„Nú áfram höldum við í heimsfaraldri COVID-19. En það er mat okkar að nú séum við komin á lokasprettinn og samheldni og seigla muni koma okkur yfir endamarkið.”
Þetta sagði Alma Möller landlæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag. Á fundinum var þríeykið samankomið í fyrsta sinn í margar vikur, þau Alma, Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra. Alma sagðist hvetja fólk til að þiggja bólusetningu. „Því fleiri sem verða bólusettir, því minni verða líkur á að við veikjumst og sjáum aukna útbreiðslu af veirunni.”
Alma sagði ástandið vissulega taka á en að við ættum að einblína á það jákvæða. Við værum lánsöm, okkur hafi tekist að halda faraldrinum í skefjum og það með mildari aðgerðum en flestar aðrar þjóðir. Hvatti hún alla til að sýna umburðarlyndi og skilning á mismunandi skoðunum og aðstæðum fólks. „Það er hollt fyrir eigin andlegu líðan að sýna samkennd og góðvild.”
Einnig benti hún á að mikilvægt væri nú sem áður að sofna ekki á verðinum. Veiran, hið breska afbrigði hennar, væri enn til staðar í samfélaginu, „og við þurfum að leggja okkar af mörkum svo hún nái sér ekki á strik.“