Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn varar á ný við því að Grikkland þurfi mun meiri afskriftir skulda en lánardrottnar þeirra bjóða þeim nú upp á. Afskriftir á skuldum er eina leiðin til þess að gera skuldirnar sjálfbærar. Ný skýrsla sem sjóðurinn gerði og var opinberuð í gærkvöldi inniheldur harða gagnrýni á Evrópusambandið.
Skýrslan sem var birt í gærkvöldi var afhent fjármálaráðherrum evruríkjanna, evruhópnum, um helgina, áður en gengið var frá samkomulagi við Grikkland. Evruríkjunum var því ljóst að sjóðurinn væri mjög ósáttur við samkomulagið áður en gengið var frá því.
Þar kemur fram að Evrópusambandsríki þurfi að gefa Grikklandi 30 ár til að endurgreiða allar skuldir sínar við ESB, og þá þurfi að framlengja verulega í lánum. Ef það verður ekki gert munu lánardrottnar Grikklands þurfa að sætta sig við mjög miklar niðurfellingar skulda.
Þetta er í fyrsta sinn sem þessi mikli ágreiningur milli AGS og ESB, lánardrottna Grikklands, er opinberaður þótt rætt hafi verið um hann fyrr og skjölum frá AGS lekið á síðustu vikum sem benda til þessa.
BBC hefur eftir háttsettum embættismanni innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að sjóðurinn muni aðeins taka þátt í þriðju neyðarlánaveitingunni til Grikkja ef Evrópusambandið setur fram skýra áætlun. Samkomulagið sem nú er á borðinu er alls ekki nóg.
Síðar í dag mun gríska þingið taka afstöðu til fjölda frumvarpa sem gera breytingar á efnahagskerfinu í samræmi við það sem evruríkin kröfðust af Grikklandi. Talið er að skýrsla AGS muni gera Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, enn erfiðara fyrir að fá gríska þingið til að samþykkja frumvörpin.
Greining AGS bendir á að skuldir Grikkja nálgist nú að verða 200 prósent af vergri landsframleiðslu á næstu tveimur árum. Það sé með öllu ómögulegt. Þá gagnrýnir sjóðurinn áætlanir um að Grikkir eigi að geta verið með 3,5% afgang af vergri landsframleiðslu næstu áratugina, eins og krafa er um í samkomulaginu. Sjóðurinn segir hagvaxtaráætlanir óraunsæjar og segir að stjórn grísku bankanna sé hörmuleg og ekki sé verið að taka á þeim málum.