Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur hvatt aðildarríki ESB til að draga úr notkun jarðgass um sem nemur 15 prósentum fram til næsta vors. Aðildarríkjum er í sjálfsvald sett hvort þau fylgi þessum tilmælum enn sem komið er skerðingin gæti orðið lögfest ef Rússar stöðva flutning á jarðgasi í gegnum gasleiðsluna Nord Stream 1. Ekkert gas hefur verið flutt um gasleiðsluna í 10 daga vegna viðhalds en til stendur að viðhaldi verði lokið á fimmtudag. Óttast er að Rússar muni neita að skrúfa frá gasinu að loknu viðhaldi. Frá þessu er greint á vef BBC.
Haft er eftir Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, í umfjölluninni að líklegt sé að Rússar stöðvi gasútflutning til Evrópu, að stjórnvöld í Kreml séu farin að beita orkuútflutningi sem vopni og kúgi þannig þjóðir Evrópu. „Þar af leiðandi, hvað sem af verður, hvort flutningur gass frá Rússlandi verður takmarkaður að litlu eða öllu leyti, þá þarf Evrópa að vera tilbúin,“ sagði von der Leyen um stöðuna.
Frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu í febrúar á þessu ári hafa Rússar takmarkað afhendingu á gasi til fjölda landa sem neitað hafa að greiða fyrir gasið með rúblum, þar á meðal til Póllands, Hollands, Búlgaríu, Danmerkur og Finnlands. Þá eru Rússar einnig sakaðir um að skerða afhendingu gass til þess að gera Evrópuþjóðum erfiðara fyrir að koma sér upp gasforða fyrir veturinn.
Veturinn gæti orðið kaldur á evrópskum heimilum
Líkt og áður segir gæti farið svo að 15 prósenta skerðing á orku geti orðið lögfest meðal sambandsríkja ESB. Í umfjöllun New York Times segir að ef af því verður muni framkvæmdastjórn ESB geta skikkað aðildarríki til þess að fylgja fastmótaðri áætlun um orkunotkun.
Þar segir enn fremur að íbúar álfunnar séu á báðum áttum í afstöðu sinni til þess hvort það sé þess virði að draga úr orkunotkun til stuðnings Úkraínu. Sumir séu tilbúnir til að taka á sig meiri fórnir til þess að spyrna við Rússum á meðan aðrir segja að stríðið sé farið að hafa of mikil áhrif á daglegt líf.
Í nýlegri könnun sem framkvæmd var í Þýskalandi sögðu 22 prósent aðspurðra vera fylgjandi því að stjórnvöld drægu úr stuðningi við Úkraínu til þess að koma í veg fyrir hækkandi orkuverð. Aftur á móti voru 70 prósent fylgjandi því að þýsk stjórnvöld héldu áfram að styðja dyggilega við bakið á Úkraínu þrátt fyrir örðugleika í efnahagslífinu.