Bildekk menga tvö þúsund sinnum meira en sem nemur loftmengun frá útblæstri meðal bíls. Þetta er meðal þess sem fram kemur í rannsókn Emission Analytics, óháðs rannsóknarfyrirtækis sem er leiðandi í rannsóknum á útblæstri.
Rykagnir sem losna af bíldekkjum við akstur innihalda lífræn mengandi efni auk krabbameinsvaldandi efna. Sérfræðingar telja að mengun af þessum völdum verði von bráðar að áskorun fyrir löggjafa, að því er segir í umfjöllun The Guardian um rannsóknina.
Loftmengun veldur milljónum ótímabærra dauðsfalla á heimsvísu. Í takt við aukna umhverfisvitund hefur þrýstingur á bílaframleiðendur aukist, meðal annars með þeim afleiðingum að útblástur frá nýjum bílum í þróuðum ríkjum er nú mun minni í nýjum bílum. Í Evrópu mælist útblástur nýrra bíla til að mynda vel undir löglegum mörkum.
En nýjar áskoranir blasa við. Þyngd bíla.
Aukin þyngd nýrra bíla, ekki síst rafbíla, leiðir til þess að rykagnir af bíldekkjum menga meira en áður.
Dekk að taka við af púströrum sem helsti mengunarvaldur
„Dekk eru óðum að taka við af púströrum sem helsta mengunarvaldur bíla,“ segir Nick Molden, stofnandi og framkvæmdastjóri Emission Analytics, sem framkvæmdi rannsóknina. „Púströr eru svo hrein, ef við værum að byrja frá grunni í dag tæki ekki að regluvæða þau,“ segir Molden.
Smæð rykagnanna gerir það að verkum að mengun af völdum þeirra sé jafnvel skaðlegri en mengun af völdum útblásturs. Í rannsókninni kemur fram að rykagnirnar megi finna í 250 mismunandi tegundum dekkja, sem eru öllu jafna framleidd úr gúmmíi sem unnið er úr hráolíu.
Agnirnar eru sem fyrr segir agnarsmáar, en fram kemur í rannsókninni að við hvern keyrðan kílómetra verður til yfir eitt tonn af rykögnum, sem þýðir að agnirnar eru innan við 23 nanómetrar og geta, smæðarinnar vegna, komist inn í blóðrás fólks og þaðan í líffæri.
Rykagnir smærri en 23 nanómetrar er erfitt að mæla og engar reglur hafa verið innleiddar um losun svo smárra rykagna og efnin sem þau innihalda í Evrópu eða Bandaríkjunum.
Í rannsókninni kemur fram að fyrir hvern keyrðan kílómeter losna að meðaltali 0,02 millígrömm út í andrúmsloftið í formi útblásturs. Ef tekið er tillit til dekkja bílsins losna 73 millígrömm af rykögnum í andrúmslofrið á hverjum kílómetra. Ef dekkin eru notuð er magnið talsvert lægra, eða 36,5 millígrömm á hvern kílómetra. Það er samt sem áður 1.850 sinnum meira en meðal losun við útblástur.
Snýst ekki um að hætta að keyra
Fyrsta skrefið til að draga úr menguninni, að mati Molden, er að hætta notkun á dekkjunum sem menga mest. „Þetta snýst ekki um að fólk hætti að keyra eða að finna upp nýja tegund af dekkjum. Ef við getum útilokað verri helminginn er hægt að breyta miklu. En eins og staðan er núna er ekkert regluverk, það er ekkert eftirlit,“ segir hann.
Þyngd bílanna skiptir einnig máli en alþjóðlega þróunin síðustu ár hefur verið sú að þyngri bílum er að fjölga. Þannig voru nýskráðir bílar á Íslandi í fyrra að meðaltali 50 prósentum þyngri en bílarnir voru árið 1990.
Umræða hefur átt sér stað nýverið hvort rafbílar, sem eru þyngri en hefðbundnir bílar, geti leitt til að aukinnar mengunar af völdum rykagna í dekkjum. Molden segir að það fari eftir aksturslagi, þannig geti rafbíll sem ekið er gætilega framleitt færri rykagnir en bílar sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti sem ekið er með offorsi.
Doktor James Tate, rannsakndi í samgöngufræðum við Háskólann í Leeds, segir aða taka beri niðurstöðum rannsóknarinnar alvarlega en hann bendir á að rafbílar komi til með að verða léttari á næstunni. „Í kringum 2024-2025 má búast við því að rafbílar og bílar sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti verði jafn þungir. Aðeins lúxusrafbílar af stærri gerðinni með langdrægari rafhlöðu verða þyngri,“ segir Tate.