„Áfengisskattar á Íslandi eru þeir hæstu í Evrópu og þótt víðar væri leitað. Bjórinn á Íslandi er fyrir vikið sá dýrasti í Evrópu og þótt víðar væri leitað,“ sagði Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag, áður en hún vísaði í orð Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, sem hann lét falla um áfengisgjöld fyrir nokkru.
„Það er mín skoðun að við séum komin algjörlega út í ystu mörk á skattlagningu, þá er ég einfaldlega að vísa til þess að við erum líklega með eina dýrustu bjórkrús í Evrópu. Mér finnst ekki endilega að það eigi að vera þannig,“ sagði Bjarni.
Þorbjörg Sigríður sagði þetta hörð orð fjármála- og efnahagsráðherra um eigin skattastefnu. „Og sami fjármálaráðherra leggur núna fram fjárlagafrumvarp þar sem þetta áfengisgjald, hans sjálfs, hækkar um heil 7,7 prósent. Það kom þá kannski bara í ljós að fjármálaráðherra fann að hann var ekki kominn að ystu mörkum, þessum ystu mörkum skattlagningar Sjálfstæðisflokksins, eða fann einhver ný ystu mörk í þeim efnum,“ sagði Þorbjörg á þingi í dag.
Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir því að hækka allskyns neysluskatta, skatta sem launafólk greiðir í ríkissjóð, á næsta ári. Þetta eru til að mynda áfengis-, tóbaks-, bensín-, olíu-, kolefnis-, og kílómetragjald. Alls er lagt til að áfengis- og tóbaksgjaldið hækki um 7,7 prósent milli ára.
Þá ætlar ríkissjóður að auka tekjur um 700 milljónir króna á næsta ári með því að draga úr afslætti í tollfrjálsum verslunum þannig að áfengisgsgjaldið í þeim fari úr tíu í 25 prósent og tóbaksgjaldið úr 40 í 50 prósent. Þetta mun fyrst og síðast hafa áhrif á fríhöfnina í Leifsstöð þar sem ferðamenn hafa hingað til getað keypt ódýrara áfengi og tóbak en annarsstaðar á landinu.
Þorbjörg sagði þessar hækkanir þó ekki koma á óvart þar sem ríkisstjórnin hafi litið á það sem skynsamlega aðgerð að hækka áfengisgjöld í kórónuveirufaraldrinum þegar „veitingahúsin reru lífróður vegna samkomutakmarkana í heimsfaraldri“ og gera róðurinn þannig þyngri.
Allir sem flytja inn eða framleiða áfengi hér á landi til sölu eða vinnslu ber að greiða áfengisgjald. Einnig þeir sem flytja áfengi með sér eða fá það sent erlendis frá, til eigin nota. Áfengisgjald er greitt af neysluhæfu áfengi sem í er meira en 2,25 prósent af vínanda að rúmmáli. Þessu gjaldi er velt út í verðlag og því hækkar það útsöluverð til neytenda.
Tekjur vegna áfengisgjaldsins á næsta ári eru áætlaðar um 25,5 milljarðar króna sem er 1,7 hærra en áætlað er fyrir 2022. Tekjur ríkissjóðs af áfengisgjaldi hafa því hækkað um 37 prósent frá 2018, eða í krónum talið eða um 6,9 milljarða króna.
Hækkanir ekki í takt við markmið um að halda verðbólgu í skefjum
Þorbjörg Sigríður benti á að Félag atvinnurekenda, auk fjölda annarra samtaka, hafa gagnrýnt hækkun á áfengisgjaldi sem og fleiri gjöldum.
„Félag atvinnurekenda nefnir að engri ríkisstjórn eða löggjafarsamkundu í þeim löndum sem Ísland ber sig saman við detti í hug að ganga jafn langt,“ sagði Þorbjörg Sigríður.
Ferðaþjónustan og hagsmunaverðir hennar hafa einnig gagnrýnt fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp á ýmsan hátt og telja hækkun gjalda á áfengi, tóbak og eldsneyti muni draga úr getu Íslands til að keppa um ferðamenn. Hærra verð í fríhöfninni muni leiða af sér að ferðamenn kaupi áfengi frekar á brottfararflugvöllum, taki það með í handfarangri og þyngi vélarnar.
Þorbjörg Sigríður sagði að hækkanirnar muni hafa áhrif á verðlag og verðbólgu og ganga á engan hátt í takt við markmið fjármálaráðherrans sjálfs um að halda verðbólgu í skefjum.
„Hæsta áfengisverð Evrópu hækkar enn. Aftur ver fjármálaráðherra Íslands titilinn um dýrustu bjórkrús í Evrópu. Og spurningin sem þá stendur eftir hlýtur að vera: Hvar liggja eiginlega þessi ystu mörk Sjálfstæðisflokksins í skattahækkunum?“ spurði Þorbjörg Sigríður.