Fjöldi bílaleigubíla í umferð hefur aukist um rúmlega 30 prósent á síðustu tveimur mánuðum. Alls voru rúmlega 17 þúsund bílaleigubílar í umferð í upphafi mánaðar en þeim hefur fjölgað jafnt og þétt síðan í mars þegar fjöldi þeirra var rúmlega 12 þúsund. Í maí skreið fjöldi bíla í umferð yfir 13 þúsund og í upphafi júní voru þeir orðnir tæplega 15 þúsund. Samgöngustofa heldur utan um fjölda bílaleigubíla og eru tölurnar fengnar úr skammtímahagvísum ferðaþjónustu sem Hagstofa Íslands tekur saman.
Með auknum fjölda ferðamanna sem hingað koma til lands hafa bílaleigurnar fengið byr í seglin. Enn er þó langt í land með að fjöldi bílaleigubíla, bæði í umferð og alls, jafnist á við það sem var fyrir faraldur. Til samanburðar voru um 25 þúsund bílaleigubílar í umferð í júlí fyrir tveimur árum.
Eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á tóku bílaleigurnar mikinn fjölda bíla sinna úr umferð og var töluverður fjöldi þeirra seldur í kjölfarið. Frá upphafi faraldurs hafa bílaleigubílar sem ekki eru í umferð aldrei verið jafn fáir og nú en þeir eru um eitt þúsund og heildarstærð bílaleiguflotans því um 18 þúsund. Í upphafi árs var fjöldi bílaleigubíla sem ekki voru í umferð rúmlega fimm þúsund. Þegar mest lét var fjöldi þeirra vel á áttunda þúsund, í maí í fyrra.
Verð á bílaleigubílum margfaldast
Þrátt fyrir að bílaleigurnar hafi stækkað flota sína og fækkað bílum sem eru ekki í umferð er staðan sú að þær anna vart eftirspurn eftir bílum. Líkt og fjallað var um í frétt RÚV, þá er tvennt sem veldur. Annars vegar hefur aukning í komum erlendra ferðamanna verið meiri en gert hafði verið ráð fyrir og hins vegar hefur kórónuveirufaraldurinn frestað afhendingu á nýjum bílum.
Eftirspurnin eftir bílaleigubílum er slík að leiguverðið hefur margfaldast á nokkrum mánuðum. Verðkönnun Túrista leiddi það í ljós að leiga á smábíl hjá Hertz á tímabilinu 1. til 8. ágúst hafi hækkað um 324 prósent frá því í desember. Í desember var leiguverðið tæplega 94 þúsund en þegar verðið var kannað þann 11. júlí var það komið upp í tæplega 304 þúsund.
Í frétt Vísis um málið er haft eftir Sigfúsi Bjarna Sigfússyni, forstjóra Hertz, að fólk sé farið að bóka bílaleigubíla seinna en áður og jafnan oft ekki fyrr en eftir að búið er að bóka flug og gistingu. „Síðustu sætin í flugvélinni seljast hugsanlega á töluvert hærra verði og eins með síðasta hótelherbergið og bílaleigubílinn,“ sagði Sigfús í samtali við Vísi.
Líf færist yfir Keflavíkurflugvöll
Í byrjun sumars fór fjöldi erlendra ferðamanna ört vaxandi. Í maí fóru rúmlega 14 þúsund erlendir ferðamenn um Flugstöð Leifs Eiríkssonar en í júní voru þeir orðnir um þrefalt fleiri, tæplega 43 þúsund. Þrátt fyrir þessa miklu aukningu er fjöldinn enn langt undir eðlilegum fjölda ferðamanna sem fer um flugvellinn að sumri til, tæplega 195 þúsund ferðamenn komu til landsins í júní fyrir tveimur árum.
Snemma í þessum mánuði tilkynnti ISAVIA svo að fjöldi farþega um Keflavíkurflugvöll hefði verið 10.580 laugardaginn 3. júlí. Það var í fyrsta sinn í rúma 15 mánuði sem fjöldi farþega fór yfir 10 þúsund á einum og sama deginum.