Ég er í doktorsnámi við Cambridgeháskóla í Bretlandi og lenti í ótrúlegri atburðarás þegar Bárðarbunga fór að bæra á sér. Ég var nýbyrjuð í náminu þannig að Bárðarbunga hefur yfirtekið verkefnið mitt. Ótrúleg heppni að lenda í miðri hringiðunni. Cambridge hefur verið með skjálftamælanet á Öskjusvæðinu síðan 2006 sem hefur hægt og rólega farið stækkandi. Þegar aukin skjálftavirkni í Bárðarbungu hófst vildi svo vel til að ég var á Íslandi og við vorum með marga skjálftamæla í geymslu í Reykjavík sem biðu þess að verða settir út um haustið. Við buðum því Veðurstofunni og Almannavörnum að samnýta nokkra af mælunum okkar til að fá betri upplýsingar um hvað var að gerast.
Allir voru mjög órólegir því gos undir mörg hundruð metra þykkum jökli getur valdið stóru jökulhlaupi. Sem betur fer hefur það ekki gerst þar sem kvikan rennur eftir neðanjarðargangi undir Dyngjujökli og kemur upp í tiltölulega stöðugu hraungosi í Holuhrauni NNA af Bárðarbungu.
Vegna þessara jarðhræringana í Bárðarbungu settum við upp fleiri skjálftamæla á Vatnajökul og við enda kvikugangsins í Holuhrauni í lok ágúst, til að fá nákvæmari staðsetningar á jarðskjálftunum undir jöklinum og átta sig þannig betur á því hvar kvikan var að brjóta sér leið neðanjarðar. Við erum nú með 75 mælitæki á svæðinu. Jarðskjálftavirknin í Vatnajökli, og kvikuhlaupið þaðan yfir í Holuhraun er merkilegur atburður á heimsvísu og með því að vera skráður af tiltölulega þéttu neti jarðeðlisfræðilegra mælitækja m.a. frá Cambridgeháskóla, Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun háskólans hafa safnast mjög mikilvæg vísindagögn. Það er gríðarlega merkilegt að sjá kvikugang ferðast 45 km frá eldstöðinni út í sprungusveiminn og fá svo gos í ofanálag.
Það er gríðarlega mikil vinna að setja upp og þjónusta stórt skálftamælanet. Þegar skjálftavirknin hófst þann 17. ágúst fór ég með þyrlu Landhelgisgæslunnar og tæknimanni Veðurstofu Íslands auk nokkurra starfsmanna Almanavarna að setja niður skjálftamæli á Vatnajökli. Það tókst þrátt fyrir að stuttur tími hafi gefist til verksins, því var farið nokkrum dögum seinna á vélsleðum aftur uppá Vatnajökul að setja niður fleiri skjálftamæla og GPS tæki fyrir Cambridgeháskóla Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun háskólans.
Margir skjálftamælar biðu þess að vera settir upp þegar Bárðarbunga fór að bæra á sér í sumar. (Mynd: Þorbjörg Ágústsdóttir)
Cambridge-hópurinn var eini vísndahópurinn að störfum á lokaða svæðinu norðan Vatnajökuls og í Öskju þegar fyrsta gosið hófst uppúr miðnætti 29. ágúst.Við vorum kölluð út rétt eftir miðnætti til að athuga hvort bjarminn á vefmyndavél Mílu væri raunverulegur. Við fórum strax á vettfang og staðfestum það að gos væri hafið á um 600 metra langri sprungu í gömlu gígaröðinni í Holuhrauni, norðan Dyngjujökuls. Gosið stóð í rúmlega 4 klukkustundir. Við tókum einnig fyrstu hraunsýnin sem lögreglan flutti með hraði í bæinn til efnagreiningar hjá Jarðvísindastofnun. Þann 31. ágúst klukkan 4 um morguninn vorum við ræst út aftur. Þá var margfalt stærra gos hafið í Holuhrauni. Gossprungan myndaði um 1,5 km langan eldvegg. Það var ótrúleg upplifun að sjá svona stórt eldgos og vera fyrst á staðinn.
