Réttur til þungunarrofs hefur verið tryggður í Kansas í Bandaríkjunum eftir að lagabreytingartillögu var hafnað í kosningum í ríkinu. Tillagan sem um ræðir fjallaði um afnám þessa réttar í stjórnarskrá ríkisins og hefði því getað haft í för með sér verulega skerðingu á aðgengi kvenna að þungunarrofi eða hreinlega leitt til banns á þungunarrofi. Þegar 95 prósent atkvæða höfðu verið talin voru 59 prósent greiddra atkvæða gegn tillögunni en 41 prósent með.
Kosningarnar í Kansas eru þær fyrstu sem fjalla um rétt til þungunarrofs eftir að hæstiréttur landsins sneri dómnum í máli Roe gegn Wade fyrr á þessu ári. Málið var fordæmisgefandi og hafði tryggt konum rétt til þungunarrofs í Bandaríkjunum öllum frá árinu 1973.
Stjórnvöld í fjölda ríkja Bandaríkjanna hafa lýst yfir vilja til þess að banna þungunarrof og víða hefur verið saumað að rétti kvenna í þessum efnum á undanförnum árum. Í nokkrum ríkjum er þungunarrof til að mynda ólöglegt að sex vikna meðgöngutíma liðnum. Um þessar mundir er þungarrof bannað í tíu ríkjum Bandaríkjanna en líklegt er talið að þessi tala muni hækka fljótlega.
Repúblikanar í hópi mótfallinna í ríkinu
Fram kemur í umfjöllun New York Times að þessi miklu munur á stuðningi og andstöðu við lagabreytinguna, 59 prósent gegn 41 prósenti, hafi komið á óvart. Milljónum dala hafi verið eytt í kosningabaráttu samtaka á báðum hliðum. Þar að auki eru íbúar ríkisins með þeim íhaldssömustu í Bandaríkjunum. Allir öldungadeildarþingmenn ríkisins hafa til dæmis komið úr röðum Repúblikana frá því á fjórða áratug síðustu aldar og þá hafa kjósendur í Kansas stutt vel við bak forsetaefnis Repúblikana í öllum forsetakosningum frá því Lyndon B. Johnson stóð uppi sem sigurvegari forsetakosninganna árið 1964.
Skráðir flokksfélagar Repúblikanaflokksins eru mun fleiri en skráðir flokksfélagar Demókrata í ríkinu. Aðgerðasinnar fylgjandi rétti til fóstureyðinga reyndu því að biðla til fólks sem ekki er skráð í flokka sem og til Repúblikana sem hallast í átt að miðjuás stjórnmálanna. Ljóst er að einhver fjöldi þeirra kjósenda sem mótfallnir voru lagabreytingunum koma úr hópi kjósenda Repúblikanaflokksins, niðurstöðurnar voru það afgerandi.
Hæstiréttur ríkisins fellt takmarkanir úr gildi
Kansas er eitt þeirra ríkja sem þrengt hefur að rétti kvenna til þungunarrofs á síðustu árum með lagasetningum. Árið 2019 féll aftur á móti dómur í hæstarétti ríkisins sem hafði það í för með sér að margar þeirra takmarkanna sem festar höfðu verið í lög voru afnumdar – rétturinn mat það sem svo að aðgengi að þungunarrofi væri stjórnarskrárvarinn réttur. Sú niðurstaða reiddi Repúblikana til reiði, eins og það er orðað í umfjöllun New York Times um málið, en þeir höfðu unnið að takmörkununum árum saman. Repúblikanar notuðu því mikinn meirihluta sinn á löggjafarþingi ríkisins til þess að koma málinu, þ.e. tillögu um stjórnarskrárbreytingu sem takmarka myndi aðgengi að þungunarrofi, í atkvæðagreiðslu innan ríkisins.
Fyrir atkvæðagreiðsluna lá ekki ljóst fyrir hversu langt stjórnvöld í Kansas myndu ganga í að takmarka aðgengi að þungunarrofi, yrði lagabreytingin samþykkt. Stuðningsmenn frumvarpsins sögðu að það myndi ekki sjálfkrafa banna þungunarrof með öllu. „Samþykkt frumvarp þýðir ekki að þungunarrof verði bannað, það þýðir að við ætlum að leyfa löggjafanum að ákveða umfang þungunarrofs,“ er haft eftir Mary Jane Muchow, eins stuðningsmanna frumvarpsins í umfjöllun New York Times. „Ég held að þungunarrof ætti að vera löglegt, en ég held að það ætti að vera einhverjum takmörkunum háð,“ sagði hún.
Margir andstæðingar frumvarpsins óttuðust aftur á móti að samþykkt frumvarp myndi leiða af sér algjört bann við þungunarrofi.
Konur af stóru svæði sækja til Kansas til að rjúfa þungun
Fram kemur í umfjöllun New York Times að Kansas hafi verið í brennidepli í umræðu um þungunarrof í Bandaríkjunum frá því snemma á 10. áratugnum þegar mikil mótmæli áttu sér stað í Wichita, fjölmennustu borg ríkisins. Þá komu mótmælendur víða að frá Bandaríkjunum til þess að mótmæla þungunarrofi. Mótmælendur stóðu meðal annars vörð um læknastofur sem framkvæmdu þungunarrof og meinuðu þannig fólki aðgang að þeim.
Á síðustu árum hefur Kansas aftur á móti orðið að eins konar athvarfi kvenna úr nærliggjandi ríkjum sem óska þess að rjúfa þungun. Meira að segja áður en hæstiréttur sneri niðurstöðu í máli Roe gegn Wade var helmingur þeirra kvenna sem fóru í þungunarrof í Kansas búsettur í öðru ríki.
Í Oklahoma og Missouri, ríkjum sem liggja að Kansas, er þungunarrof ólöglegt, gerð er undantekning í Oklahoma ef þungun er tilkomin vegna nauðgunar eða sifjaspells. Talið er líklegt að þungunarrof í Nebreska, öðru nágrannaríki Kansas, verði fest í lög síðar á árinu og nú þegar hafa konur frá Arkansas og Texas lagt leið sína til Kansas til þess að geta rofið þungun sína með löglegum hætti.
Í dag er þungunarrof löglegt í Kansas fram að 22. viku.