Atvinnuleysi í júní mældist 2,6 prósent en að meðaltali voru 4.757 atvinnulausir í mánuðinum. Atvinnulausum fækkaði um 400 að meðaltali frá mánuðinum á undan eða um 0,3 prósentustig. Atvinnulausum körlum fækkaði um 291 frá maí en að meðaltali voru 2.086 karlar á atvinnuleysisskrá. Atvinnuleysi meðal karla var 2,1 prósent í júní. Atvinnulausum konum fækkaði um 109 frá maí og voru 2.671 kona á atvinnuleysisskrá í júní. Atvinnuleysi meðal kvenna mælist 3,2 prósent í mánuðinum.
Þetta sýna nýjar tölur frá Vinnumálastofnun yfir stöðu á vinnumarkaðinum í júní síðastliðnum. Á landsbygðinni fækkaði atvinnulausum um 249 milli maí og júní. Atvinnuleysi á landsbyggðinni mælist 2,1 prósent. Mest var atvinnuleysið á Suðurnesjum, þar sem það mælist 3,1 prósent. Minnst var atvinnuleysið á Norðurlandi vestra, þar sem atvinnuleysi mælist 1,2 prósent, og á Austurlandi þar sem atvinnuleysi er 1,5 prósent.
Alls voru 5.103 atvinnulausir í lok júní. Þeir sem voru atvinnulausir að fullu voru hins vegar 4.688. Fjöldi þeirra sem verið hafa atvinnulausir lengur en 6 mánuði samfellt var 2.387 í júní, og fækkaði um 172 frá maí og voru um 47% þeirra sem voru á atvinnuleysisskrá í júní. Fjöldi þeirra sem verið höfðu atvinnulausir í meira en eitt ár samfellt var 1.144 í júnílok, en 1.219 í maílok og fækkaði því um 75 milli mánaða og voru um 22% þeirra sem voru á atvinnuleysisskrá í júní. Alls voru 740 á aldrinum 18-24 ára atvinnulausir í lok júní eða um 14,5% allra atvinnulausra, en 845 í lok maí og fækkaði því um 105 milli mánaða. Í lok júní 2014 var fjöldi atvinnulausra á sama aldursbili 952 og hefur því fækkað um 212 milli ára í þessum aldurshópi. Skráð atvinnuleysi 18-24 ára reiknast 2,6% miðað við áætlaðan mannafla 18-24 ára.
Fram kemur í tilkynningu Vinnumálastofnunar að alls voru 979 erlendir ríkisborgarar án atvinnu í lok júní, eða 19 prósent atvinnulausra. Þar af voru 590 pólskir ríkisborgarar eða um 60 prósent erlendra ríkisborgara á atvinnuleysisskrá.
Laus störf í almennri vinnumiðlun hjá Vinnumálastofnun voru alls 323 talsins í lok júní. Flest þeirra, 125 talsins, voru fyrir ósérhæft starfsfólk og 104 fyrir þjónustu, sölu- og umönnunarfólk. Auk þessara starfa voru 40 störf laus á Starfatorgi í lok mánaðarins, flest sérfræðistörf.