Stjórnmálamenn hafa það sem af er degi brugðist við innihaldi skýrslu Ríkisendurskoðunar um sölu á 22,5 prósenta hlut í Íslandsbanka, sem gerð var opinber í morgun eftir að hafa verið til nokkuð ítarlegrar umfjöllunar í Kjarnanum og fleiri fjölmiðlum sem komu höndum yfir skýrsluna frá því í gærkvöldi.
Farið verður yfir efni skýrslunnar á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar síðar í dag. Kjarninn tók saman viðbrögð þingmanna sem komið hafa fram í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum það sem af er degi.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra (D)
„Þessi sala er ekkert hafin yfir gagnrýni en mér finnst eftir sem áður að hún hafi tekist vel,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra við RÚV.
Samkvæmt því sem kemur fram á vef RÚV sagði Bjarni að stóra myndin skipti mestu, að fengist hefði fjölbreytt eignarhald og „ágætis verð“ fyrir hlut ríkisins í bankanum. Alltaf væri hægt að horfa í baksýnisspegilinn og spyrja sig hvort ekki hefði verið hægt að gera betur og fá hærra verð.
„Í mínum huga er þetta bara ágætis verð og það segir ekkert annað í skýrslunni en að svo virðist sem fjárhagslegra hagsmuna ríkisins hafi verið ágætlega gætt,“ er haft eftir Bjarna á vef RÚV.
Kristrún Frostadóttir (S)
Formaður Samfylkingarinnar sagði við Vísi að skýrslan væri svört að hennar mati.
„Ábyrgðin er ráðherrans. Skýrsla Ríkisendurskoðunar er áfellisdómur yfir verklagi ráðherra við sölu Íslandsbanka. Hún staðfestir það sem við bentum á í vor,“ sagði Kristrún og bætti við að allt benti til þess að að lögum um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum hefði ekki verið fylgt hvað varðaði hæsta verð og jafnræði.
„Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar kann sleifarlag ráðherra að hafa skaðað hagsmuni ríkissjóðs. Og jafnræðis var ekki gætt. Fyrir vikið er traust til stjórnvalda og til fjármálakerfisins laskað. Það er alvarlegt,“ sagði Kristrún við Vísi.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttur (P)
Þórhildur Sunna sagði í samtali við RÚV að hún teldi skýrsluna „lýsa stórfelldu gáleysi bæði fjármálaráðherra og Bankasýslu ríkisins gagnvart eigum almennings í landinu, gagnvart hagsmunum ríkissjóðs“.
„Það er algjörlega augljóst að hér var ekki nógu vel vandað til verka. Þær aðfinnslur og athugasemdir sem eru settar fram við þessa framkvæmd alla eru geysimargar það er erfitt að velja úr hvað er verst. En fyrst og fremst og kannski mikilvægast af þess öllu er að þetta undirstrikar enn og aftur nauðsyn þess að við fáum rannsóknarnefnd Alþingis í málið til þess að fara yfir þá þætti sem Ríkisendurskoðun segir sjálf að hún geti ekki farið yfir, það er lagaleg ábyrgð í málinu og stöðu ráðherra,“ sagði Þórhildur Sunna við RÚV.
Sigmar Guðmundsson (C)
Í samtali við Vísi kallaði Sigmar skýrslu Ríkisendurskoðunar áfellisdóm yfir söluferlinu og sagði að það sem væri einna verst væri ef til vill það að „niðurstaðan óhjákvæmilega leiðir okkur að því að það verður mjög erfitt að selja frekari eignarhluti í Íslandsbanka í náinni framtíð. Vegna þess að það er allt traust farið.“
„Það þarf að stofna og setja á laggirnar rannsóknarnefnd Alþingis,“ sagði Sigmar við Vísi. Í samtali við mbl.is ítrekaði þingmaðurinn að þörf væri rannsóknarnefnd vegna sölunnar.
„Mér finnst þessi skýrsla eiginlega mun dekkri en að maður átti von á,“ sagði Sigmar við mbl.is.
Björn Leví Gunnarsson (P)
Nokkuð hefur verið fjallað um trúnaðarbrest innan stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í kjölfar þess að fjölmiðlar tóku efni skýrslunnar til umfjöllunar áður en hún hafði verið kynnt í nefndinni og birt opinberlega.
Á forsíðu Morgunblaðsins í dag var haft eftir Birgi Ármanssyni forseta Alþingis að það væru „mikil vonbrigði“ að fjölmiðlar hefðu komið höndum yfir skýrsluna.
Björn Leví þingmaður Pírata skrifaði á Facebook að trúnaður yfir efni skýrslna frá Ríkisendurskoðun væri hugsaður til þess að þingmenn hefðu tækifæri til að kynna sér efni máls áður en fjölmiðlar færu að krefja þá svara.
„Æi, þetta er nú ekkert rosalegur trúnaður. Þessi "trúnaður" var settur upp fyrir þingmenn þannig að það væri ekki verið að reka hljóðnema upp í andlitið á þeim áður en þau hefðu tækifæri til þess að lesa skýrsluna.
Áður fyrr birti ríkisendurskoðun bara skýrsluna strax opinberlega þegar hún var tilbúin.
Þannig að þetta er óttarlegt væl í forseta þingsins þarna. Ég hef ekki orðið mikið var við fréttir með viðtölum við ólesna þingmenn hvort sem er,“ skrifaði Björn Leví í morgun.
Fjármálaráðherra eigi að stíga til hliðar
Í samtali við Fréttablaðið kom Björn Leví því svo á framfæri að hann vildi að Bjarni Benediktsson stigi til hliðar á meðan spurningum væri enn ósvarað um söluna.
„Mér finnst rosalega augljóst að fjármálaráðherra á ekki að vera neins staðar þar sem hann er mögulega fyrir einhverju ferli í rannsókninni á þessu,“ sagði Björn Leví við Fréttablaðið og bætti við að augljóst væri ráðherra hefði brugðist sinni skyldu, sinni ábyrgð, gagnvart þeirri ákvarðanatöku sem hann hefði komið að.
Helga Vala Helgadóttir (S)
Helga Vala þingmaður Samfylkingarinnar sagði í færslu á Twitter fyrr í dag að það væri „bara einn stjórnmálamaður sem hefur hag af því að leka bankaskýrslunni fyrir kynningu Ríkisendurskoðunar sólarhringi seinna“ en tilgreindi ekki hvaða stjórnmálamann hún átti við.
„Mig grunar að við fáum að heyra mjög oft næstu daga að við þurfum öll að læra af þessu…“ hafði þingmaðurinn áður sagt á samfélagsmiðlinum í gærkvöldi, eftir að fyrstu fréttir af efni skýrslunnar bárust út.
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P)
Arndís Anna þingmaður Pírata sagði í samtali viðmbl.is í morgun að skýrslan væri „kannski fyrst og fremst áhugaverð að því leyti að ríkisendurskoðandi er að staðfesta það að hann hefur mjög takmarkaðar valdheimildir og takmarkað hlutverk í þessu“ og sagði ljóst að skipa þyrfti rannsóknarnefnd.
„Ríkisendurskoðandi er bara að vinna sína vinnu en við vorum búin að benda á það ítrekað að það væri ekki nóg að ríkisendurskoðandi færi yfir þetta. Það hefði átt að setja rannsóknarnefnd í gang strax eins og við fórum fram á,“ sagði Arndís Anna við mbl.is.