Skrifstofa forseta Bandaríkjanna er að leggja lokahönd á áætlun sem miðar að því að Guantanamo-fangabúðunum á Kúbu verði lokað. Í búðunum eru grunaðir erlendir hryðjuverkamenn fangelsaðir. Frá þessu var greint í dag.
Fangabúðirnar í Guantanamo hafa valdið Barack Obama, bandaríkjaforseta, töluverðum vandræðum í forsetatíð hans og telja sérfræðingar að nú sé allt kapp lagt á að klára tillögur að frumvarpi og afgreiða það í þinginu áður en kjörtímabil hans er úti. Talsmaður Hvíta hússins segir ríkisstjórnina vona að málið flækist ekki fyrir repúblikönum í bandaríska þinginu sem áður hafa komið í veg fyrir lokun fangabúðanna.
Fangelsið var sett á laggirnar utan landamæra Bandaríkjanna eftir árásirnar á Tvíburaturnana í New York 11. september 2001 en í fyrri kosningabaráttu Obama lofaði hann að loka Guantanamo strax á fyrsta ári sínu sem forseti. Þar hafa fangar verið beittir mannréttindabrotum, en talið er að pyntingar séu notaðar til að knýja fram upplýsingar sem nota má gegn föngunum.
Þegar hafa fangar verið fluttir úr fangabúðunum til heimalanda sinna og er fjöldi fanga þar 116. Bandaríkin vilja hins vegar ekki flytja 69 jemenska fanga til heimalands síns vegna ótryggs ástands þar.
Bandaríska dagblaðið The New York Times hefur heimildir fyrir því að stjórnvöld í Washington hafi áhyggjur af því að varnarmálaráð Bandaríkjanna, Pentagon, sé að draga lappirnar þegar kemur að flutningi fanga úr Guantanamo.
Ash Carter, varnarmálaráðherra, var þannig settur þröngur tímarammi til að taka ákvörðun um flutning nokkurra fanga en hann gat raunar ekki ákveðið sérstaka dagsetningu. Repúblikanar á Bandaríkjaþingi hafa fært fyrir því rök að flutningur fanga úr haldi Bandaríkjanna kunni að leiða til frelsunar þeirra og að fangarnir muni þá berjast gegn bandarískum hagsmunum.
Repúblikaninn John McCain, formaður varnarmálanefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings, hefur ávalt hvatt Obama til að leggja til áætlun um lokun fangabúðanna. McCain var forsetaefni repúblikana gegn demókratanum Obama árið 2008. Hann var sjálfur stríðsfangi í Vietnamstríðinu og sætti pyntingum sem slíkur.
McCain hefur bent á að lokun fangabúðanna muni þýða að þeir fangar sem enn eru í búðunum verði leiddir fyrir dómara og úrskurður kveðinn upp í þeirra máli.