Landsframleiðsla Þýskalands gæti vaxið um hálft prósentustig vegna þeirra tekna sem þýska líftæknifyrirtækið BioNTech fær vegna þróunar á bóluefni sínu gegn COVID-19 í samstarfi við lyfjarisann Pfizer. Fari svo gæti fyrirtækið, sem hefur færri en tvö þúsund starfsmenn, staðið að baki töluverðum hluta hagvaxtar landsins í ár. Frá þessu greinir fréttaveitan Bloomberg.
Sebastian Dullien, hagfræðiprófessor við tækni- og viðskiptaháskólann í Berlín, var fyrstur til að greina frá þessu í Twitter-þræði, sem sjá má hér að neðan. Samkvæmt Dullien er BioNTech eitt af örfáum fyrirtækjum sem hafa teljandi áhrif á hagvöxt stórra landa, sökum þess hversu hratt það hefur vaxið á einu ári og hversu stór hluti tekna þess koma frá Þýskalandi.
Big news: According to the details in today’s quarterly report, #Biontech alone is now set to boost German GDP this year by 0.5 % and hence German GDP *growth* 2021 by 0.5 percentage points. This is quite extraordinary for a start-up. 1/
— Sebastian Dullien (@SDullien) August 9, 2021Auglýsing
Í nýjasta árshlutauppgjöri BioNTech gerir fyrirtækið ráð fyrir að fá 15,9 milljarða evra í tekjur í ár, en það jafngildir um 80 prósent af landsframleiðslu Íslands. Þar sem sala fyrirtækisins var nánast engin í fyrra segir Dullien að nánast öll þessi upphæð skili sér í hagvöxt Þýskalands. Langstærsti hluti teknanna kemur til vegna sölu á bólefninu.
Verg landsframleiðsla Þýskalands í fyrra nam 3.332,23 milljörðum evra. Því gæti líftæknifyrirtækið aukið hagvöxt þar í landi um allt að hálft prósentustig í ár.
Samkvæmt hagspá Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, er búist við að hagvöxtur í Þýskalandi nemi 3,6 prósentum í ár og að verðbólgan verði 2,8 prósent. Gangi þessar spár upp mætti því búast við að BioNTech verði að baki einum fjórtánda af hagvexti Þýskalands í ár.
Alls unnu um 1.600 manns hjá BioNTech í lok árs í fyrra. Samkvæmt frétt Bloomberg er bóluefnið á góðri leið með að verða eitt mest selda lyf allra tíma. Fyrirtækið hefur, ásamt Pfizer, skuldbundið sig til að afhenda um 2,2 milljarða skammta af lyfinu á þessu ári og einn milljarð á næstu árum.