Christies

Tilkoma NFT skekur listheiminn

Nýjasta æðið í listheiminum eru svokölluð NFT, eða Non-Fungible Token upp á ensku. NFT byggir á bálkakeðjutækni og hefur gert listamönnum sem vinna stafræn listaverk kleift að staðfesta uppruna listaverkanna og eignarhald þeirra. Þar með eykst seljanleiki þeirra og verðmæti. Veltan með NFT hefur margfaldast á undanförnum misserum en hægt er að selja nánast hvað sem er með aðstoð tækninnar.

Í maí árið 2007 hófst merki­leg veg­ferð hjá lista­mann­inum Beeple sem vinnur lista­verk á staf­rænu formi. Hann ákvað að hann ætl­aði að skapa eitt verk á dag og birta það á vefn­um. Síðan þá hefur hann ekki misst út dag, sem þýðir að hann hefur búið til rúm­lega 5000 slík raf­ræn lista­verk. Hann hefur gefið þessu verk­efni yfir­heitið Everydays og fyrr í þesssum mán­uði seldi hann klippi­mynd með fyrstu fimm þús­und verk­unum úr Everydays ser­í­unni hjá upp­boðs­hús­inu Christies. Verkið nefn­ist Everyda­ys: the First 5000 Days og kaup­verðið nam rúmum 69 millj­ónum dala, sem sam­svarar rúmum 8,9 millj­örðum íslenskra króna.

Slíkar upp­hæðir sjást ekki oft, en reglu­lega þó, þegar mik­il­væg verk eftir þekkta lista­menn ganga kaupum og sölum hjá stóru upp­boðs­hús­un­um. Einn munur er þó á slíkum verkum og klippi­mynd Beep­le, hann er sá að til­vist klippi­mynd­ar­innar liggur handan við hinn efn­is­lega heim, hún er JPG skrá á staf­rænu formi. Þrátt fyrir að verkið sé nokkuð stórt að vöxtum þarf kaup­and­inn ekki að hafa áhyggjur af því að hafa ekki pláss fyrir það á stofu­veggnum því ólíkt mynd­list í sinni hefð­bundnu mynd, olíu á striga, er stærð verks­ins ekk mæld í sentí­metrum, heldur pixl­um.

Til útskýr­ingar er NFT eign sem er auð­kennd með bálka­keðju­tækni. Stórt net tölva skráir við­skiptin og stað­festir bæði upp­runa skrár­innar sem verslað er með og eign­ar­hald henn­ar. Verslað er með hvers konar staf­rænar skrár, eins og dæmin í þess­ari grein munu sanna, en eins og staðan er núna er tæknin hve mik­il­væg­ust á mark­aði með staf­ræn lista­verk. Það er vegna þess að með NFT er hægt að tryggja upp­runa staf­ræns lista­verks og að verkið sé ein­stakt, eða í tak­mörk­uðu upp­lagi – og þar liggur verð­mæta­sköp­un­in. NFT er mætti því líkja við hlut­deild­ar­skír­teini eða afsal.

NFT stendur fyrir Non-F­ungi­ble Token upp á ensku. Hug­takið fungi­ble nær yfir hluti sem eru auð­skipt­an­leg­ir. Skýrasta dæmið um auð­skiptan­elga hluti eru gjald­miðl­ar, það er ekk­ert til­töku­mál að skipta einum 5000 króna seðli fyrir fimm 1000 króna seðla. Það er ekki svo auð­sótt að skipta einu lista­verki út fyrir annað þar sem hvert og eitt þeirra er ein­stakt, að minnsta kosti í til­felli mál­verka og högg­mynda. Staf­ræn lista­verk getur hver sem er afritað og deilt með öðr­um. Myndin sem fylgir þess­ari grein er til dæmis millj­arða virði.

