfamarkaðarins í Kína lækkaði um 6,4 prósent þegar viðskipti hófust nú fyrir skömmu. Þetta kemur í kjölfar mikilla lækkana á markaðnum; ríflega fimm prósent á föstudag og 8,5 prósent í gær, 24. ágúst. Auk þess lækkuðu flestar vísitölur hlutabréfamarkaða í heiminum, Dow Jones vísitalan bandaríska um 3,57 prósent og FTSE vísitalan breska um 4,7 prósent, svo dæmi séu tekin.
Öll ávöxtun hlutabréfamarkaðarins í Kína á árinu er nú horfin, og gott betur, þrátt fyrir að markaðurinn hafi nærri þrefaldast á einungis þriggja mánaða tímabili, frá mars til júní.
Fjárfestar virðast óttast efnahagserfiðleika í Kína, sem veldur því að þeir selja hlutabréf og færa í aðra eignaflokka.
Breaking: China shares open down 6.4% as global markets brace for another bruising day http://t.co/5xQPDPcm8q
— Wall Street Journal (@WSJ) August 25, 2015
Alþjóðamarkaðir hafa einkennst af miklum lækkunum að undanförnu og virðist óttinn um að kínverska hagkefið sé að fara í gegnum mikla niðursveiflu, vera rótin að vantraustinu.
Eins og fram kom í fréttaskýringu Kjarnans í gær, 24. ágúst, var titringur töluverður á mörkuðum og var þar meðal annars haft eftir Michelle Fleury, blaðakonu BBC í New York, að margir óttuðust að glundroði (panic) væri ekki svo langt undan á mörkuðum, með tilheyrandi ójafnvægi og gengdarlausu tapi margra fjárfesta.
En eins og jafnan þegar hlutabréfamarkaðir eru annars vegar, þá er erfitt að sjá fyrir hvernig framvinda mála verður.