Christies

Tilkoma NFT skekur listheiminn

Nýjasta æðið í listheiminum eru svokölluð NFT, eða Non-Fungible Token upp á ensku. NFT byggir á bálkakeðjutækni og hefur gert listamönnum sem vinna stafræn listaverk kleift að staðfesta uppruna listaverkanna og eignarhald þeirra. Þar með eykst seljanleiki þeirra og verðmæti. Veltan með NFT hefur margfaldast á undanförnum misserum en hægt er að selja nánast hvað sem er með aðstoð tækninnar.

Í maí árið 2007 hófst merkileg vegferð hjá listamanninum Beeple sem vinnur listaverk á stafrænu formi. Hann ákvað að hann ætlaði að skapa eitt verk á dag og birta það á vefnum. Síðan þá hefur hann ekki misst út dag, sem þýðir að hann hefur búið til rúmlega 5000 slík rafræn listaverk. Hann hefur gefið þessu verkefni yfirheitið Everydays og fyrr í þesssum mánuði seldi hann klippimynd með fyrstu fimm þúsund verkunum úr Everydays seríunni hjá uppboðshúsinu Christies. Verkið nefnist Everydays: the First 5000 Days og kaupverðið nam rúmum 69 milljónum dala, sem samsvarar rúmum 8,9 milljörðum íslenskra króna.

Slíkar upphæðir sjást ekki oft, en reglulega þó, þegar mikilvæg verk eftir þekkta listamenn ganga kaupum og sölum hjá stóru uppboðshúsunum. Einn munur er þó á slíkum verkum og klippimynd Beeple, hann er sá að tilvist klippimyndarinnar liggur handan við hinn efnislega heim, hún er JPG skrá á stafrænu formi. Þrátt fyrir að verkið sé nokkuð stórt að vöxtum þarf kaupandinn ekki að hafa áhyggjur af því að hafa ekki pláss fyrir það á stofuveggnum því ólíkt myndlist í sinni hefðbundnu mynd, olíu á striga, er stærð verksins ekk mæld í sentímetrum, heldur pixlum.

Til útskýringar er NFT eign sem er auðkennd með bálkakeðjutækni. Stórt net tölva skráir viðskiptin og staðfestir bæði uppruna skrárinnar sem verslað er með og eignarhald hennar. Verslað er með hvers konar stafrænar skrár, eins og dæmin í þessari grein munu sanna, en eins og staðan er núna er tæknin hve mikilvægust á markaði með stafræn listaverk. Það er vegna þess að með NFT er hægt að tryggja uppruna stafræns listaverks og að verkið sé einstakt, eða í takmörkuðu upplagi – og þar liggur verðmætasköpunin. NFT er mætti því líkja við hlutdeildarskírteini eða afsal.

NFT stendur fyrir Non-Fungible Token upp á ensku. Hugtakið fungible nær yfir hluti sem eru auðskiptanlegir. Skýrasta dæmið um auðskiptanelga hluti eru gjaldmiðlar, það er ekkert tiltökumál að skipta einum 5000 króna seðli fyrir fimm 1000 króna seðla. Það er ekki svo auðsótt að skipta einu listaverki út fyrir annað þar sem hvert og eitt þeirra er einstakt, að minnsta kosti í tilfelli málverka og höggmynda. Stafræn listaverk getur hver sem er afritað og deilt með öðrum. Myndin sem fylgir þessari grein er til dæmis milljarða virði.

Auglýsing

Samfélagsmiðlafærslur og gif-myndir boðnar hæstbjóðanda

Þessi tækni hefur verið í notkun frá því um miðjan síðasta áratug en er nú fyrst að verða á allra vitorði. Einn þeirra atburða sem hefur ef til vill helst orðið til þess að bera hróður NFT víðar er sala Chris Torres á hinni svokölluðu Nyan Cat gif-mynd en hana seldi Torres fyrir um það bil 580 þúsund bandaríkjadali í síðasta mánuði. Það jafngildir rúmum 74 milljónum króna.

Það eru nánast engin takmörk fyrir því hvað hægt er að selja með NFT tækninni. Á morgun, 21. mars, verða 15 ár liðin frá því að Jack Dorsey, einn af stofnendum Twitter, sendi frá sér sitt fyrsta tíst. Tístið var einfalt að gerð en í því sagði Dorsey frá því að hann væri að setja upp Twitter reikning sinn. Á morgun lýkur uppboði á þessu sama tísti. Hverjum sem er gefst sem sagt kostur á að kaupa fyrsta tíst Jack Dorsey. Kaupverðið er þó ekki á færi hvers sem er, boðið stendur í 2,5 milljónum dala, eða um 320 milljónum króna, þegar þetta er skrifað.

Körfuboltamyndirnar færast á netið

Í áratugi hefur fólk safnað myndum af íþróttamönnum og þær gengið kaupum og sölum. Með tíð og tíma geta fágætar myndir, haldi þær upprunalegu ástsandi sínu, orðið mjög verðmætar. Nú getur söfnunarótt íþróttaáhugafólk líka safnað slíkum myndum á stafrænu formi, og það sem meira er, þær íþróttamyndir sem nú er hægt að safna eru hreyfimyndir.

