Hollensk lestarfélög hafa sameinast um að ætla að knýja allt lestarkerfi landsins með vindorku eftir þrjú ár. Hollenska orkufyrirtækið Eneco hefur gengið að samkomulagi við lestarfélögin um að útbúa raforkukerfið fyrir þessar breytingar.
Nú þegar er helmingur alls lestarkerfisins, sem er 2.890 kílómetra langt og þjónustar um 1,2 milljón manns á hverjum degi, knúið vindorku. Verkefnið sem ráðist verður í á næstu þremur árum miðar einnig að því að hraða innleiðingu endurnýjanlegra orkugjafa í öðrum Evrópulöndum.
Lestarkefið í Hollandi þjónustar um það bil 1,2 milljón manns á hverjum degi. (Mynd: EPA)
Orkan verður framleidd í vindorkuverum í Hollandi, Belgíu og nokkrum af Norðurlöndunum. Síðustu ár hefur vindorka hlotið byr undir báða vængi um allan heim. Samkvæmt upplýsingum Alþjóða orkuráðsins hefur innleiðing vindorku í raforkukerfi heimsins aukist um að jafnaði 24 prósent á hverju ári síðan árið 2000. Ráðið spáir því að ef áætlanir haldi muni vindorka verða 18 prósent allrar orkuframleiðslu heimsins árið 2050.
Lestarkerfið er ekki eina verkefni orkufyrirtæksins Eneco því nýverið gekk fyrirtækið frá samningum við Google um að sjá gagnaveri hugbúnaðarrisans bandaríska fyrir raforku eingöngu með vindorku.
Aldrei meiri eftirspurn eftir sólarorku í Bandaríkjunum
Samtök um sólarorkuiðnaðinn í Bandaríkjunum (SEIA) segja að aldrei hafi verið jafn mikil eftirspurn eftir raforku sem framleidd er með sólarsellum. Gríðarleg uppbygging hefur verið á innviðum fyrir sólarorkuframleiðslu vestra á síðustu misserum. Á raforkumarkaðinum komst sólarorka í fyrsta sinn yfir 20 gígavött í júní. Þá hefur orðið 70 prósent vöxtur í sölu sólarorku til heimila, að sögn SEIA.
SEIA vill að bandarísk stjórnvöld lagi löggjöf landsins að nýsköpun í raforkuframleiðslu. (Mynd: EPA)
Lobbýistar sólarorkuiðnaðarins þrýsta nú á stjórnvöld að auka skattaafslátt á fjárfestingar í sólarorku svo þessi framleiðsla geti haldið áfram að vaxa. „Eftirspurn eftir sólarorku er nú meiri en nokkru sinni og þróun undanfarinna missera sýnir að Ameríka verður að viðhalda snjallri, árangursríkari og framsýnni stefnumótun,“ segir Rhone Resch, forseti SEIA.
Sólarorka á þó langt í land vestanhafs enda var orkuframleiðsla með sólarorku aðeins 0,4 prósent af allri raforku í Bandaríkjunum. Það er um það bil eitt prósent af þeirri raforku sem framleidd er með brennslu kola.