Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari karlalandsliðsins í fótbolta, hefur valið hóp fyrir leikina gegn Armeníu og Liechtenstein í október næstkomandi. Athygli vekur að Aron Einar Gunnarsson fyrirliði landsliðsins var ekki valinn í hópinn.
Ísland mætir Armeníu föstudaginn þann 8. október og Liechtenstein mánudaginn 11. október. Báðir leikirnir fara fram á Laugardalsvelli og hefjast þeir klukkan 18:45. Armenía er í öðru sæti riðilsins með 11 stig, Ísland í því fimmta með fjögur stig og Liechtenstein í því neðsta með eitt stig.
Hópurinn er sem hér segir:
- Patrik Sigurður Gunnarsson - Viking FK
- Rúnar Alex Rúnarsson - Oud-Heverlee-Leuven - 12 leikir
- Elías Rafn Ólafsson - FC Midtjylland
- Jón Guðni Fjóluson - Hammarby IF - 18 leikir, 1 mark
- Ari Leifsson - Stromsgodset IF - 1 leikur
- Brynjar Ingi Bjarnason - US Lecce - 6 leikir, 2 mörk
- Hjörtur Hermannsson - Pisa - 23 leikir, 1 mark
- Ari Freyr Skúlason - IFK Norrköping - 81 leikur
- Guðmundur Þórarinsson - New York City FC - 9 leikir
- Alfons Sampsted - FK Bodo/Glimt - 5 leikir
- Birkir Már Sævarsson - Valur - 101 leikur, 3 mörk
- Þórir Jóhann Helgason - US Lecce - 3 leikir
- Ísak Bergmann Jóhannesson - FC Köbenhavn - 7 leikir
- Birkir Bjarnason - Adana Demirspor - 101 leikur, 14 mörk
- Stefán Teitur Þórðarson - Silkeborg IF - 4 leikir
- Andri Fannar Baldursson - FC Köbenhavn - 7 leikir
- Guðlaugur Victor Pálsson - FC Schalke 04 - 28 leikir, 1 mark
- Albert Guðmundsson - AZ Alkmaar - 25 leikir, 4 mörk
- Jón Dagur Þorsteinsson - AGF - 12 leikir, 1 mark
- Mikael Neville Anderson - AGF - 10 leikir, 1 mark
- Jóhann Berg Guðmundsson - Burnley - 81 leikur, 8 mörk
- Andri Lucas Guðjohnsen - Real Madrid Castilla - 3 leikir, 1 mark
- Sveinn Aron Guðjohnsen - IF Elfsborg - 4 leikir
- Viðar Örn Kjartansson - Valerenga IF - 30 leikir, 4 mörk
- Elías Már Ómarsson - Nimes Olympique - 9 leikir
Mótfallnir öllu ofbeldi
Á blaðamannafundi í dag sagði Arnar Þór að íþróttahreyfingin stæði frammi fyrir miklum áskorunum. Varla hefur farið fram hjá mörgum að ýmislegt hefur gengið á undanfarna mánuði innan KSÍ eftir að frásagnir af kynferðisofbeldi og áreitni landsliðsmanna í knattspyrnu komu upp á yfirborðið fyrr í sumar. Formaður KSÍ, Guðni Bergsson, sagði af sér embætti í kjölfarið og sömuleiðis stjórnin.
Arnar Þór sagði á fundinum að þau mál væru komin í ákveðið ferli og að innan KSÍ hefði verið hafið vinna til að laga verkferla innan hreyfingarinnar. Að hans mati er það mjög jákvætt en þeir Eiður Smári Guðjohnsen aðstoðarþjálfari eru sammála um að nauðsynlegt sé að hafa ákveðinn ramma til að vinna eftir hvað val á landsliðsmönnum varðar.
Hann benti jafnframt á að þessari vinnu væri ekki lokið og að nú væri KSÍ í ákveðnu millibilsástandi – en von er á nýrri stjórn og nýjum formanni. „Vinnan mun klárast á næstu vikum,“ sagði Arnar Þór. Hann impraði á því að hann og Eiður Smári væru „að sjálfsögðu mótfallnir öllu ofbeldi“ og að þeir vildu taka þátt í íþróttahreyfingu sem væri viljug til að laga það sem laga þarf.
Tók ákvörðunina í samráði við Aron Einar sem gaf kost á sér
Þegar Arnar Þór var spurður út í það af hverju Aron Einar væri ekki í hópnum þá segist hann hafa tekið þá ákvörðun sjálfur. „Ástæðurnar fyrir því eru utanaðkomandi og ég get ekki farið nánar út í það í dag. Ég bið ykkur að virða það.“
Hann segist hafa átt góð samtöl við Aron Einar um málið en fyrirliðinn gaf kost á sér í liðið. Arnar Þór segist ekki vita hvað framtíðin beri í skauti sér varðandi veru Arons Einars í landsliðinu en þessi ákvörðun á einungis við um þessa tvo leiki.
Samkvæmt Arnari Þór var ákvörðunin tekin í samráði við Aron Einar. Hann vildi ekki útskýra nánar hvað fælist í þessum „utanaðkomandi“ aðstæðum en þegar tíminn væri kominn á að gera það myndu þeir útskýra málið frekar.
Á fundinum var einnig spurt út í það af hverju Kolbeinn Sigþórsson hefði ekki verið valinn í hópinn og benti Arnar Þór á að hann væri meiddur. Hann áréttaði að enginn hefði bannað þjálfurunum að velja ákveðna menn í hópinn.