Þannig hefur NBA deildin hafið samstarf við fyrirtækið Dapper Labs um framleiðslu og sölu á myndskeiðum úr körfuboltaleikjum deildarinnar. Á vefsíðunni NBA Top Shot gefst viðskiptavinum tækifæri á að kaupa sér slík myndbönd til eignar. Verðbilið á síðunni er mikið, hægt er að kaupa myndskeiðapakka sem kalla mætti algengan og þar af leiðandi ekki með sjaldgæfum myndböndum á 9 bandaríkjadali, rúmlega 1.100 krónur.

En líkt og með sjaldgæfu, verðmætu íþróttaspilin sem fólk geymir í möppum og verslar með fyrir háar fjárhæðir er hægt að kaupa myndbönd fyrir mun stærri fjárhæðir, þúsundir dala jafnvel. Myndskeið sem sýnir Lebron James verja skot í leik Los Angeles Lakers gegn San Antonio Spurs í nóvember árið 2019 seldist í janúar á þsesu ári fyrir 100 þúsund dali, tæplega 12,8 milljónir króna.

Veltan fjórtánfaldaðist á milli ára í fyrra

Í umfjöllun New York Times er sagt að sala slíkra myndbanda hjá NBA Top Shots hafi numið 43,8 milljónum dala í janúar síðastliðnum eða um 5,6 milljörðum króna. Umfang viðskipta með NFT hefur margfaldast á undraskömmum tíma. Á síðasta ári er talið að velta með NFT hafi fjórfaldast frá árinu áður og verið alls 250 milljónir dala, tæpir 32 milljarðar króna. Ljóst er að sú tala verður margfalt hærri á þessu ári.

Ástæðurnar fyrir þessum gríðarlega vexti eru meðal annars raktar til kórónuveirufaraldursins, en í Bandaríkjunum jókst day trading (skammtíma spákaupmennska á hlutabréfamarkaðnum). Þar að auki hafa fjórfestar að undanförnu leitað áhættusamari og sérhæfðari fjárfestingarkosta, og fjárfest til að mynda í strigaskóm, víni og list. Í ofanálag hafi svo verð rafmynta hækkað gífurlega á tiltölulega skömmum tíma. Þar af leiðandi hefur hópur Bitcoin auðjöfra stækkað mikið og sá hópur haft nóg af rafeyri til að eyða.

Algengasti gjaldmiðillinn í viðskiptum með NFT er Ethereum. Á síðastliðnu ári hefur gengi Ethereum margfaldast. Fyrir um ári stóð gengið í um 125 Bandaríkjadölum fyrir hverja einingu Ethereum en nú stendur gengið í um 1.800 bandaríkjadölum, það hefur því nærri því fimmtánfaldast á einu ári. Það sem af er þessu ári hefur gengið hækkað gríðarlega en á síðasta mánuði hefur verið mikið flökt á því.

Aukin sala á stafrænum listaverkum er fýsileg í augum uppboðshúsanna. Kostnaðurinn við meðhöndlun, geymslu og flutning slíkra er nefnilega enginn. Vandlega þarf að huga að þessum þáttum þegar verðmæt, og oft á tíðum viðkvæm, listaverk fara í sölu hjá uppboðshúsunum.
EPA

Tengslin við listaverk rofnað

En hvað er það sem fólk er að kaupa? Líkt og áður segir er það eignarhaldið sem er undir. Í umfjöllun New York Times er sagt að montréttur geti á einhvern hátt verið það sem kaupendur séu að leitast eftir. Einnig er hægt að líta á NFT sem upprunavottorð en staðfestur uppruni verka er lykilþáttur í verðmyndun listaverka á markaði.

Þessi þróun er einnig heillandi í augum stórra gallería og uppboðshúsa sem höndla með myndlist. Noah Davis, sérfræðingur hjá Christies, segir til að mynda í samtali við New York Times að tæknin leysi ákveðið flækjustig sem fylgir því að meðhöndla verðmæt listaverk. Kostnaður við geymslu er á bak og burt, ekki þarf að flytja og ljósmynda verk og flutningskostnaður er enginn.

Ekki eru þó allir á eitt sáttir með þróunina. Einn listaverkasafnari segir í samtali við New York Times að list í samtímanum snúist ekki lengur um samband einstaklings við listaverkið, heldur sé tilgangurinn einungis sá að græða pening.

Í samtali við BBC segir Susannah Streeter, sérfræðingur í fjárfestingum og fjármálamörkuðum hjá Hargreaves Lansdown, að ætli fólk sér að kaupa eignir til fjárfestingar ætti fólk að gera það eftir að vera búið að kynna sér fjárfestingarkostinn vel og vera fullvisst um að til langs tíma muni virði eignarinnar hækka. Nú sé hins vegar útlit fyrir að margir séu að setja sig í stellingar spákaupmanna með það fyrir augum að græða á verðhækkunum NFT á skömmum tíma.

„Það kann að vera að það sé bóla í gangi. Ef svo er þá mun áhuginn á endanum beinast að næsta æði og eignirnar hrapa í verði,“ segir Susannah.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnGrétar Þór Sigurðsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar