Blaðamannafélag Íslands hefur sent umboðsmanni Alþingis ábendingu vegna máls fjögurra blaðamanna sem fengið hafa réttarstöðu sakbornings í rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi eystra.
Blaðamennirnir fjórir, Aðalsteinn Kjartansson á Stundinni, Arnar Þór Ingólfsson á Kjarnanum, Þóra Arnórsdóttir á RÚV og Þórður Snær Júlíusson á Kjarnanum, hafa allir gefið skýrslu hjá lögreglu vegna rannsóknarinnar sem embættið hefur sagt að lúti að brotum gegn friðhelgi einkalífs en snýr að mati Blaðamannafélagsins, miðað við þær spurningar sem lögreglan lagði fyrir blaðamennina í yfirheyrslum og þau gögn sem félagið hefur undir höndum, að fréttaskrifum þeirra um „skæruliðadeild“ Samherja vorið 2021.
„Það er mikilvægt að fá álit Umboðsmanns Alþingis á því hvort ákvörðun lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, að kalla blaðamenn til yfirheyrslu fyrir það eitt að vinna vinnuna sína, hafi verið í samræmi við hlutverk lögreglu og þá vernd sem fjölmiðlar njóta samkvæmt stjórnarskrá og mannréttindasáttmálum,“ er haft eftir Sigríði Dögg Auðunsdóttur, formanni Blaðamannafélagsins, í tilkynningu á vef félagsins.
„Blaðamannafélagið hefur ítrekað bent á að um störf fjölmiðla gilda önnur lög og reglur en önnur störf, vegna hlutverks fjölmiðla og mikilvægis þeirra fyrir lýðræðislega umræðu. Hlutverk umboðsmanns er að tryggja rétt einstaklinga gagnvart stjórnvöldum og því mikilvægt að fá úr því skorið hvort brotið hafi verið á rétti blaðamannanna fjögurra í þessu tilviki. Blaðamannafélagið minnir á mikilvægi fjölmiðla í því að tryggja almenningi rétt til upplýsinga og að frjáls fréttaflutningur og vernd heimildarmanna séu grundvallarforsendur fyrir því að fjölmiðlar geti gegnt hlutverki sínu í lýðræðisþjóðfélagi.“
Vernd blaðamanna
Ábending Blaðamannafélagsins er reist á því sjónarmiði að ekki verði séð af þeim upplýsingum sem fram hafa komið opinberlega og þeim gögnum sem félagið hefur undir höndum að ákvörðun lögreglustjórans á Norðurlandi eystra að beina lögreglurannsókn að blaðamönnunum sem sakborningum vegna fyrrnefndra fréttaskrifa fái „með nokkru móti“ samrýmst þeirri vernd sem blaðamenn njóta í störfum sínum á grundvelli 73. gr. stjórnarskrárinnar, 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og samkvæmt 4. mgr. 228. gr. og 2. mgr. 229. gr. almennra hegningarlaga. Nánar tiltekið er ábendingin sögð reist á því sjónarmiði að lagaskilyrði hafi brostið til rannsóknarinnar gegn blaðamönnunum og að tilefni hennar sé ekki þess eðlis að það geti réttlætt inngrip lögreglu í tjáningarfrelsi þeirra.
Spurningar lögreglu lutu að fréttaflutningi
„Í því máli sem er tilefni þessarar ábendingar liggur fyrir að lögregluyfirvöld hafa veitt fjórum blaðamönnum, sem starfa á þremur ólíkum fjölmiðlum, réttarstöðu sakbornings við rannsókn sakamáls og tekið skýrslu af þeim sem slíkum,“ segir í ábendingunni sem lögmaður Magna lögmanna sendir fyrir hönd félagsins. „Það sakarefni sem blaðamönnunum var þar kynnt og þær spurningar sem beint var til þeirra lutu að fyrrgreindum fréttaflutningi af þeirra hálfu um áform og ráðstafanir Samherja hf. til að hafa áhrif á opinbera umfjöllun og umræðu um fyrirtækið í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar á árinu 2019 um viðskipti þess í Namibíu.“
Þannig liggur fyrir, að mati Blaðamannafélagsins, að tilefni rannsóknarinnar sé umræddur fréttaflutningur og að markmið hennar sé að því að afla upplýsinga um heimildarmenn blaðamannanna með það fyrir augum að upplýsa um ætluð refsiverð brot gegn ákvæðum 228. og/eða 229. grein almennra hegningarlaga er snúa að friðhelgi einkalífs.
