Ari Edwald, framkvæmdastjóra Íseyjar útflutnings, dótturfélags Auðhumlu, hefur verið rekinn úr starfi. Frá þessu er greint á mbl.is þar sem segir að stjórn Íseyjar hafi sent félagsmönnum í Auðhumlu, eiganda Mjólkursamsölunnar og Íseyjar, tölvupóst með þessum upplýsingum í kvöld. Uppsögnin tekur gildi samstundis.
Ari var settur í tímabundið leyfi í síðustu viku eftir að Vítalía Lazareva steig fram í viðtali við Eddu Falak í hlaðvarpinu Eigin konur og rakti meint kynferðisofbeldi sem hún sagði að Ari og tveir aðrir menn, Þórður Már Jóhannesson og Hreggviður Jónsson, hefðu beitt hana.
Í tölvupóstinum sem mbl.is vitnar til segir að stjórn Íseyjar hafi fengið „ónákvæmar upplýsingar“ um málið í lok október í fyrra. „Málið var strax tekið alvarlega vegna þess möguleika að upplýsingarnar væru réttar, og hefur stjórn félagsins fundað oft um málið, bæði með framkvæmdastjóra og án hans. Málið var enn til meðferðar í stjórn í síðustu viku þegar vatnaskilin urðu. Eins og allir gera sér grein fyrir eru mál af þessum toga bæði alvarleg og erfið [...] Þær ásakanir sem nú eru komnar fram á hendur framkvæmdastjóra eru með þeim hætti að stjórn félagsins taldi sér skylt, að vel athuguðu máli, að segja upp ráðningarsamningnum við hann, með áskilnaði til riftunar síðar ef tilefni gefst til, með hliðsjón af hagsmunum félagsins, starfsfólks og viðskiptamönnum þess, og ekki síður meintum þolanda.“
Öll stjórn Íseyjar skrifar undir póstinn, þar á meðal Elín Margrét Stefánsdóttir stjórnarformaður.
Töldu ekki tilefni til viðbragða í desember
Vítalía opinberaði sögu sína fyrst með skjáskotum sem hún birti á Instagram seint í október. Þar nafngreindi hún mennina sem hún segir að hafi brotið gegn sér í heitum potti haustið 2020. Þeirra á meðal var Ari.
Skjáskot af frásögn konunnar fóru sem eldur í sinu um íslenskt samfélag. Í stórum hópum var fátt annað rætt í margar vikur á eftir en hvar þetta mál stæði. Ekkert var hins vegar fjallað um málið í fjölmiðlum, þrátt haft hafi verið samband við mennina fjóra, meðal annars frá blaðamanni Kjarnans. Viðbrögðin voru engin. Þeir svöruðu ekki.
Kjarninn sendi fyrirspurn á stjórnarformann MS og Ísey útflutnings vegna málsins 25. nóvember í fyrra. Fyrirspurnin var ítrekuð en svar barst fyrst þann 17. desember 2021 frá Elínu. Í svarinu stóð: „Stjórn Ísey útflutnings ehf. hefur vitneskju um það efni sem birtist á samfélagsmiðli og þú vísar til. Ekkert mál hefur verið tilkynnt til stjórnar Ísey útflutnings ehf. og við höfum ekki vitneskju um að starfsmaður okkar hafi verið kærður. Það er því ekki tilefni til viðbragða af hálfu stjórnar að svo stöddu.“
Hún sagði einnig að stjórnin hefði viðbragðsáætlun til að bregðast við vegna svona mála ef ástæða þætti til að bregðast við.
Hætti í stjórn bandarísks félags í byrjun nóvember
Þrýstingur á aðgerðir vegna stöðu mannanna jókst hratt eftir að viðtalið við Vítalíu birtist í síðustu viku og á fimmtudag greindi Stundin frá því að Ari hefði sjálfur óskað eftir því að fara í leyfi.
Ari Edwald sat einnig í stjórn Icelandic Provisions, bandarísks fyrirtækisins sem framleiðir skyr eftir aðferðum sem Mjólkursamsalan hefur þróað, og er að hluta í eigu hennar. Hann sagði sig úr stjórn Icelandic Provisions 6. nóvember síðastliðinn, nokkrum dögum eftir að frásögn Vitaliu birtist fyrst á samfélagsmiðlum. Sæti hans í stjórninni tók Sigurjón Rúnar Rafnsson, aðstoðarkaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga, en Kaupfélagið á fimmtungshlut í Mjólkursamsölunni og félagi utan um erlenda starfsemi þess.
Sigurjón er einnig einn þeirra þriggja stjórnarmanna Íseyjar sem skrifaði undir tölvupóstinn sem mbl.is vitnar til í kvöld.
Hefur verið forstjóri innan samstæðu frá 2015
Ákveðið var að skipta Mjólkursamsölunni upp í þrjú félög síðla árs 2020.
Innlend starfsemi var áfram í Mjólkursamsölunni en Ísey útflutningur og eignarhlutur í móðurfélagi Ísey Skyr Bars færðust í félagið MS erlend starfsemi ehf. og eignarhlutur í bandaríska skyrfyrirtækinu Icelandic Provisions í félagið MS eignarhald ehf.
Ari Edwald, sem verið hafði forstjóri Mjólkursamsölunnar frá árinu 2015, færði sig þá alfarið yfir í erlendu starfsemina og stýrði MS erlendri starfsemi og MS eignarhaldi.
Eigendur Mjólkursamsölunnar eru Auðhumla, samvinnufélag kúabænda, sem á 80 prósent hlut og Kaupfélag Skagfirðinga sem á 20 prósent hlut.