Svissneski bankinn Credit Suisse hefur átt í viðskiptum við einræðisherra, fjársvikara, eiturlyfjasmyglara og annað fólk sem hefur gerst sekt um alvarlega glæpi. Þetta kemur fram í ítarlegri úttekt The Guardian á umfangsmiklum leka á upplýsingum frá bankanum sem birtist í dag.
Samkvæmt úttektinni inniheldur lekinn upplýsingar um rúmlega 18 þúsund bankareikninga sem tengdir eru 30 þúsund viðskiptavinum bankans. The Guardian segir upplýsingarnar benda til þess að bankinn hafi ekki sinnt áreiðanleikakönnun viðskiptavina sinna með fullnægjandi hætti, þrátt fyrir yfirlýsingar hans um að slíta á viðskiptasambönd sem innihalda illa fengið fé.
Lekinn spannar bankareikninga marga áratugi aftur í tímann, en þeir elstu voru stofnaðir á fimmta áratug síðustu aldar. Meirihluti þeirra var hins vegar stofnaður eftir síðustu aldamót og eru sumir þeirra enn opnir. Gögnunum var fyrst lekið til þýska blaðsins Süddeutsche Zeitung, en nú hafa 48 fjölmiðlar um allan heim fengið aðgang að þeim. Þeirra á meðal eru Le Monde, New York Times og The Guardian.
Bankinn átti í viðskiptum við fjölda dæmdra glæpamanna, meðal annars Stefan Sederholm, sem var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir mansal í Filippseyjum. Credit Suisse hélt bankareikningi Sederholm opnum í rúm tvö ár eftir að hann var dæmdur árið 2011.
Einnig var þar að finna tengingar við fjölda einræðisherra og fjölskyldumeðlimi þeirra. Til að mynda stofnuðu synir nígeríska einræðisherrans Sani Abacha 214 milljóna Bandaríkjadala reikning í bankanum. Abacha er talinn hafa stolið allt að fimm milljörðum Bandaríkjadala frá þjóðinni sinni.
Sömuleiðis var þar að finna reikning sem var stofnaður af Pavlo Lazarenko, forsætisráðherra Úkraínu árin 1997 og 1998. Samvæmt mati Transparency International tók Lazarenko 200 milljónir Bandaríkjadala úr ríkissjóði Úkraínu.
Í yfirlýsingu sem Credit Suisse gaf út í kjölfar birtingar skjalanna þvertók bankinn fyrir ásakanir um vafasama viðskiptahætti, en samkvæmt honum eru upplýsingarnar sem fengnar eru úr lekanum teknar úr samhengi. Bankinn sagði enn frekar að ásakanirnar séu að mestu leyti vegna gamalla mála og í sumum tilvikum frá tíma þar sem „lög, viðskiptahættir og væntingar til fjármálastofnana voru öðruvísi en þær eru núna.“