Verð stafrænna verka sem keypt eru með svokölluðu NFT-auðkenni hafa minnkað um tvo þriðju á síðustu vikum, eftir að hafa náð hámarki í lok febrúarmánaðar. Sömuleiðis hefur dregið hratt úr viðskiptum með verkin. Þetta kemur fram í frétt Bloomberg, en má einnig sjá á vefsíðunni Nonfungible, sem fylgist með þróun NFT-viðskipta.
Samkvæmt vefsíðunni áttu rúmlega þrjú þúsund viðskipti með NFT-auðkennum sér stað síðasta sólarhringinn, þar sem hver sala var að meðaltali virði rúmlega þúsund Bandaríkjadala. Þetta er 67 prósentum lægra meðalsöluverð en þann 22. febrúar, þegar hvert listaverk var keypt á 4.300 Bandaríkjadali.
Meðalfjöldi viðskipta hefur líka minnkað, en hann var nær fjórum þúsundum á dag ef litið er til síðustu sjö daga og nær fimm þúsundum á dag ef litið er á meðaltal síðustu 30 daga.
Kjarninn hefur áður fjallað um NFT, sem er nokkurs konar auðkenning með bálkakeðjutækni. Með þessari tækni er hægt að tryggja uppruna stafrænna listaverka sem auðvelt er að fjölfalda, þar sem einungis einn getur verið skráður eigandi þeirra. NFT mætti því líkja við hlutdeildarskírteini eða afsal á ákveðnum hlutum.
Á síðustu mánuðum hefur NFT viðskiptum fjölgað töluvert, sem meðal annars er talið vera vegna aukinna umsvifa skammtíma spákaupmennsku á hlutabréfamörkuðum vestanhafs, meiri áhættusækni og vaxandi vinsælda rafmynta, sem hægt er að nota sem gjaldmiðil í þessum viðskiptum.
Í frétt Bloomberg er því einnig velt upp hvort þessi þróun sé afleiðing nýsamþykkts efnahagspakka Bandaríkjastjórnar, sem fól í sér stórar millifærslur til heimila. Sömuleiðis segir fréttaveitan að minni viðskipti síðustu daga og vikna gætu verið vísbending um að áhrifa þessa efnahagspakka hafi dvínað.
Líkt og sjá má á mynd hér að ofan er meðalverð NFT-viðskipta síðustu vikuna nokkuð lægri en meðaltalið í marsmánuði og mun lægra en meðaltalið í febrúarmánuði, þegar það stóð í tæpum 1.800 Bandaríkjadölum. Hins vegar er það enn fjórfalt hærra en meðalverð NFT-viðskipta í janúar.