Sveitarstjórn Mýrdalshrepps setur sig ekki upp á móti efnistöku á Mýrdalssandi en „eigi hún að verða að veruleika er þó ljóst að skipulag hennar getur ekki orðið eins og gert er ráð fyrir í umhverfismatsskýrslu“.
Á þessum orðum hefst harðorð umsögn Einars Freys Elínarsonar, sveitarstjóra Mýrdalshrepps, við umhverfismatsskýrslu vegna áformaðrar námuvinnslu á Mýrdalssandi. Verkfræðistofan Efla vann skýrsluna fyrir þýska framkvæmdaaðilann, EP Power Minerals. Um er að ræða áform um gríðarlega mikla vinnslu vikurs og flutninga þess um 170 kílómetra leið frá Hafursey á Mýrdalssandi til Þorlákshafnar. Efnið yrði flutt þessa leið, að því er fram kemur í skýrslunni, á stórum flutningabílum sem færu fulllestaðir frá námu til hafnar á korters fresti allan sólarhringinn og tómir til baka. Þannig færu bílarnir, ýmist tómir eða lestaðir, um suðurströndina á um 7 mínútna fresti með tilheyrandi sliti á vegum, líkt og Umhverfisstofnun og Vegagerðin hafa bent á, aukinni slysahættu og loft-, hljóð og sjónmengun.
„Sú ályktun að starfsemin hafi óveruleg áhrif á útivist og ferðamennsku eins og hún er skipulögð er röng,“ skrifar Einar Freyr í umsögn sinni um matsskýrsluna. Hann bendir á að þjóðvegurinn sé lífæð ferðamennsku á Íslandi og því ljóst að sú umferð sem starfsemin geri ráð fyrir muni hafa veruleg neikvæð áhrif á ferðamennsku og alla almenna umferð á þjóðveginum. „Eins er það mat sveitarstjórnar að áhrif á umferð séu verulega neikvæð og að þær ályktanir sem dregnar eru í skýrslunni lýsi miklu skilningsleysi á aðstæðum á þjóðveginum á Suðurlandi,“ heldur Einar áfram. Áhrif svo umfangsmikilla landflutninga á hljóðvist í þéttbýli yrðu enn fremur verulega neikvæð.
Vikurinn á að flytja með skipum frá Þorlákshöfn til Evrópu og nota sem íblöndunarefni fyrir sement. Þegar fyrri hugmyndir um vikurvinnslu á þessum slóðum komu upp fyrir um tveimur áratugum gerðu áætlanir ráð fyrir að vikurinn yrði fluttur til vinnslu í verksmiðju í Vík og þaðan til hafnar – annað hvort í Reykjavík eða Þorlákshöfn. Þau áform voru mun minni í sniðum en runnu hins vegar út í sandinn.
Einar sveitarstjóri telur eðlilegt að horfa til mögulegra áhrifa starfseminnar á atvinnulíf og nærsamfélagið í ljósi þess rasks sem yrði á umhverfi. Skipulag starfseminnar eins og henni er lýst í umhverfismatsskýrslu geri ráð fyrir fáum – ef nokkrum – störfum sem raunverulega yrðu staðsett á svæðinu því flutningastarfsemi getur öll haft höfuðstöðvar annars staðar og sama gildir um þjónustu við slíka starfsemi. „Í þeim tilfellum skilar starfsemin engum arði til nærsamfélagsins,“ skrifar Einar Freyr.
Sveitarstjórn Mýrdalshrepps mælist til þess að fyrirkomulag starfseminnar verði endurskoðað og ráð verði gert fyrir því að vikrinum yrði skipað af ströndinni sunnan við námusvæðið. Sveitarfélagið lýsir sig reiðubúið til viðræðna um hafnargerð sem gæti enda opnað á möguleika fyrir annars konar atvinnustarfsemi. „Þannig mætti koma í veg fyrir verulega neikvæð áhrif á umferð, hljóðvist og ferðamennsku með því að flytja vikurinn stystu leið með undirgöngum þar sem þvera þarf þjóðveginn,“ skrifar Einar Freyr. Með slíku fyrirkomulagi væri tryggt að starfsemin skilaði sér í atvinnuuppbyggingu í heimabyggð og verðmætasköpun á efnistökusvæðinu. Enn fremur væri slíkt fyrirkomulag mun frekar í samræmi við tilgang starfseminnar um að gera ferlið sem umhverfisvænast.
Straumhöfn og náttúrulegar flæður
En hvar gæti verið höfn á þessum slóðum?
Ragnar Önundarson, einn þeirra fjölmörgu sem skiluðu umsögn um umhverfismatsskýrsluna, segir að með hinum gríðarmiklu þungaflutningum myndi stór hluti hringvegarins „fletjast út“ og þjóðin þurfa að borga viðhaldið.
Hann hvetur framkvæmdaaðilann til að skoða náttúrulegar „straumhafnir“, nýta náttúrulegar flæður, sem m.a. er að finna við Ingólfshöfða, í Mýrdal og við Holtsós. En spurningin sem eftir standi sé sú hvar náttúrufórnin yrði minnst. Hann segir þetta „hugarflug án tengingar við kostnaðar- og hagkvæmnisútreikninga“ en skoða verði alla kosti. „Að láta svona gríðarlega breytingu sem vikurflutningarnir verða afskiptalausa á ekki heldur að vera valkostur.“