Rúmlega helmingur þeirrar fjárhæðar sem greidd hefur verið út í formi nýrrar ferðagjafar stjórnvalda hefur runnið til tíu fyrirtækja. Frá upphafi mánaðar, þegar nýja ferðagjöfin tók gildi, hafa um 50 milljónir króna verið greiddar út og þar af hafa 25,6 milljónir farið til tíu fyrirtækja.
Ferðagjöfin er hluti af aðgerðapakka stjórnvalda sem ætlað er að byggja undir íslenska ferðaþjónustu. Líkt og í fyrra fá allir einstaklingar 18 ára og eldri fimm þúsund krónur í stafrænu formi sem hægt er að nýta í sumar til að kaupa vörur og þjónustu hjá fyrirtækjum sem eru gjaldgeng. Gildistími ferðagjafarinnar í sumar er til og með 31. ágúst.
Í efstu sætunum yfir þau fyrirtæki sem tekið hafa við flestum ferðagjöfum eru fyrirtæki sem kunnugleg eru frá topplista síðustu ferðagjafar. Samkvæmt tölum í mælaborði ferðaþjónustunnar sem uppfærðar voru þann 15. júní situr N1 í fyrsta sæti yfir þau fyrirtæki sem tekið hafa við mestu, alls tæplega 5,7 milljónum króna. Í öðru sæti situr Sky Lagoon í Kópavogi, fyrirtæki sem ekki náði hátt á lista í síðustu ferðagjöf enda nýtt af nálinni. Þangað hafa runnið rúmlega 4,1 milljón króna. Í næstu sætum sitja fyrirtæki sem öll voru ofarlega á blaði í síðustu ferðagjöf, Olís, KFC og Domino’s.
Helmingur til höfuðborgarsvæðisins
Þegar nýting ferðagjafarinnar er skoðuð eftir flokkum sést að stór hluti ferðagjafahafa hefur ákveðið að nýta gjöfina í mat og drykk, alls hafa rúmlega 20 milljónir runnið til veitingastaða. Næst á eftir koma samgöngur með 11,6 milljónir og svo afþreying með 7,7 milljónir.
Hátt í helmingur ferðagjafar sem nú þegar hefur verið nýttur kom í hlut fyrirtækja sem staðsett eru á höfuðborgarsvæðinu, rúmar 22,7 milljónir króna. Fyrirtæki sem falla í flokk svokallaðra landsdekkandi fyrirtækja hafa fengið tæpar 15,8 milljónir. Landsvæðin sem næst koma eru Suðurland með 3,7 milljónir og Norðurland eystra með 3,4 milljónir.
Frá upphafi mánaðar hafa tæplega ellefu þúsund nýtt sér nýju ferðagjöfina og þar af hafa hátt í átta þúsund fullnýtt hana.
Milljarður í ferðagjafir í fyrra
Samkvæmt mælaborði ferðaþjónustunnar var rétt rúmlega milljarður greiddur út í formi ferðagjafar í síðustu atrennu. Ferðagjöf 2020 átti að gilda frá júní í fyrra og út árið 2020 en var framlengd til loka maí á þessu ári. Af þeim 280 þúsundum sem gátu nýtt sér síðustu ferðagjöf sóttu 240 þúsund gjöfina en heildarfjöldi notaðra gjafa nam 207 þúsundum.
Í tilkynningu sem birt var á vef stjórnarráðsins vegna nýrrar ferðagjafar kemur fram að 812 fyrirtæki muni taka við nýju ferðagjöfinni. Þar segir að landsmenn hafi ekki látið sitt eftir liggja á síðasta ári og þeir hvattir til að endurtaka leikinn. „Með endurnýjun Ferðagjafar 2021 eru einstaklingar hvattir til að ferðast innanlands í sumar, rétt eins og síðastliðið sumar, eftir því sem aðstæður leyfa.“