Auglýsing

Sam­fé­lags­miðla­færslur og gif-­myndir boðnar hæst­bjóð­anda

Þessi tækni hefur verið í notkun frá því um miðjan síð­asta ára­tug en er nú fyrst að verða á allra vit­orði. Einn þeirra atburða sem hefur ef til vill helst orðið til þess að bera hróður NFT víðar er sala Chris Torres á hinni svoköll­uðu Nyan Cat gif-­mynd en hana seldi Torres fyrir um það bil 580 þús­und banda­ríkja­dali í síð­asta mán­uði. Það jafn­gildir rúmum 74 millj­ónum króna.

Það eru nán­ast engin tak­mörk fyrir því hvað hægt er að selja með NFT tækn­inni. Á morg­un, 21. mars, verða 15 ár liðin frá því að Jack Dorsey, einn af stofn­endum Twitt­er, sendi frá sér sitt fyrsta tíst. Tístið var ein­falt að gerð en í því sagði Dorsey frá því að hann væri að setja upp Twitter reikn­ing sinn. Á morgun lýkur upp­boði á þessu sama tísti. Hverjum sem er gefst sem sagt kostur á að kaupa fyrsta tíst Jack Dors­ey. Kaup­verðið er þó ekki á færi hvers sem er, boðið stendur í 2,5 millj­ónum dala, eða um 320 millj­ónum króna, þegar þetta er skrif­að.

Körfu­bolta­mynd­irnar fær­ast á netið

Í ára­tugi hefur fólk safnað myndum af íþrótta­mönnum og þær gengið kaupum og söl­um. Með tíð og tíma geta fágætar mynd­ir, haldi þær upp­runa­legu ástsandi sínu, orðið mjög verð­mæt­ar. Nú getur söfn­unarótt íþrótta­á­huga­fólk líka safnað slíkum myndum á staf­rænu formi, og það sem meira er, þær íþrótta­myndir sem nú er hægt að safna eru hreyfi­mynd­ir.

Þannig hefur NBA deildin hafið sam­starf við fyr­ir­tækið Dapper Labs um fram­leiðslu og sölu á mynd­skeiðum úr körfu­bolta­leikjum deild­ar­inn­ar. Á vef­síð­unni NBA Top Shot gefst við­skipta­vinum tæki­færi á að kaupa sér slík mynd­bönd til eign­ar. Verð­bilið á síð­unni er mik­ið, hægt er að kaupa mynd­skeiða­pakka sem kalla mætti algengan og þar af leið­andi ekki með sjald­gæfum mynd­böndum á 9 banda­ríkja­dali, rúm­lega 1.100 krón­ur.

En líkt og með sjald­gæfu, verð­mætu íþrótta­spilin sem fólk geymir í möppum og verslar með fyrir háar fjár­hæðir er hægt að kaupa mynd­bönd fyrir mun stærri fjár­hæð­ir, þús­undir dala jafn­vel. Mynd­skeið sem sýnir Lebron James verja skot í leik Los Ang­eles Lakers gegn San Ant­onio Spurs í nóv­em­ber árið 2019 seld­ist í jan­úar á þsesu ári fyrir 100 þús­und dali, tæp­lega 12,8 millj­ónir króna.

Veltan fjórt­án­fald­að­ist á milli ára í fyrra

Í umfjöllun New York Times er sagt að sala slíkra mynd­banda hjá NBA Top Shots hafi numið 43,8 millj­ónum dala í jan­úar síð­ast­liðnum eða um 5,6 millj­örðum króna. Umfang við­skipta með NFT hefur marg­fald­ast á undra­skömmum tíma. Á síð­asta ári er talið að velta með NFT hafi fjór­fald­ast frá árinu áður og verið alls 250 millj­ónir dala, tæpir 32 millj­arðar króna. Ljóst er að sú tala verður marg­falt hærri á þessu ári.

