Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, er sá ráðherra sem flestir landsmenn telja að hafi staðið sig best á yfirstandandi kjörtímabili, samkvæmt nýrri könnun Maskínu. Alls nefndu 13,8 prósent hann. Í öðru sæti er Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, en 9,7 prósent svarenda telja að hún hafi staðið sig best. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, utanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, er í þriðja sæti með átta prósent. Það er meiri ánægja með hana á meðal almennings en nokkurn annan ráðherra Sjálfstæðisflokksins.
Langflestir, alls 26,8 prósent aðspurðra, telja að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hafi staðið sig verst allra ráðherra á yfirstandandi kjörtímabili. Einungis einn annar ráðherra fær þann dóm að hafa staðið sig verst hjá hlutfalli landsmanna sem nær tveggja stafa tölu. Það er Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra og flokksbróðir Bjarna, en 16,3 prósent segja hann hafa staðið sig illa. Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, er í þriðja sæti yfir þá sem hafa staðið sig verst að mati svarenda, en 7,9 prósent nefndu hana. Katrín Jakobsdóttir er svo í fjórða sæti. Alls 7,3 prósent telja hana hafa staðið sig verst.
Athyglisvert er að óánægja með ráðherra Sjálfstæðisflokksins er afgerandi meiri meðal svarenda en ráðherra hinna stjórnarflokkanna. Þannig nefndu 48,6 prósent svarenda ráðherra úr Sjálfstæðisflokknum þegar þeir svöruðu hvaða ráðherra þeir teldu hafa staðið sig verst. 14,5 prósent nefndu ráðherra úr Vinstri grænum og 12,1 prósent úr Framsókn. Þar skipta afgerandi óvinsældir Bjarna og Jóns miklu máli.
Munurinn milli flokka er allt annar þegar kemur að því að nefna hver hefur staðið sig best. Flestir, alls 27,4 prósent, nefndu ráðherra Sjálfstæðisflokksins en skammt á hæla þeirra koma ráðherrar Framsóknar með 25,1 prósent. Lestina reka ráðherrar minnsta stjórnarflokksins, Vinstri grænna, með 13,6 prósent.
Samfylkingin bætt miklu við sig
Þrjár nýlegar kannanir, frá Gallup, Maskínu og Prósent, sýna að ríkisstjórnin er töluvert frá því að mælast með nægjanlegt fylgi til að halda meirihluta á þingi. Allir stjórnarflokkarnir hafa tapað fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn minnst, og í sumum tilvikum er hann nánast við kjörfylgi, sem var 24,4 prósent. Vinstri græn og Framsókn hafa hins vegar tapað miklu fylgi það sem af er kjörtímabilinu.
Í könnun Gallup, sem birt var í vikunni, mældist fylgi Vinstri grænna til að mynda í fyrsta sinn undir sjö prósentum. Flokkurinn, sem nú mælist sá sjötti stærsti á þingi, og mögulega sá næst minnsti, hefur aldrei mælst með minna fylgi og enginn flokkur hefur tapað jafn miklu fylgi frá síðustu kosningum og Vinstri græn.
Samanlagt mældist fylgistap stjórnarflokkanna þriggja 11,6 prósent hjá Gallup.
Á sama tíma sýndu allar þrjár áðurnefndar kannanir að fylgi Samfylkingarinnar væri komið yfir 20 prósent, en flokkurinn fékk 9,9 prósent í síðustu kosningum. Í könnun Maskínu mældist Samfylkingin stærri en Sjálfstæðisflokkurinn og Gallup mældi flokkinn stærstan, með 23,6 prósent fylgi, sem var einungis 0,2 prósentustigi undir Sjálfstæðisflokknum. Samkvæmt Gallup könnuninni hefur Samfylkingin því bætt við sig 13,7 prósentustigum á kjörtímabilinu, eða sem nemur tvöföldu fylgi Vinstri grænna.
Einungis einn annar flokkur á þingi hefur bætt við sig fylgi frá því að síðast var kosið samkvæmt mælingum Gallup, Píratar. Auk þeirra hefur Sósíalistaflokkurinn, sem náði ekki inn í síðustu kosningum, bætt lítillega við sig en þó innan skekkjumarka. Hinir sex flokkarnir sem mælast með stuðning hafa tapað fylgi.