„Sé það niðurstaða Landsnets að [...] jarðstrengurinn sé ekki í boði í dag er ljóst af hálfu sveitarfélagsins að forsendur fyrir umræddri línuleið eru vart til staðar.“
Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar.
„Það er eindreginn vilji bæjarstjórnar Akureyrarbæjar og stefna að Blöndulína 3 verði lögð í jarðstreng frá tengivirki við Rangárvelli og út að sveitarfélagamörkum við Hörgársveit, eða eins langt og mögulegt er.“
Bæjarstjórn Akureyrarbæjar.
„Hörgársveit bendir á að í aðalskipulagi sveitarfélagsins er gert ráð fyrir að flutningslínur raforku verði í jörðu. Aðalvalkostur sem kynntur er í matskýrslu Blöndulínu 3 gerir ráð fyrir að línan verði alfarið útfærð sem loftlína innan marka sveitarfélagsins.“
Sveitarstjórn Hörgársveitar.
Þrjú af þeim fimm sveitarfélögum á Norðurlandi sem Landsnet áformar að Blöndulína 3 fari um vilja að hún verði lögð í jörðu en ekki í lofti um land innan sinna marka. Það er hins vegar ekki langur jarðstrengur til skiptanna samkvæmt þeirri niðurstöðu sem Landsnet setur fram í nýrri umhverfismatsskýrslu sinni á framkvæmdinni. Fyrirtækið telur aðeins gerlegt að leggja 4-7 kílómetra af hinni 100 kílómetra löngu línu í jörð. Og reyndar er aðalvalkostur þess loftlína alla leiðina frá Blöndustöð og til Rangárvalla á Akureyri.
Sveitarfélagið Skagafjörður hefur sett fram kröfu um að jarðstrengskaflinn hjá sér verði 3,7 kílómetrar og Hörgársveit bendir á að í aðalskipulagi sé gert ráð fyrir að flutningslínur raforku verði í jörðu. Blöndulína 3 myndi samkvæmt hugmyndum Landsnets liggja um 44 kílómetra leið um sveitarfélagið en í umsögn sveitarstjórnarinnar við umhverfismatsskýrsluna er sérstaklega tiltekinn um 5,7 kílómetra langur jarðstrengskafli við Hraun og Hólahóla sem tekinn var til mats hjá Landsneti en er ekki aðalvalkostur.
Akureyrarbær vill að sem mestur hluti leiðarinnar frá mörkum bæjarins að Hörgársveit og að tengivirkinu á Rangárvöllum verði lagður í jörð. Þetta er að minnsta kosti 2,3 kílómetra leið.
Sveitarfélögin þrjú eru því áfram um að í það minnsta 11,7 kílómetra kafli Blöndulínu 3 fari í jörð. Ef tekið er tillit til ítrustu krafna Hörgársveitar er kaflinn orðinn 50 kílómetrar eða helmingur allrar línunnar.
Í um tvo áratugi hefur verið stefnt að því að tengja Blöndustöð, fyrstu virkjunina sem alfarið var hönnuð af Íslendingum, með öflugri háspennulínu til Akureyrar og tengja þannig flutningskerfi raforku frá Suðvesturlandi og Norður- og Austurlandi betur. Blöndustöð var reist árið 1991 og í dag fer orkan sem þar er unnin með Rangárvallalínu 1, línu sem rekin er á 132 kV spennu og er hluti af svokallaðri byggðalínu, til Rangárvalla á Akureyri.
Blöndulína 3 mun ef áætlanir Landsnets ganga eftir leysa Rangárvallalínu 1 af hólmi, auka flutningsgetu kerfisins, bæta orkunýtingu innan þess með tengingu milli virkjana og auka afhendingaröryggi víðs vegar um landið.
Í nýrri umhverfismatsskýrslu Landsnets kemur fram að aðalvalkostur fyrirtækisins sé að leggja Blöndulínu í lofti alla leiðina, um heiðar, fjöll og dali, mela, móa og ræktarlönd í fimm sveitarfélögum; Húnavatnshreppi, Sveitarfélaginu Skagafirði, Akrahreppi, Hörgársveit og Akureyri.
Átján „raunhæfir valkostir“ voru metnir, segir Landsnet.
4-7 kílómetrar til skiptanna?
En eftir allt samráðsferlið sem Landsnet segir hafa átt sér stað er enn mikil óánægja og kergja í hagsmunaaðilum, ekki síst meðal landeigenda og sveitarstjórna og snýst hún fyrst og fremst um hversu stór hluti hennar – eða lítill réttara sagt – verður lagður í jörð.
