Á einu ári hefur traust á Sigurð Inga Jóhannsson, innviðaráðherra og formann Framsóknarflokksins, fallið um 24 prósentustig, Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra og formann Vinstri grænna, fallið um 18 prósentustig og á Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, um 14,4 prósent.
Á sama tíma hefur vantraust á Sigurð Inga aukist um 22,4 prósent, á Katrínu um 18,3 prósentustig og Bjarna um 17,4 prósentustig. Katrín er samt sem áður sá formaður stjórnarflokks sem nýtur mest trausts, eða 43,2 prósent, og Bjarni sá ráðherra sem flestir vantreysta, eða 61,5 prósent.
Þetta kemur fram í könnun sem Maskína birti í vikunni.
Katrín Jakobsdóttur úr 61,2 í 43,2 prósent á einu ári
Í nóvember 2021, skömmu eftir síðustu kosningar, sögðust 61,2 prósent kjósenda treysta Katrínu Jakobsdóttur. Síðan þá hefur glatað um 30 prósent af trausti í sinn garð og nú segjast 43,2 prósent treysta henni.
Sem stendur mælist traustið aðeins meira hjá konum en körlum og eykst eftir því sem fólk verður eldra. Þannig segjast 53,3 prósent 60 ára og eldri treysta henni á meðan að það hlutfall er 32,9 prósent hjá aldurshópnum 18 til 29 ára. Menntun virðist líka skipta máli þegar kemur að trausti á Katrínu, en það eykst eftir því sem fólk er betur menntað. Þá vekur athygli að sá tekjuhópur sem treystir henni best eru tekjuhæstu Íslendingarnir, sem eru með 1,2 milljón króna eða meira í tekjur á mánuði. Þar mælist traust til hennar 55,1 prósent á meðan að traustið heilt yfir mælist 43,2 prósent.
Traust á Katrínu er áfram sem áður mun minna hjá andstöðuflokkunum. Kjósendur Pírata og Sósíalistaflokks Íslands, þess flokks sem er staðsettur næst Vinstri grænum á hinum hefðbundna vinstri-hægri kvarða stjórnmálanna, eru þeir sem vantreysta henni mest.
Bjarni Benediktsson úr 37,6 í 23,2 prósent á einu ári
Alls segjast 23,2 prósent landsmanna treysta Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins. Það er tæpum fimm prósentustigum fleiri en gerðu það í apríl en næstum 40 prósent færri en gerðu það í upphafi kjörtímabilsins í nóvember í fyrra.
Karlar treysta fjármála- og efnahagsráðherra betur en konur og traustið á hann eykst eftir því sem svarendur eru eldri. Þá er bein fylgni milli tekna og þess að bera traust til Bjarna. Alls segjast 32 prósent þeirra sem eru með 1,2 milljónir króna eða meira í heimilistekjur á mánuði treysta honum en 14 prósent þeirra sem eru með tekjur undir 400 þúsund krónum á mánuði.
Það kemur vart á óvart á kjósendur Sjálfstæðisflokks treysta Bjarna mun betur en kjósendur annarra flokka. Alls segjast 74 prósent þeirra bera mjög eða frekar mikið traust til fjármála- og efnahagsráðherra. Um fjórðungur þeirra sem segjast kjósa Framsókn ef kosið yrði í dag bera traust til Bjarna og aðeins færri, 23 prósent, kjósenda Miðflokksins.
Í könnuninni í apríl sögðust 70,7 prósent svarenda vantreysta Bjarna. Enginn annar ráðherra komst nálægt honum í vantrausti á þeim tíma. Vantraustið hefur dregist nokkuð saman síðan þá og mælist nú 61,5 prósent. Það er þó enn langt yfir því sem það mældist í nóvember 2021, þegar 44,1 prósent sögðust vantreysta Bjarna.
Þar skiptir mestu að dregið hefur verulega úr vantrausti á Bjarna hjá væntanlegum kjósendum Vinstri grænna. Í apríl sögðust 78,9 prósent þeirra sem styðja Vinstri græn treysta Bjarna lítið. Nú hefur það hlutfall fallið niður í 58,2 prósent. Vantraust á formann Sjálfstæðisflokksins mælist nú nánast það sama hjá kjósendum Vinstri grænna og Framsóknarflokksins. Einungis 12,5 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins vantreysta formanni sínum og og rúmlega 55 prósent kjósenda Miðflokksins. Hjá kjósendum allra annarra flokka er vantraustið mun meira.
Sigurður Ingi Jóhannsson úr 54,4 í 30,4 prósent á einu ári
Traust til Sigurðar Inga Jóhannssonar, innviðaráðherra og formanns Framsóknarflokksins, hefur fallið ansi skarpt á einu ári. Það mældist 54,4 prósent í nóvember í fyrra, 32,5 prósent í apríl og nú 30,4 prósent. Á sama tíma hefur vantraust á innviðaráðherrann rúmlega tvöfaldast. Það var 18,1 prósent í nóvember 2021, 38,9 prósent í apríl og mælist nú 40,5 prósent.
Sigurður Ingi nýtur meira trausts hjá körlum en konum og, líkt og hjá hinum formönnum stjórnarflokka, þá eykst traustið eftir því sem fólk er eldra. Tæplega 22 prósent 18 til 29 ára treysta honum en um 39 prósent þeirra sem eru yfir sextugt. Þá vekur athygli hversu mikill munur er á trausti til hans eftir búsetu. Annar hver svarandi á Austurlandi sagðist treysta formanni Framsóknar á meðal að einungis 23,5 prósent íbúa höfuðborgarinnar Reykjavíkur gera það. Líkt og hjá Katrínu og Bjarna nýtur Sigurður Ingi mest trausts hjá tekjuhæsta hópi svarenda.
Væntanlegir kjósendur Framsóknarflokksins eru ánægðir með sinn mann og næstum þrír af hverjum fjórum þeirra segjast treysta honum mjög eða frekar mikið. Rúmur helmingur kjósenda Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna er á sama máli.