„Efling - stéttarfélag auglýsir eftir starfsfólki sem brennur fyrir þjónustu og samvinnu við félagsfólk Eflingar í stórum áskorunum næstu ára,“ segir í heilsíðuauglýsingu Eflingar í atvinnublaði Fréttablaðsins í dag.
Auglýst er m.a. eftir framkvæmdastjóra, fjármálastjóra, sviðsstjórum þjónustu og vinnuréttinda, sérfræðingum á ýmsum sviðum, t.d. í vinnurétti, vinnumarkaðs- og lífskjararannsóknum og í kjarasamningum og kjarasamningsgerð. Fimmtán störf hjá Eflingu eru auglýst samkvæmt vef Hagvangs sem sér um ráðningarnar.
„Vilt þú taka þátt í að byggja upp metnaðarfyllsta stéttarfélag landsins?“ segir ennfremur í auglýsingunni.
Öllum starfsmönnum á skrifstofu Eflingar var sagt upp í síðustu viku eftir að meirihluti stjórnar félagsins undir forystu formannsins Sólveigar Önnu Jónsdóttur hafði samþykkt að segja upp öllum ráðningarsamningum. Hún sagði af sér formennsku síðasta haust en bauð sig fram að nýju í oddvitasæti Baráttulistans í kosningum sem fram fóru í febrúar. Listinn hlaut 54 prósent atkvæða. Sólveig Anna tók svo við formennskunni á aðalfundi Eflingar í byrjun apríl.
Í yfirlýsingu frá Baráttulistanum vegna uppsagnanna í síðustu viku kom fram að ný ráðningarkjör yrðu innleidd „með gegnsæi og jafnrétti að leiðarljósi“ og að starfað yrði undir nýju skipulagi með breyttum hæfnikröfum og verkaskiptingu. Breytingarnar eru sagðar miða að bættri þjónustu við félagsmenn og aukinni skilvirkni í rekstri.
„Efling stéttarfélag óskar eftir að ráða framkvæmdastjóra til að leiða daglegan rekstur félagsins og yfirstandandi umfangsmiklar breytingar á skipulagi,“ segir í auglýsingunni um framkvæmdastjórastöðuna. Tekið er fram að hann sé ráðinn af stjórn og sé yfirmaður skrifstofunnar í umboði formanns og stjórnar.
Hæfniskröfur eru háskólapróf á sviði rekstrar, stjórnunar, fjármála og/eða mannauðsstjórnunar/breytingastjórnunar og reynsla og farsæll árangur af rekstri og stjórnun fyrirtækja, stofnana og/eða félagasamtaka. Þá er „færni og metnaður til að leiða umfangsmiklar breytingar á vinnustað“ einnig sett sem skilyrði.
Viðar Þorsteinsson var framkvæmdastjóri Eflingar þar til í haust er hann hætti á sama tíma og Sólveig Anna sagði af sér.
Hópuppsögnin hjá Eflingu hefur verið harðlega gagnrýnd m.a. af forystu Alþýðusambands Íslands. Þá hefur Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagt að búast hafi mátt við breytingum eftir sigur Sólveigar Önnu en að hann hafi ekki átt von á uppsögnum allra starfsmanna. Í dag, laugardag, fer fram aukafundur í stjórn VR þar sem hópuppsögnin verður rædd. Hópur þeirra starfsmanna sem sagt var upp eru félagsmenn í VR.