17 þingmenn úr fimm flokkum hafa óskað eftir skýrslu frá dómsmálaráðherra þar sem gert er grein fyrir því hvaða áhrif breyting á hegningarlögum þar sem hugtakið nauðgun var endurskilgreint hefur haft. Breytingin sem um ræðir var samþykkt á alþingi í mars árið 2018 og færði samþykki í forgrunn skilgreiningar á nauðgunarbrotum og horfið var frá megináherslu á verknaðaraðferð. Með breytingunni varð samþykki gert að skilyrði fyrir samræði, eða eins og segir í greinargerð skýrslubeiðninnar: „Eftir gildistöku laganna þarf samþykki fyrir samræði eða öðrum kynferðismökum að hafa legið fyrir og án þess teljist þau varða refsingu. Samþykki þarf jafnframt að hafa verið tjáð af frjálsum vilja.“
Í skýrslubeiðninni óska skýrslubeiðendur meðal annars eftir upplýsingum sem varpað geta ljósi á það hvort breytingarnar hafi haft áhrif á fjölda tilkynntra brota. Það væri „til marks um að samþykki í forgrunni nauðgunarákvæðis sé til þess fallið að auka traust í garð réttarvörslukerfisins,“ líkt og segir í greinargerð sem fylgir skýrslubeiðninni.
Einnig er óskað eftir upplýsingum um hlutfall tilkynninga sem hafa leitt til ákæru annars vegar og sakfellingar hins vegar sem og upplýsingum um hvort verklagi hafi verið breytt hjá lögreglu, ákæruvaldi eða dómstólum eftir að lögunum var breytt.
Óska einnig eftir samanburði við útlönd
Sjónum er sérstaklega beint að Svíþjóð í skýrslubeiðninni en sambærileg lagabreyting var gerð þar í landi í júlí árið 2018. Óskað er eftir samantekt á því hvernig áðurnefnd atriði hafa þróast í Svíþjóð í kjölfar lagabreytingarinnar. Einnig er óskað eftir samanburði á breytingum á fjármunum sem varið er til forvarna og fræðslu um samþykki í kynferðislegum samskiptum á Íslandi og í Svíþjóð með sérstakri áherslu á fræðslu fyrir lögreglu, ákæruvald og dómstóla.
Skýrslubeiðendur óska einnig eftir samanburði á sambærilegum ákvæðum í hegningarlögum annarra Evrópuríkja við ákvæðið hér heima. Þá óska skýrslubeiðendur að lokum eftir því að í skýrslunni komi fram rök „með og á móti því því að rýmka nauðgunarákvæði almennra hegningarlaga þannig að það taki einnig til gáleysis eða stórfellds gáleysis og greining á áhrifum þess á sönnunarfærslu, með hliðsjón af reynslu annarra ríkja sem hafa þegar innleitt slíka reglu.“
Vilja vita hvort kerfið hafi „tekið mark á þessari lagabreytingu“
„Það er mjög mikilvægt að við áttum okkur á því hvort þetta hafi skilað tilætluðum árangri, hvort kerfið sem sýslar með þessi mál hafi tekið mark á þessari lagabreytingu og síðast en ekki síst að bera árangur okkar saman við önnur ríki sem hafa farið svipaðar leiðir,“ sagði Jón Steindór í umræðum um málið í þingsal.
„Þetta er mjög mikilvægt mál því að við verðum að hafa sannfæringu fyrir því að þegar við erum að lýsa yfir vilja okkar hér í þinginu og breyta lögum að það nái fram að ganga í framkvæmdinni,“ bætti hann við.
Líkt og áður segir standa alls 17 þingmenn úr fimm flokkum að baki skýrslubeiðninnar; Viðreisn, Pírötum, Samfylkingunni, Vinstri hreyfingunni - grænu framboði og Flokki fólksins. Fimm í hópi skýrslubeiðenda voru í hópi þeirra sem lögðu fram lagabreytingatillöguna sem samþykkt var árið 2018, þau Jón Steindór Valdimarsson, Hanna Katrín Friðriksson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir úr Viðreisn, Helga Vala Helgadóttir úr Samfylkingunni og Andrés Ingi Jónsson sem þá var í Vinstrihreyfingunni - grænu framboði en situr nú á þingi fyrir Pírata.