Stærsta megineldstöð landsins
Jarðskjálftar hafa mælst reglulega í Bárðarbungu síðan mælingar hófust fyrir meira en 40 árum. Það hefur því verið fylgst vel með Bárðabungu frá upphafi mælinga. En Bárðarbunga er stærsta megineldstöð landsins með 80 km2 ísfylltri öskju og tilheyrir stærsta eldstöðvakefi landsins sem er yfir 190 km á lengd. Á sögulegum tíma hefur að meðaltali gosið einu sinni á hverjum 50 árum, síðast 1862-1864, í sprungusveimnum suðvestan Bárðarbungu, þá rann Tröllahraun 1.
Eldsumbrotin í Holuhrauni eru nú þau mestu að rúmmáli síðan í Skaftáreldum 1783–84. Þetta er því orðinn mun stærri atburður en Kröflueldar 1975–1984. Hraunið er nú orðið rúmlega 82 km2 að flatarmáli en um 1 km3 að rúmmáli. Holuhraunseldar eru þó einungis brot af Skaftáreldum. Hraunið sem myndaðist í Skaftáreldum er um 600 km2 að flatarmáli og um 15 km3 að rúmmáli 2. Ómögulegt er að segja hversu lengi gosið í Holuhrauni varir. Enn er nokkur kraftur í gosinu og hraunið stækkar, þó mun hægar en í upphafi. Einnig er töluverð skjálftavikrni í Bárðarbungu auk þess sem askjan sjálf hefur sigið meira en 50 m.
Cambridgeháskóli hefur verið með skjálftamælanet á Öskjusvæðinu síðan 2006 sem Þorbjörg og samnemendur hennar hafa stuðst við í rannsóknum sínum á eldsumbrotunum norðan Vatnajökuls. (Mynd: Þorbjörg Ágústsdóttir)
Vísindamannaráð Almannavarna hefur sett fram nokkrar hugsanlegar atburðarásir sem þeir telja að séu líklegri en aðrar þó ekki sé hægt að útiloka neitt og áfram verður að fylgjast náið með gosinu og Bárðarbungu sjálfri. Möguleikarnir þrír sem taldir eru líklegastir varðandi framvinduna eru:
- Gosið í Holuhrauni fjarar út og öskjusig í Bárðarbungu hættir.
- Stórt öskjusig í Bárðarbungu. Gos í Holuhrauni verður langvinnt eða vex. Mögulegt er að sprungan lengist til suðurs inn undir Dyngjujökul og valdi jökulhlaupum og gjóskufalli. Einnig er mögulegt að sprungur opnist annars staðar undir jöklinum.
- Stórt öskjusig í Bárðarbungu og gos í öskjubroti. Slíkt gos gæti brætt mikinn ís og valdið verulegu jökulhlaupi. Öskufall gæti orðið nokkurt.
Skjálftavirknin í Bárðabungu, sigið, framrás kvikugangsins og eldgosið eru saman einstakur atburður sem hefur mikla þýðingu fyrir fræðimenn. Aldrei hafa fleiri mælitæki verið til staðar né heldur fleiri tegundir mælitækja. Einnig hefur verið hægt að fylgjast með gosinu í miklu návigi sem er ómetanlegt. Rannsóknirnar auka skilning á hvernig eldstöðin Bárðarbunga hegðar sér; hvernig gangur ferðast um í jarðskorpunni á hvaða dýpi, hve hratt hann ferðast og hvernig hann breytir spennunni í jarðskorpunni og hefur áhrif á nærliggjandi eldfjöll. Einning veitir þetta fræðimönnum mikilvæga innsýn í hvernig jarðskorpa myndast á dýpi og á yfirborði. En flestir svona kvikugangar ná aldrei til yfirborðs heldur kólna og frjósa djúpt í jarðskorpunni.
Hægt er að fylgjast með skjálftavirkninni og fleiri mælingum Veðurstofunnar á jarðskjálftavefnum. Einnig er hægt að sjá áhugaverðar myndir á fésbókarsíðum Jarðvísindastofnunar og Veðurstofu Íslands.
Heimildir:
1 Sigurður Þórararinsson, 1972. Tröllagígar og Tröllahraun. Jökull, 22, bls 19-26.
2 Náttúruvá á Íslandi, eldgos og jarðskjálftar, 2013. Ritstjórar: Júlíus Sólnes, Freysteinn Sigmundsson og Bjarni Bessason. Háskólaútgáfan, Reykjavík.