Birgir Jónsson hefur verið ráðinn nýr forstjóri flugfélagsins Play, sem á enn eftir að fara í sína fyrstu flugferð. Bæði Túristi og Fréttablaðið greina frá þessu í dag, en ráðning Birgis hefur verið til umræðu í tengslum við aðkomu nýrra fjárfesta að flugfélaginu.
Fréttablaðið segir frá því að yfir fimm milljarðar króna hafi safnast frá innlendum fjárfestum í lokuðu hlutabréfaútboði flugfélagsins sem lauk fyrir helgi og að stefnt sé að því að safna frekar fjármagni með skráningu á First North-markað Kauphallarinnar í sumar.
Túristi segir ráðningu Birgis hafa verið kynnta á starfsmannafundi hjá Play í morgun, en félagið hefur verið í startholunum með flugstarfsemi sína í næstum eitt og hálft ár, en félagið kynnti sig til leiks á blaðamannafundi í Perlunni undir lok árs 2019.
Birgir var síðast forstjóri Íslandspósts, en áður starfaði hann meðal annars sem framkvæmdastjóri hjá Iceland Express og aðstoðarforstjóri hjá WOW air.
Samkvæmt umfjöllun Fréttablaðsins eignast nýir fjárfestar í Play meirihluta í félaginu, en þeir höfðu lagt áherslu á að fá Birgi til starfa, samkvæmt fyrri frétt blaðsins um hlutafjárútboðið.
FEA ehf., félag í eigu Skúla Skúlasonar og fleiri fjárfesta, fór áður með allt hlutafé í Play. Skúli og Arnar Már Magnússon, einn stofnenda og þá forstjóri Play, ræddu ítarlega um stöðu og áform flugfélagsins í samtali við Kjarnann síðasta haust.
Arnar Már ræddi þá um að núverandi lægð í flugrekstri vegna heimsfaraldursins byði í raun upp á gott tækifæri fyrir flugfélagið til þess að koma inn á markaðinn, þar sem leiguverð flugvéla og allra annarra vara tengdum geiranum hefði þrýsts niður. Enginn COVID-draugur myndi fylgja flugfélaginu inn í framtíðina.
Kjarninn hefur hvorki náð sambandi við Birgi Jónsson né Arnar Má Magnússon.