Áslaug María Friðriksdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, er bæjarstjóraefni Sjálfstæðisflokks í Ísafjarðarbæ kosningunum sem fara fram eftir rúma viku. Frá þessu er greint á vef Bæjarins besta.
Þar er haft eftir Áslaugu að hún hafi ekki þurft að hugsa sig lengi um þegar leitað var til hennar. „Eftir stuttan umhugsunarfrest fann ég að bæði hugur og hjarta sögðu já, enda eru taugarnar vestur afar sterkar og hlýjar. Mér finnst líka að frambjóðendahópurinn sé að slá á nýja strengi, er ferskur og framsækinn en skilur einnig að gott samstarf er forsenda framfara enda leggja þau áherslu á bætt samskipti og samráð við íbúa á svæðinu. Ég er þess fullviss að ég geti lagt margt gott til málanna.“
Sjálfstæðisflokkurinn er sem stendur í meirihlutasamstarfi við Framsóknarflokkinn í Ísafjarðarbæ. Flokkurinn er með þrjá af níu bæjarfulltrúum. Sá meirihluti réð Guðmund Gunnarsson, nú viðskiptaritstjóra Fréttablaðsins, sem bæjarstjóra eftir síðustu kosningar en sagði honum upp störfum 2020. Núverandi bæjarstjóri er Birgir Gunnarsson. Hann réð sig sem framkvæmdastjóra rekstrarstofu Þjóðkirkjunnar fyrr á þessu ári og hefur þar störf eftir komandi kosningar.
Í viðtali við Mannlíf vorið 2018 sagðist Áslaug hafa orðið fyrir vonbrigðum, en hún hafði talað fyrir þéttingu byggðar, lýst vilja til að ræða borgarlínu og viljað starfa með meirihlutanum í Reykjavík að þeim málum sem hún hefur getað séð sameiginlegan flöt á. „Með þessu tekur flokkurinn þá áhættu að höfða til þrengri hóps en hann hefði annars gert nema að einhverjir á framboðslistanum tali til þess hóps. Ég er ekki sú eina sem er á þessari málefnalínu og veit að meðal nýrra frambjóðenda er fólk sem er sammála mér um margt. Ég vona að þeir frambjóðendur fylgi sannfæringu sinni og láti ekki þagga niður í sér.“