Grískir bankar berjast nú fyrir lífi sínu, samkvæmt frásögnum helstu alþjóðlegu viðskiptamiðlanna, en í dag hefur óvenju mikið fé verið tekið út úr bönkunum, sem er framhald af alvarlegu vantrausti í síðustu viku. Þá voru þrír milljarðar evra teknir úr bönkunum, jafnvirði tæplega 500 milljarða króna, sem eykur á lausafjárvanda þeirra á erfiðum tíma, að því er fram kemur í umfjöllun breska ríkisútvarpsins BBC.
Skuldavandi Grikkja er enn óleystur, það er að stjórnvöld í Grikklandi, undir forystu Syriza flokksins, hafa ekki náð samkomulagi við lánadrottna um að lengja í lánum og fresta umfangsmiklum hagræðingaraðgerðum. Eitt af kosningaloforðum Syriza var að endursemja við lánadrottna og hætta tafarlaust við niðurskurðaráform hjá hinu opinbera, þar á meðal uppsagnir þúsunda starfsmanna ríkisins.
Ekkert hefur þó gengið hjá flokknum að ná þessu í gegn, þar sem fjármögnunaráætlun sem grísk stjórnvöld gerðu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, Evrópusambandið og aðra kröfuhafa, byggði á því að rekstur ríkisins yrði endurskipulagður með sársaukafullri hagræðingu. Samtals var áætlunin upp á 240 milljarða evra, en skammtímaskuldbindingar, sem nú eru að valda mestum erfiðleikum, eru upp á 7,2 milljarða evra. Þar á meðal er gjalddagi á láni upp á 1,6 milljarða evra hinn 30. júní næstkomandi. Ef Grikkjum tekst ekki að endurfjármagna skuldir sínar fyrir þann tíma, og greiða lánið til baka í samræmi við samningar, þá býður fátt annað en gjaldþrot ríkissjóðs Grikklands, með tilheyrandi efnahagshremmingum í Evrópu.
Alexis Tsipras, forsætisráðherra, sem hefur setið fundi um stöðu mála með rússneskum stjórnvöldum að undanförnu, hefur þó sagt að allt verði gert til þess að ná samkomulagi um nýja ríkisfjármálaáætlun fyrir þann tíma sem er til stefnu.
Meeting with the Russian delegation. #SPIEF #Greece pic.twitter.com/MYVOfbO9GD
— Alexis Tsipras (@tsipras_eu) June 19, 2015