Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, svaraði því ekki efnislega hvort ríkisstjórnin sé farin að endurskoða áætlanir sínar um komu ferðamanna hingað til lands í ár í ljósi þess hvernig hlutir hafa atvikast síðustu dag, þegar hann var spurður um það í óundirbúnum fyrirspurnum í dag.
Opinberar áætlanir ríkisstjórnarinnar gera ráð fyrir að hingað til lands komi 720 þúsund ferðamenn í ár. Bjarni líkti þess í stað heimsfaraldrinum við það að klífa fjall og að nú sæist glitta í tindinn. „Það á að fylla okkur bjartsýni. Við eigum ekki að tala eins og að eins og við séum að fara afturábak.“
Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, spurði Bjarna hvort að fyrirliggjandi aðstæður; að veiran væri komin aftur á kreik með tilheyrandi takmörkunum á fólk og fyrirtæki hérlendis sem erlendis, að verðbólga væri enn að vaxa (hún er nú 4,3 prósent) og að atvinnuleysi væri gríðarlega mikið (það er nú 12,5 prósent) kölluðu ekki á að það þyrfti að fara að búa sig undir „hina verstu sviðsmynd“.
Í fyrirliggjandi fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2022-2026 er meðal annars byggt á því að meginþorri landsmanna og íbúa helstu viðskiptalanda verði bólusettur um miðbik þessa árs. Á þeim grunni gerir þjóðhagsspá Hagstofunnar ráð fyrir fjölgun ferðamanna sem drífi áfram efnahagsbatann, en gert er ráð fyrir að ferðamenn sem heimsæki Ísland verði 720 þúsund í ár og fjölgi um 80 prósent á næsta ári, 2022, og verði þá 1,3 milljónir alls. Á metárinu 2018 voru ferðamenn sem heimsóttu Ísland 2,3 milljónir og árið 2019 voru þeir rétt tæplega tvær milljónir.
Bjarni sagðist ekki getað svarað spurningu Jóns Steindórs öðruvísi en svo að stjórnvöld væru að miða sínar áætlanir við bestu upplýsingar á hverjum tíma. „Að fást við svona heimsfaraldur er eins og að klífa fjall. Þetta er mjög hátt fjall. Við vissum varla hversu hátt það var þegar við lögðum af stað. Og í slíkum leiðangri þá þarf maður stundum að taka hlé og fara í búðir. Nú erum við farin að sjá tindinn, loksins.“
Þar vísaði fjármála- og efnahagsráðherra til þeirra straumhvarfa sem væru að verða víða vegna bólusetningar. Í Bretlandi hefði til að mynda tekist að bólusetja eina milljón manns á einum sólarhring og um mitt ár 2021 standi til að meginþorri fullorðinna Íslendinga verði bólusettir. „Við erum að fara inn í ársfjórðung sem er eins og lokaatlagan að toppi fjallsins.“ Bjarni telur að allt annar veruleiki muni taka við á seinni hluta yfirstandandi árs og það eigi að kalla fram bjartsýni.