Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands var hlutfall atvinnulausra í júlí 3,2 prósent. Að jafnaði voru 197.500 manns á aldrinu 16-74 ára á vinnumarkaði, sem jafngildir 84,5 prósent atvinnuþátttöku. Af þeim voru 191.200 starfandi og 6.300 án vinnu og í atvinnuleit.
Í samanburði við júlí 2014 þá minnkaði atvinnuþátttaka um 0,5 prósentustig. Hlutfall starfandi af mannfjölda minnkaði um 0,3 stig og atvinnuleysi var nánast það sama og í júlí 2014.
Leiðrétt fyrir árstíðarsveiflum þá mælist atvinnuleysi 4,3 prósent í júlí og fjölgaði atvinnulausum frá fyrri mánuði um 1.800 manns í 8.100. „Þrátt fyrir þessa aukningu á milli mánaða þá sýnir leitni vinnuaflstalna að atvinnuleysi lækkar enn, eða um 0,2 prósentustig sé horft til síðustu sex mánaða og um 0,7 stig á síðustu tólf mánuðum. Hlutfall starfandi síðustu sex mánuði hefur aukist um 0,6 prósentustig og um eitt stig síðustu tólf mánuði,“ segir á vef Hagstofunnar.