Verð á bensínlítra á afgreiðslustöðvum olíufélaganna er í dag svipað og það var fyrir um sjö árum síðan.* Á föstu verðlagi er lítraverðið í dag ekki fjarri algengu verði á tímabilunum 2004 til 2007 og 200o til 2001. Það er þó enn töluvert hærra en það var fyrir aldamótin 2000. Grafið hér að neðan sýnir þróunina frá 1997 til 2015 þar sem meðalverð hvers árs hefur verið umreiknað yfir í krónur á verðlagi ársins 2014.
Bensínverð hefur lækkað hratt frá miðju síðasta ári. Algengt er að lítraverð við dæluna sé nú um 50 krónum lægra en það var um mitt síðasta ár. Áhugavert er að skoða þróuina í samanburði við aðra algenga vöru á heimilinu eins og mjólk. Sú var tíðin að lítri af bensíni og mjólk kostaði nánast það sama. Árið 1999 kostaði mjólkurlítrinn um 73 krónur samkvæmt verðlagsmælingu Hagstofunnar og verð á lítra af 95 oktana bensíni með fullri þjónustu kostaði 78 krónur. Verðið var nokkuð svipað fram til ársins 2000.
Á grafinu hér að ofan eru verðbreytingar á mjólk og bensíni sýndar eins og þær birtust út í verslun á hverju ári, þ.e. ekki hefur verið tekið til verðbólgu í landinu. Verðmunurinn á bensíni og mjólk var um 50 krónur árið 2006, árið 2012 var hann orðinn um 135 krónur og er í dag um 70 krónur.
Töluvert önnur mynd fæst þegar verðbreytingar á mjólk og bensíni eru færðar á fast verðlag ársins 2014. Þá sést að þrátt fyrir að lítri af mjólk sé út í verslun um 50 krónum dýrari í dag en hann var árið 2004, þá hefur hann í raun lækkað í verði, séu verð hvers árs umreiknaðir á virði krónunnar árið 2014 (fast verðlag).
Verðmunurinn á þessum tveimur vörum var þannig meiri árið 2006 en hann er í dag, eða tæpar 80 krónur árið 2006 samanborið við um 70 krónur í dag. Á föstu verðlagi var munurinn árið 2012 heilar 145 krónur. Verðlækkanir undanfarið hafa þar með dregið verulega úr bilinu á milli mjólkur og bensíns, þótt enn sé nokkuð langt í það verði eins og skömmu fyrir aldamótin 2000.
Tengt efni:
- Hversu miklu skila olíulækkanir sér í minni útgjöldum heimilisins? Við reiknuðum það út hér.
-Frétt NY Times um verðbreytingar á bensíni í Bandaríkjunum á föstu verðlagi.
*Með því að færa verð hvers árs á fast verðlag ársins 2014 er búið að leiðrétta verð bensínlítrans fyrir breytingum á verðmæti hverrar krónu. Vegna breytinga á virði gjaldmiðla, sem í sögulegu tilliti krónunnar hefur ávallt verið rýrnun, þá þarf sífellt fleiri krónur til að kaupa sama magn af vörum og áður. þetta mælir verðbólgan, sem er breyting á vísitölu neysluverðs síðustu tólf mánuði. Við útreiknina í þessari grein var notast við meðaltal vísitölu neysluverðs á hverju ári.
Kjarninn og Stofnun um fjármálalæsi hafa tekið höndum saman og munu fjalla ítarlega um heimilisfjármál samhliða þáttunum Ferð til fjár, sem sýndir verða á RÚV næstu vikur. Markmiðið: Að stuðla að betra fjármálalæsi hjá landsmönnum! Næsti þáttur er á dagskrá fimmtudaginn 29. janúar. Fylgstu með á Facebook-síðu Ferð til fjár.