Átti brýnt erindi við almenning
Að mati Blaðamannafélags Íslands getur „enginn vafi leikið á því“ að fréttaflutningur af skæruliðadeild Samherja hafi átt brýnt erindi við almenning. „Ekki aðeins var um að ræða umfjöllun um viðbrögð stórfyrirtækis við fyrri fjölmiðlaumfjöllun um málefni þess sem ótvírætt áttu erindi við almenning heldur var beinlínis um að ræða umfjöllun fjölmiðla um áform og ráðstafanir fyrirtækisins til að hafa áhrif á umfjöllun fjölmiðla um sjálft sig og þar með afstöðu almennings til sín, þ.á.m. með því að grafa undan fjölmiðlum og einstökum fjölmiðlamönnum sem staðið höfðu að þeirri umfjöllun.“
Réttlætanlegar aðferðir
Þá telur félagið heldur engan vafa á því að fréttaflutningur blaðamannanna hafi skýrlega fallið undir þá starfsemi fjölmiðla sem löggjafinn hafði sérstaklega í huga við setningu 4. mgr. 228. gr. og 2. mgr 229. gr. almennra hegningarlaga og að „hagsmunir almennings af því að kynna sér efni hans falla undir þá almannahagsmuni sem löggjafinn leitaðist við að standa vörð um með setningu þessara ákvæða“.
Málsgreinarnar kveða á um að ákvæði lagagreinanna tveggja eigi ekki við þegar háttsemi sem þar er um fjallað, þ.e. að brjóta gegn friðhelgi einkalífs með því m.a. að afla, afrita, sýna, skýra frá, birta eða dreifa í heimildarleysi gögnum, sé réttlætanleg með vísan til almanna- og einkahagsmuna.
Félagið telur að ljóst megi vera, miðað við þau gögn málsins sem það hafi undir höndum, að lögreglurannsóknin muni ekki leiða til ákæru á hendur blaðamönnunum fjórum, hvað þá sakfellingar.
Blaðamenn ekki undanþegnir rannsókn sakamála
Það er þó ekki unnt að mati félagsins að leggja til grundvallar að kvaðning blaðamanna í skýrslutöku hjá lögreglu sem sakborninga í sakamáli sé léttvæg ráðstöfun sem engin ástæða sé til að staldra við. „Blaðamenn eru vitanlega ekki fremur en einstaklingar í öðrum starfsstéttum undanþegnir rannsókn sakamála,“ segir í ábendingunni.
„Það sem hér er til umfjöllunar, og Blaðamannafélag Íslands telur ríka ástæðu til að staðnæmst sé við, er hins vegar þegar lögregluyfirvöld telja tilefni til að bregðast við fréttaflutningi, sem bersýnilega á brýnt erindi við almenning og útilokað er að falið geti í sér refsiverða háttsemi af hálfu fjölmiðla, með því að hefja sakamálarannsókn á hendur hlutaðeigandi blaðamönnum. Slík viðbrögð lögreglu við eðlilegri umfjöllun fjölmiðla um málefni sem ljóslega eiga erindi við almenning eru að mati félagsins hvorki í samræmi við hlutverk fjölmiðla né lögreglu í lýðræðisríki og ekki samrýmanleg þeirri vernd sem fjölmiðlar njóta samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.“
Þá segir: „Þvert á móti vekja slík viðbrögð lögreglu gagnvart fjölmiðlum í tilefni af fréttaflutningi af samfélagslega mikilvægum málefnum að mati Blaðamannafélags Íslands upp áleitnar spurningar um hlutverk og samspil lögreglu og fjölmiðla í lýðræðisríki og veita um leið brýnt tilefni til nánari athugunar af hálfu umboðsmanns Alþingis.“
Í því sambandi leggur Blaðamannafélag Íslands ríka áherslu á að ekki er nægilegt, til að tjáningarfrelsi fjölmiðla sé tryggt, að blaðamenn sem sæta sakamálarannsókn fyrir fréttaskrif sín séu að lokum sýknaðir eða mál þeirra felld niður án ákæru.
Sakamálarannsókn án tilefnis
„Án tillits til afdrifa slíkra mála hefur tjáningarfrelsi fjölmiðla þegar verið skert með tilheyrandi afleiðingum ef blaðamenn þurfa að þola sakamálarannsókn fyrir fréttaflutning án tilefnis sem uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu. Ítrekað skal í því sambandi að með slíkri rannsókn eru blaðamenn ekki aðeins fældir frá frekari umfjöllun heldur jafnframt grafið undan þeirri umfjöllun sem þegar hefur birst,“ segir ennfremur í ábendingunni.
Telur félagið að með aðgerðum lögreglu sé ekki aðeins um brot að ræða gegn mannréttindum hlutaðeigandi blaðamanna „heldur jafnframt mjög alvarlega aðför stjórnvalda að fjölmiðlafrelsi í landinu“.
Blaðamannafélagið telur að stjórnsýsla lögreglustjórans á Norðurlandi eystra við rannsókn ofangreinds sakamáls falli undir það eftirlit sem umboðsmanni Alþingis er falið að hafa samkvæmt lögum.
„Það er með allt ofangreint í huga sem Blaðamannafélag íslands snýr sér til umboðsmanns Alþingis með beiðni um að umboðsmaður taki til þess afstöðu á grundvelli fyrirliggjandi ábendingar hvort tilefni sé til þess að hann taki stjórnsýslu lögreglustjórans á Norðurlandi eystra í hlutaðeigandi máli til nánari athugunar að eigin frumkvæði.“
Hægt er að lesa erindið í heild sinni hér.
Tveir starfsmenn Kjarnans eru á meðal þeirra blaðamanna sem hafa stöðu sakbornings í rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi eystra á brotum gegn friðhelgi einkalífs.