Frá og með þriðjudeginum 16. mars næstkomandi munu leiðakerfi Air Iceland Connect og Icelandair verða að einu leiðakerfi og sölu- og markaðsstarf sameinast undir vörumerki Icelandair. Vörur og þjónusta Icelandair, innanlands sem utan, verða þannig samræmdar og aðgengilegar á einum stað á vef Icelandair. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair.
Þar segir að markmiðið með samþættingu félaganna sé að tryggja sjálfbæra framtíð innanlandsflugs Icelandair Group sem og flugs á vestnorrænum markaðssvæðum, og á sama tíma styrkja og einfalda rekstur félagsins í heild.
„Eitt öflugt vörumerki, einfaldað bókunarferli og samþættar dreifileiðir gera Icelandair kleift að bjóða heildstætt vöru- og þjónustuúrval til allra áfangastaða félagsins, innanlands sem utan, á einum stað og bæta þannig upplifun viðskiptavina. Flugrekstrarleyfi félaganna verða áfram aðskilin en eftir samþættinguna verða innanlands- og svæðisbundin flug á FI flugnúmerum Icelandair. Þá stuðlar samþættingin að verulegum samlegðaráhrifum í rekstri félagsins, svo sem með sameiningu yfirstjórnar, stoðdeilda og kerfa,“ segir í tilkynningu frá Icelandair sem barst til fjölmiðla í morgun.
Sameinuðu félögin í fyrra
Vörumerkið Air Iceland Connect var kynnt til leiks sem nýtt nafn hins rótgróna Flugfélags Íslands árið 2017, en á þeim tíma var innanlandsflugið í dótturfélagi innan samstæðu Icelandair Group. Fyrir tæpu ári, þegar kórónuveirufaraldurinn var byrjaður að herja á heiminn, tilkynnti Icelandair Group að starfsemi innanlandsflugsins og alþjóðaflugsins yrði sameinuð. Þá var staða framkvæmdastjóra Air Iceland Connect lögð niður, en nú er þessari samþættingu sem boðuð var að ljúka að fullu og síðar í mánuðinum mun vörumerki Air Iceland Connect heyra sögunni til.
Fram kemur í tilkynningu Icelandair að áfangastaðir um allt land verði sýnilegri á heimasíðu Icelandair í gegnum eina leit, einn farmiða og tengingu við leiðakerfið í Evrópu og Norður Ameríku. Einnig segir í tilkynningu félagsins að tenging við vörumerki Icelandair muni „lyfta innlendum áfangastöðum upp alþjóðlega“ þar sem vörumerki Icelandair sé vel þekkt á lykilmörkuðum félagsins.
Flugfrelsi hættir í sölu 16. mars
Icelandair segir að nú standi yfir vinna við endurmat á vörum og þjónustu í innanlandsfluginu. „Eftir yfirfærsluna þann 16. mars næstkomandi verður sölu Flugfrelsis hætt og breytingar verða á skilmálum og þjónustu Flugkappa og Flugfélaga. Skilmálar útstandandi ferðainneigna sem keyptar eru fyrir yfirfærsluna eru óbreyttir en sú breyting verður á að þjónusta við viðskiptavini fer fram í gegnum þjónustuver Icelandair. Auk þess er unnið að þróun nýrra lausna sem kynntar verða á vormánuðum,“ segir í tilkynningunni.
Icelandair mun áfram fljúga til Akureyrar, Egilsstaða, Ísafjarðar og Vestmannaeyja. „Þá hafa Air Iceland Connect og Norlandair átt í samstarfi um flug til nokkurra áfangastaða á Íslandi til viðbótar, svo sem til Bíldudals og Gjögurs frá Reykjavík, ásamt flugi til Grímseyjar, Vopnafjarðar og Þórshafnar frá Akureyri. Hægt hefur verið að kaupa flugmiða á þessa áfangastaði í einum miða í gegnum bókunarsíðu Air Iceland Connect. Eftir samþættingu Air Iceland Connect og Icelandair breytist samstarf Norlandair við félagið þannig að flug á áfangastaði Norlandair verða einungis fáanleg á heimasíðu þeirra en ekki í gegnum bókunarsíðu Icelandair. Félögin munu þó áfram vinna þétt saman og engin breyting verður á þjónustu við farþega frá Akureyrarflugvelli né Reykjavíkurflugvelli,“ segir í tilkynningu Icelandair.
Bogi Nils segir vonir standa til að túristum í innanlandsflugi fjölgi
„Ég er sannfærður um að samþætting félaganna verði farsælt skref og muni stuðla að sterkara flugfélagi og betri flugsamgöngum,“ er haft eftir Boga Nils Bogasyni forstjóra Icelandair Group í fréttatilkynningu félagsins.
„Íslendingar reiða sig á öflugt innanlandsflug og með þessu skrefi styrkjum við það enn frekar og ætlum okkur að bjóða samkeppnishæf verð og leggja áfram áherslu á persónulega þjónustu. Að því sögðu er um stórt og flókið verkefni að ræða sem við munum taka í nokkrum skrefum. Þess vegna leggjum við mikla áherslu á góð samskipti við viðskiptavini og samtal við helstu hagaðila um land allt um hvernig við þróum innanlandsflugið áfram með þarfir og upplifun viðskiptavina okkar í huga,“ segir Bogi.
Haft er eftir honum að til lengri tíma litið standi vonir félagsins til þess að það takist að fjölga ferðamönnum í innanlandsflugi, sökum þess að framboð innanlandsflugs verði nú áberandi í bókunarvélum Icelandair.
„Það myndi styrkja lykiláfangastaði okkar um allt land og skila sér til viðskiptavina okkar í aukinni tíðni og betri þjónustu,“ segir Bogi Nils.