Ben Bernanke, fyrrverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna, er genginn til liðs vogunarsjóðinn Citadel Investment Group, sem aðalráðgjafi. Frá þessu greinir New York Times.
Bernanke er einn virtasti hagfræðingur heimsins, en hann var seðlabankastjóri Bandaríkjanna í gegnum mikinn ólgusjó fjármálakreppunnar, frá 2006 til 2014. Þá tók Janet Yellen við af honum, en hún er fyrsta konan sem gegnir embætti seðlabankastjóra í Bandaríkjunum.
Bernanke, sem er með doktorspróf í hagfræði og stærðfræði frá MIT, mun veita sjóðsstjórum Citadel ráðgjöf, einkum á sviði þjóðhagfræði.
Í viðtali við New York Times, segir Bernanke að hann sé viðkvæmur fyrir því hvernig almenningur muni horfi á sambandið milli Wall Street og Seðlabanka Bandaríkjanna. Því hafi hann ákveðið að ganga til liðs við Citadel, þar sem sjóðurinn starfi ekki undir regluverki seðlabankans.