Sveitarstjórn Skaftárhrepps er allt annað en sátt við þá ákvörðun Arion banka að loka eina bankaútibúinu á Kirkjubæjarklaustri. Lokunin stóð einnig til fyrir um tveimur árum en var frestað. Sveitarstjórn barst hins vegar tilkynning 3. febrúar síðastliðinn þess efnis að nú væri komið að því að framkvæma hana. Útibúinu verður lokað þann 31. mars.
Sveitarstjórnin mótmælir þessari ákvörðun harðlega og í bókun sem samþykkt var á fundi hennar í vikunni er minnt á að útibú Arion banka á Kirkjubæjarklaustri þjóni Skaftárhreppi og Öræfum „auk allra þeirra þúsunda ferðamanna og nýbúa sem eru á svæðinu tímabundið hverju sinni. Ljóst er að lokun útibúsins kemur til með að hafa mjög slæm áhrif á íbúa og atvinnulíf svæðisins“.
Greint var frá áformum Arion banka í frétt á vef DFS.is, Fréttavef Suðurlands, fyrir um tveimur árum en þá stóð til að útibúinu á Klaustri yrði lokað í enda febrúarmánaðar. Þar kom fram að með lokuninni yrði næsta bankaútibú í Vík eða á Höfn. „Það eru 70 kílómetrar frá Klaustri yfir á Vík og mun lengra fyrir suma Skaftfellinga,“ hafði blaðið eftir íbúa sem var mjög ósáttur við fyrirætlanir bankans.
Sigrún Sigurgeirsdóttir skrifaði svo aðsenda grein í Fréttablaðið vegna málsins. „Þeir sem vilja búa og starfa á landsbyggðinni verða að geta reitt sig á að grunnþjónusta sé til staðar.“
300 íbúar skoruðu á bankann að hætta við
Á fundi atvinnumálanefndar Skaftárhrepps í febrúar 2020 var lagður fram undirskriftalisti 300 íbúa á svæðinu þar sem skorað var á Arion banka að endurskoða ákvörðun sína.
Fólkið í Skaftárhreppi lýsti yfir óánægju með að „stöðugt sé ráðist að grunnþjónustu“ og „Arion banki sjái ekki ástæðu til að halda uppi viðunandi þjónustu eftir áratuga samstarf“.
Atvinnumálanefnd Skaftárhrepps harmaði á fundi sínum ákvörðun stjórnenda bankans sem hafði verið boðuð með fimm vikna fyrirvara.
Stjórnendur Arion banka frestuðu lokuninni en nú er hún aftur komin á dagskrá að því er fram kemur í fundargerð sveitarstjórnar Skaftárhrepps.
Arion banki hagnaðist um 28,6 milljarða króna á síðasta ári. Alls greiddi bankinn út arð eða keypti eigin bréf af hluthöfum fyrir 31,5 milljarða króna . Til stendur að greiða 79 prósent af hagnaði ársins út sem arð, alls 22,5 milljarða króna, og kaupa eigin bréf fyrir að minnsta kosti 4,3 milljarða króna á komandi ári. Gangi þessi áform eftir mun Arion banki verða búinn að skila hluthöfum sínum 58,3 milljörðum króna frá byrjun síðasta árs. Bankinn hefur áform um að greiða um 30 milljarða króna ofan á það til hluthafa í nánustu framtíð þannig að heildar útgreiðslur nemi allt að 88 milljörðum króna.
Hópur starfsmanna mun að auki fá veglega bónusa vegna góðs gengis bankans á síðasta ári, samtals 1,6 milljarð. Kaupréttur þeirra mun einnig tryggja þeim tvöföldun á fjárfestingu sinni að óbreyttu.