Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum Hafrannsóknarstofnunar er heildarmagn makríls meira en nokkru sinni fyrr á Íslandsmiðum, eða frá því að athuganir hófust árið 2009. Hafró greinir frá þessu á vefsvæði sínu í dag en í gær lauk rúmlega fimm vikna löngum leiðangri Árna Friðrikssonar sem hafði það megin markmið að meta magn og útbreiðslu makríls umhverfis Íslands og við Grænland. Framundan er frekari úrvinnsla á gögnum frá leiðangrinum og munu helstu niðurstöður verða kynntar síðar, segir í frétt Hafró.
„Bráðbirgðaniðurstöður sýna mun meira magn og suðlægari útbreiðslu makríls sunnan við Ísland en undanfarin ár. Þá var makríll fyrir öllu Vestur- og Austurlandi í svipuðu magni og fyrri ár, en lítils var vart norður af landinu. Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum er heildarmagn makríls á Íslandsmiðum meira en nokkru sinni frá því að athuganirnar hófust árið 2009.
Við Grænland var makríl að sjá á stærsta hluta rannsóknasvæðisins og náði útbreiðsla hans allt suður fyrir Hvarf. Makríllinn var þó á þessu svæði hnappdreifðari en fyrri ár og magn hans minna,“ segir í fréttinni. Alls var mælt á 92 fyrirfram ákveðnum rannsóknarstöðvum auk mælinga á umhverfisþáttum.
Fram kemur að síld fannst nokkuð víða á rannsóknarsvæðinu, norsk-íslensk síld austur og norður af Íslandi og íslensk sumargotssíld fyrir sunnan og vestan. „Norður af Íslandi var vart við töluvert magn norsk-íslenskrar síldar allt vestur að Horni, en svo vestarlega hefur síldin líklega ekki gengið síðan á 7. áratugi síðustu aldar. Skörun á útbreiðslu síldar og makríls var mest austan við land, en einnig töluverð á grunnslóð sunnan og vestan lands þar sem makríll var í bland við íslenska sumargotssíld. Í þessum leiðangri var minni áhersla lögð á að kanna útbreiðslu kolmunna en makríls og síldar, en hann er að öllu jöfnu að finna á meira dýpi en togað var á.“