Það er takmörkunum háð hversu stór hluti kerfisins á ólíkum stöðum á landinu getur verið í jörðu og samkvæmt greiningu Landsnets getur lengd jarðstrengja í Blöndulínu mest verið á bilinu 4-7 kílómetrar. Við val á því hvort aðalvalkostur væri loftlína alla leið eða loftlína með jarðstrengskafla horfði Landsnet svo til tveggja þátta: Heildar uppbyggingu flutningskerfisins til framtíðar og umhverfisáhrifa.
Það er hins vegar einmitt meðal annars þetta tvennt sem sveitarfélögin og fleiri hafa aðra skoðun en Landsnet á.
„Til þess að stuðla að aukinni sátt og trausti á fyrirhugaðar framkvæmdir og forsendur þeirra telur skipulags- og byggingarnefnd [Skagafjarðar] mjög mikilvægt að ráðist verði í óháða úttekt á lengd jarðstrengja í Blöndulínu 3 þar sem tekið verði tillit til nýrra upplýsinga,“ segir í umsögn Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Bent er á að Landsnet hafi átt frumkvæði að og margoft komið að vinnu við nýlegar aðalskipulagsbreytingar vegna áformanna í sveitarfélaginu. „Öll samskipti sveitarfélagsins við fulltrúa Landsnets byggðu á því að það væru í boði nokkrir kílómetrar af jarðstreng á línuleiðinni.“
Því hafi verið ákveðið að setja fram kröfu um 3,8 kílómetra jarðstreng sem þótti tæknilega raunhæft. Í umsögnum Landsnets við endurskoðun aðalskipulags, síðast í september í fyrra, „kom aldrei fram að því hugnaðist ákveðinn kostur umfram annan,“ segir í umsögn sveitarfélagsins. Skipulagsbreytingin var staðfest fyrir skömmu og áfram gert ráð fyrir svonefndri Héraðsvatnaleið með a.m.k. 3,8 km jarðstreng. „Sú breyting var unnin með fullri vitund Landsnets á öllum stigum málsins enda opnuðu þeir á þann möguleika að jarðstrengur væri hugsanlega í boði á línuleiðinni.“
Þessi vinnubrögð eru gagnrýnd í umsögn Sveitarfélagsins Skagafjarðar og bent á að ráðist hafi verið í kostnaðarsamar og umdeildar aðalskipulagsbreytingar að beiðni Landsnets en „nokkrum mánuðum síðar leggur Landsnet fram umhverfismatsskýrslu þar sem kemur fram að sveitarfélaginu ber að breyta aðalskipulagi sínu í samræmi við aðalvalkost Landsnets“.
Jarðstrengur sé ein af meginforsendum fyrir legu Blöndulínu 3, að sögn sveitarfélagsins. „Sé það niðurstaða Landsnets að umræddur jarðstrengur sé ekki í boði í dag er ljóst af hálfu sveitarfélagsins að forsendur fyrir umræddri línuleið eru vart til staðar.“
Niðurstaðan í berhögg við augljósar staðreyndir
Hörgársveit bendir í sinni umsögn í fyrsta lagi á að í aðalskipulagi sveitarfélagsins er gert ráð fyrir að flutningslínur raforku verði í jörðu. Því samræmist aðalvalkostur Landsnets ekki gildandi skipulagi.
Línuleið aðalvalkostar Landsnets um sveitarfélagið er m.a. um Öxnadal og voru áhrif um 5,7 kílómetra langs jarðstrengskafla við Hraun og Hólahóla metin í skýrslunni. Aðalvalkosturinn nýtir hins vegar ekki þann kost heldur gerir ráð fyrir loftlínu á umræddu svæði.
Í matskýrslunni kemur fram að Landsnet telji að þegar „á heildarleiðir valkosta [sé] litið [séu] jarðstrengskaflar við Staðarbakka og við Hraun ekki að draga úr einkennum heildaráhrifa“ línumannvirkisins. Af matsskýrslunni má ráða, segir í umsögn Hörgársveitar, að Landsnet telji það ekki hafa hagfelld sjónræn áhrif að leggja línuna í jörð á þessum kafla. „Hörgársveit hafnar þessari niðurstöðu og átelur að niðurstaðan sem þarna er sett fram sé bersýnilega ekki í samræmi við greiningargögn sem fram koma í skýrslunni.“
Sveitarstjórnin bendir á að Hraun og umhverfi þess sé einstakt á landsvísu sökum náttúrufegurðar og sögu staðarins. „Áhrif loftlínu á nærumhverfi sitt á þessu svæði eru án nokkurs vafa verulega neikvæð“ og „útfærsla línunnar sem jarðstrengs á þessum kafla myndi augljóslega draga úr neikvæðum áhrifum mannvirkisins á þessu verðmæta og viðkvæma svæði.“
Niðurstaða mats Landsnets gengur því að mati Hörgársveitar „í berhögg við augljósar staðreyndir og gögn“ og er því „efnislega röng“. Hörgársveit telur „óviðunandi að val aðalvalkostar byggist á villandi og órökstuddri matsniðurstöðu að þessu leyti“.
Hörgársveit gerir líka athugasemd við valda línuleið þar sem hún liggur næst bæjum í Öxnadal, á Þelamörk og í Kræklingahlíð. Gert er ráð fyrir að línan sé jafnvel í aðeins 230 metra fjarlægð frá bæjarhúsum sem skerði umhverfisgæði fólks.
Akureyrarbær er langstærsta þéttbýli landsins utan höfuðborgarsvæðisins en jafnframt landlítið sveitarfélag. Til að tryggja áframhaldandi uppbyggingu bæjarins til framtíðar er mikilvægt að ekki sé farið í framkvæmdir sem geta takmarkað nýtingu á byggingarhæfu landi til lengri tíma, segir í umsögn bæjarstjórnarinnar. „Með nýrri 220 kV háspennulínu alveg að tengivirki á Rangárvöllum í háspennumöstrum er verið að takmarka nýtingu á landi norðan megin við Rangárvelli, vestan megin við Giljahverfi, til næstu áratuga og jafnvel lengur.“
Í umsögninni segir ennfremur að þegar sá kostur að setja loftlínu fram yfir jarðstreng var metinn hafi Landsnet fyrst og fremst litið til framkvæmdakostnaðar en ekki að línustæðið er eina loftlínustæðið í þéttbýli. „Akureyrarbær telur að í matsskýrslu sé ekki hugað nægilega vel að öðrum kostum, m.t.t. þess að í framtíðinni gæti verið skipulagt íbúðarhverfi við línustæðið vegna lítilla landkosta sveitarfélagsins og að línustæðið er innan þéttbýlismarka.“
„Samantekið að þá er það „eindreginn vilji bæjarstjórnar Akureyrarbæjar og stefna að Blöndulína 3 verði lögð í jarðstreng frá tengivirki við Rangárvelli og út að sveitarfélagamörkum við Hörgársveit“.
Jarðstrengur um Sprengisand lausnin?
Hreppsnefnd Akrahrepps gerir ekki athugasemd við umhverfismatsskýrsluna og styður framlagðan aðalvalkost, Kiðaskarðsleið, gegnum Skagafjörð. Akrahreppur mun formlega sameinast Sveitarfélaginu Skagafirði eftir um tvær vikur. Samkvæmt aðalvalkosti Landsnets mun Blöndulína 3 þá samanlagt liggja um 37 kílómetra leið um hið nýja sameinaða sveitarfélag.
Fimmta sveitarfélagið sem Blöndulína mun liggja um, alls 18 kílómetra, er Húnavatnshreppur sem ákveðið hefur verið að sameina Blönduósbæ. Hið nýja sveitarfélag verður formlega að veruleika 29. maí.
Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi (SUNN) setja fram þá hugmynd í sinni umsögn að Landsnet setji í forgang lagningu jarðstrengs um Sprengisand og tengi þannig virkjanir sunnanlands og norðan stystu leið. Þar með myndi það markmið að styrkja flutningskerfið nást og á sama tíma mætti þyrma friðlýstum og verðmætum útivistarsvæðum á áformaðri leið Blöndulínu 3 því með þessu myndu möguleikar til lagningar hennar í jörð aukast.
Í ítarlegri umsögn SUNN er bent á að Landsnet hafi talað fyrir hálendisleið í sínum kerfisáætlunum í mörg ár og þar komið fram að strengur á Sprengisandsleið hefði „jákvæð áhrif á mögulega lengd jarðstrengja á Norðurlandi“.
Frestur til að gera athugasemd eða senda umsögn við umhverfismatsskýrslu Landsnets um Blöndulínu 3 rann út í gær, 16. maí.