Ástæð­urnar fyrir þessum gríð­ar­lega vexti eru meðal ann­ars raktar til kór­ónu­veiru­far­ald­urs­ins, en í Banda­ríkj­unum jókst day tra­d­ing (skamm­tíma spá­kaup­mennska á hluta­bréfa­mark­aðn­um). Þar að auki hafa fjór­festar að und­an­förnu leitað áhættu­sam­ari og sér­hæfð­ari fjár­fest­ing­ar­kosta, og fjár­fest til að mynda í striga­skóm, víni og list. Í ofaná­lag hafi svo verð raf­mynta hækkað gíf­ur­lega á til­tölu­lega skömmum tíma. Þar af leið­andi hefur hópur Bitcoin auð­jöfra stækkað mikið og sá hópur haft nóg af raf­eyri til að eyða.

Algeng­asti gjald­mið­ill­inn í við­skiptum með NFT er Ether­e­um. Á síð­ast­liðnu ári hefur gengi Ether­eum marg­fald­ast. Fyrir um ári stóð gengið í um 125 Banda­ríkja­dölum fyrir hverja ein­ingu Ether­eum en nú stendur gengið í um 1.800 banda­ríkja­döl­um, það hefur því nærri því fimmt­án­fald­ast á einu ári. Það sem af er þessu ári hefur gengið hækkað gríð­ar­lega en á síð­asta mán­uði hefur verið mikið flökt á því.

Aukin sala á stafrænum listaverkum er fýsileg í augum uppboðshúsanna. Kostnaðurinn við meðhöndlun, geymslu og flutning slíkra er nefnilega enginn. Vandlega þarf að huga að þessum þáttum þegar verðmæt, og oft á tíðum viðkvæm, listaverk fara í sölu hjá uppboðshúsunum.
EPA

Tengslin við lista­verk rofnað

En hvað er það sem fólk er að kaupa? Líkt og áður segir er það eign­ar­haldið sem er und­ir. Í umfjöllun New York Times er sagt að mont­réttur geti á ein­hvern hátt verið það sem kaup­endur séu að leit­ast eft­ir. Einnig er hægt að líta á NFT sem upp­runa­vott­orð en stað­festur upp­runi verka er lyk­il­þáttur í verð­myndun lista­verka á mark­aði.

Þessi þróun er einnig heill­andi í augum stórra gall­ería og upp­boðs­húsa sem höndla með mynd­list. Noah Dav­is, sér­fræð­ingur hjá Christies, segir til að mynda í sam­tali við New York Times að tæknin leysi ákveðið flækju­stig sem fylgir því að með­höndla verð­mæt lista­verk. Kostn­aður við geymslu er á bak og burt, ekki þarf að flytja og ljós­mynda verk og flutn­ings­kostn­aður er eng­inn.

Ekki eru þó allir á eitt sáttir með þró­un­ina. Einn lista­verka­safn­ari segir í sam­tali við New York Times að list í sam­tím­anum snú­ist ekki lengur um sam­band ein­stak­lings við lista­verk­ið, heldur sé til­gang­ur­inn ein­ungis sá að græða pen­ing.

Í sam­tali við BBC segir Sus­annah Street­er, sér­fræð­ingur í fjár­fest­ingum og fjár­mála­mörk­uðum hjá Hargr­ea­ves Lans­down, að ætli fólk sér að kaupa eignir til fjár­fest­ingar ætti fólk að gera það eftir að vera búið að kynna sér fjár­fest­ing­ar­kost­inn vel og vera full­visst um að til langs tíma muni virði eign­ar­innar hækka. Nú sé hins vegar útlit fyrir að margir séu að setja sig í stell­ingar spá­kaup­manna með það fyrir augum að græða á verð­hækk­unum NFT á skömmum tíma.

„Það kann að vera að það sé bóla í gangi. Ef svo er þá mun áhug­inn á end­anum bein­ast að næsta æði og eign­irnar hrapa í verð­i,“ segir Sus­annah.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnGrétar Þór Sigurðsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar